Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Qupperneq 152
150
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
í upphafi skólavistar.
Segja má að nám sé lífsgæði og lykill
að framtíð. Nám þarf að vera hæfilega
krefjandi fyrir hvern og einn (Tomlinson,
1999) og því hljóta minni námskröfur til
nemenda af erlendum uppruna að rýra lífsgæði
þeirra samanborið við innfædda. Ákvarðanir
um minni námskröfur virðast hvíla annars
vegar á slakri tungumálakunnáttu nemenda
og hins vegar erfiðleikum í samstarfi heimilis
og skóla um námið. Í stað þess að rýra
möguleika nemenda til náms og lífsgæða þarf
að hlúa sérstaklega að þessum tveimur þáttum.
Fræðimenn hafa sýnt fram á nauðsyn þess að
skólar og kennarar tileinki sér þau auðæfi sem
felast í fjölbreytileikanum, vinni úr þeim og
kunni að meta menningarlega fjölhyggju. Þeir
tala um að ekki megi eyða menningarlegri
fjölbreytni eða umbera hana með semingi.
Fjölmenningarleg kennsla á ekki að vera
viðbót eða útfærsla sem byggir á fyrri hugsun
um menntun. Hún verður að vera forsenda
og meginmarkmið menntunar. Markmið
fjölmenningarlegrar kennslu nást ekki ef henni
er eingöngu beitt sem íhlutun vegna erfiðleika
eða menningarmismunar (Parekh, 2006; Tiedt
og Tiedt, 2002).
Í skólunum í Manitoba (Kanada) var
námsumhverfið mótað í þeim tilgangi að styrkja
sjálfsmynd nemenda af erlendum uppruna og
nemendur beinlínis hvattir til að taka þátt í
sem flestu í félags- og skólastarfi. Kennararnir
áttuðu sig betur á stöðu nemenda en íslensku
og norsku kennararnir og unnu markvisst
að því að jafna hana sem best, m.a. með
sérsniðum áætlunum (Gordon, 2005). Íslensku
og norsku kennararnir gerðu sér grein fyrir því
að sjálfsmynd barna af erlendum uppruna væri
slök. Norsku kennararnir töluðu um mikilvægi
þess að nemendur lærðu samvinnu og að unnið
væri með félagslega þætti. Hins vegar mátti
greina mótsagnir í orðum þeirra og gjörðum því
í vettvangsathugunum kom fram að lítil áhersla
virtist lögð á samvinnu í kennslunni. Ainscow
(1999) hefur sýnt fram á að nemendur geta lagt
mikið af mörkum með því að vinna saman og
hjálpa hver öðrum. Stuðningur nemenda hver
við annan er oft vannýtt afl sem getur fjarlægt
hindranir og aukið möguleika allra til betra
náms og aukins skilnings. Aðalatriðið er færni
kennara til að virkja þessa ónotuðu orku og
skipuleggja kennsluna þannig að hún ýti undir
félagslegan þátt námsins.
Svör þátttakenda við spurningum er snerta
aðlögun nemenda af erlendum uppruna að
nýju menningarsamfélagi benda til þess að þar
séu talsverðir erfiðleikar á ferð, sérstaklega
kom þetta fram hjá norsku og íslensku
kennurunum. Tungumálið er mörgum þessara
nemenda fjötur um fót og tengsl kennara við
foreldra virðast oft lítil eða engin. Kanadísku
kennararnir virtust átta sig vel á því hvernig
nemendur af erlendum uppruna aðlagast nýju
menningarsamfélagi. Þeir segja ríka hefð fyrir
því að innflytjendur séu stoltir af menningu
sinni og siðum, sem m.a. getur helgast af því
að menningu nemenda er gert hátt undir höfði
í skólunum. Norsku og íslensku kennararnir
virtust hins vegar fría sig ábyrgð gagnvart
börnum af erlendum uppruna. Þeir töluðu
um „þetta fólk“ og „öðruvísi fólk“ og töluðu
um skil á milli Norðmanna eða Íslendinga og
innflytjenda. Slíkar yfirlýsingar geta bent til
fordóma eða þekkingarskorts og verið hindrun
í samskiptum (sjá t.d. Banks, 2002; Gay,
2000). Þessir kennarar töldu það ekki sitt
hlutverk að stuðla að aðlögun nemendanna að
nýju samfélagi og þeir virtust ekki vita hvernig
þeir aðlagast norsku eða íslensku samfélagi.
Fram kom hjá einum norsku kennaranna að
hann sæi ekki gildi þess að fólk af ólíkum
þjóðarbrotum byggi í sama landi. Svo virðist
sem þessa kennara skorti skilning og innsæi á
þessu sviði.
Í öllum löndunum kom fram að nemendur
af erlendum uppruna eiga í erfiðleikum með
tungumálið og málskilning, merking ritaðs og
talaðs máls er þeim fjötur um fót, sérstaklega
fyrstu árin eftir að þeir koma til landsins.
Kanadísku kennararnir lögðu sjálfir mat á
stöðu nemenda sinna en gátu einnig leitað til
fagaðila innan skólans. Í Noregi var ekki lagt
formlegt mat á tungumálakunnáttu erlendu
nemendanna í skólunum sem farið var í og því
Fjölmenningarleg kennsla í Manitoba í Kanada, í Noregi og á Íslandi