Gerðir kirkjuþings - 2006, Síða 106
Að mati kenningamefndar snerta þessir ritningarstaðir ekki trúargrundvöllinn
svo að ágreiningur um túlkun þeirra sundri einingu kirkjunnar. Þessir staðir fordæma
ekki samkynhneigð sem slíka og heldur ekki þá einstaklinga sem lifa í kærleiksríkri
sambúð ástar og trúfesti.
b) Siðfrœðilegar hefðir
Á grundvelli trúarinnar, að Guð sé skapari allra manna og að samur sé uppruni
allra manna sem mynda eina fjölbreytta fjölskyldu um alla jörð, metur kirkjan alla jafna
og talar máli réttlætis og mannréttinda. Á grundvelli trúarinnar á skapara himins og
jarðar lítur kirkjan svo á að Guð kalli alla menn til þjónustu við sig í siðferðilega
ábyrgu lífi, líka þá sem ekki viðurkenna tilvist hans. Að kristnum skilningi ber mönnum
að lifa í heiminum samkvæmt tvöfalda kærleiksboðinu og gullnu reglunni. Þegar upp
koma álitamál í siðferðilegum efnum, eins og hér er til umræðu, ber að hafa þau viðmið
í heiðri.
Allt til þessa hafa ríki heims og trúarbrögð mannkyns gengið út frá því að
hjónaband sé samband karls og konu. Skilgreining kirkjunnar á hjónabandi hefur alla
tíð gengið út frá því sama að Guð hafi skapað manninn, karl og konu og blessað þau.
Að lúterskum skilningi er hjónabandið þó ekki sakramenti og ekki á forræði kirkjunnar,
heldur lýtur sifjarétturinn, og þar með stofnun hjúskapar, lögum ríkisins. Lúther mat
hjónabandið mikils sem hina góðu sköpunarreglu Guðs og samdi hjónavígslurítúal sem
var snemma þýtt á íslensku og notað hér með litlum breytingum til loka 19. aldar.
Aðkoma kirkjunnar að hjónavígslu byggir á því að ríkt hefur samskilningur
menningar, löggjafar og trúar hvað varðar skilgreiningu á hjúskap svo að umræðan um
endurskilgreiningu hjúskapar og hjónabands varðar samstöðu kirkju og samfélags.
Kirkjan viðurkennir önnur sambúðarform til viðbótar hjónabandi karls og konu.
c) Köllun kirkjunnar til þjónustu í heiminum
Kirkjan er kölluð til að þjóna og bera Jesú Kristi vitni í heiminum. Með iðkun
sinni, boðun, sálgæslu og þjónustu leitast kirkjan við að vera gestrisin og opin og vitna
þannig um kærleika Guðs og náð sem umvefur alla, jafnt samkynhneigða sem
gagnkynhneigða.
Samkynhneigðir og fjölskyldur þeirra hafa oft mætt andúð og fordómum. Þeir
þurfa því sérstaka umhyggju og stuðning hins kristna samfélags til að endurheimta og
varðveita jákvæða sjálfsmynd sem Guðs böm og hluti hans góðu sköpunar.
Kristnu samfélagi er mikilvægt að sýna virðingu og umhyggju, þolinmæði og
umburðarlyndi. Á öllum, jafnt samkynhneigðum sem gagnkynhneigðum hvílir sama
grundvallarskylda trúfesti, ábyrgðar, hófsemi og virðingar. Öll eigum við að lifa
samkvæmt kærleiksboðinu: “Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og
náunga þinn eins og sjálfan þig.”
Staðfest samvist er löggilt sambúðarform tveggja einstaklinga af sama kyni sem
stofnað er hjá borgaralegum yfirvöldum og veitir þeim hliðstæð réttindi og hjónaband.
Þjóðkirkjan styður þá einstaklinga af sama kyni sem staðfesta samvist sína og
skuldbindingar. Þjóðkirkjan vill standa með þeim í vilja þeirra og viðleitni til að lifa
saman í ást og trúmennsku.
104