Skírnir - 01.09.1992, Page 211
SKÍRNIR
EINN HRING - ANNAN HRING
473
Ef hæfileikinn til að skilgreina athafnir manna og stjórnmál er talinn
skipta mestu hjá sagnfræðingi - og á okkar dögum hneigjast menn að
minnsta kosti til að meta slíkt mikils - hlýtur Snorri að teljast einn af
mestu sagnfræðingum Evrópu á miðöldum, ef ekki sá allra fremsti.11
I tengslum við þetta bendir Bagge á að yfirburðir Snorra felist ekki svo
mjög í því að hann setji fram staðreyndir sem finnast ekki í eldri frásögn-
um um Noregskonunga, heldur í hæfileika hans við að skýra röktengsl
atburða og ástæður fyrir gerðum manna. Sem lykilatriði til skilnings á
þessum yfirburðum leggur Bagge aftur á móti áherslu á stjórnmálainnsæi
Snorra og beina þátttöku hans í flóknu valdatafli Sturlungaaldarinnar þar
sem helstu átökin áttu sér stað fyrir opnum tjöldum og miklu varðaði
fyrir höfðingja að tryggja sér víðtækt fylgi. Þetta síðastnefnda skýri m.a.
hve mikil áhersla er lögð á hlut alþýðu í þróun mála. „Snorri lýsir hvern-
ig fólki er stjórnað eða hvernig ráðskast er með það“, segir Bagge (16). Á
þennan hátt veiti Heimskringla því ekki síður innsýn í hugmyndaheim
13. aldar en sögulegrar fortíðar, - og hér má væntanlega einnig skjóta inn
ummælum Halldórs Laxness og segja að sögurnar séu „óafmáanlegur
vitnisburður um Snorra sjálfan".12
Þar með höfum við að vissu marki tekið okkur stöðu við hiið Snorra
og í framhaldi af því liggur beint við að skoða sögurnar frá sjónarhóli
miðaldamanna til sagnaritunar, staðreynda og skáldskapar. Eins og
Sverrir Tómasson hefur bent á drógu þeir augljóslega „markalínu milli
þess efnis sem þeir töldu vera sagnfræði og hins sem þeir álitu vera ein-
beran skáldskap“.13 Að þessu leyti var Snorri engin undantekning. Um
leið leggur Sverrir þann skilning í umsögn Heimskringlu um heimildar-
gildi kveðskapar „að Snorri hafi litið á skáldskap sem túlkun innri og
ytri sanninda. Hafi svo verið gert af öðrum rithöfundum um þær mundir
sem Heimskringla var saman lesin, þá hlaut það að leiða til þess að túlk-
un fortíðarinnar varð að skáldskap, res fictae bæði í bundnu máli og
óbundnu" (262). Hér hefur skáldskapurinn verið hafinn til ólíkt meiri
virðingar en hann naut í skrifum ýmissa fyrri tíma manna. Þótt hann
birti ekki staðreyndir er hann talinn birta sannindi, eitthvað sem gæti
hafa gerst og jafnvel gamlir menn hafa fyrir satt.
11 Sverre Bagge. „Sagnfræðingurinn Snorri Sturluson," Tímarit Máls og menn-
ingar 52/3 (1991), 17.
12 Halldór Laxness. „Ræða um Snorra," Snorri - átta alda minning. Reykjavík
1979, 13.
13 Sverrir Tómasson. „Söguljóð - skrök - háð. Viðhorf Snorra Sturlusonar til
kveðskapar," Skáldskaparmál I. Reykjavík 1990, 255. Sbr. einnig rit Sverris.
Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum. Reykjavík 1988.