Skírnir - 01.09.1992, Page 214
476
ÞÓRIR ÓSKARSSON
SKÍRNIR
hefur verið talið og jafnvel norskt í þokkabót (sbr. Diana Whaley,
16-17). Þessi hugmynd hefur vissulega ekki hlotið neinn stuðning ann-
arra fræðimanna enda mælir margt beinlínis gegn henni. Né heldur hafa
menn hampað skoðun Lars Lönnroths frá 1964 að eðlilegra væri að líta á
Snorra sem einn af „ritstjórum“ Heimskringlu en eiginlegan höfund
hennar.17 Bæði hafi hann haft fjölmarga skrifara á sínum snærum og
unnið verkið upp úr eldri ritum. í „Inngangi" Heimskringlu telja rit-
stjórar upp alls 13 slík „heimildarrit“ (III, xxiv) og eins og Diana Whaley
bendir á (72) eru margir af áhrifamestu köflum Heimskringlu teknir
beint að láni en ekki frumsamdir af Snorra. Þessar athugasemdir hafa þó
ekki dregið úr áliti fræðimannanna á frumleika Snorra né haggað þeirri
skoðun að Heimskringla beri augljós höfundareinkenni hans, jafnvel í
þeim köflum þar sem hann hefur stuðst mest við fyrri tíma rit.
A þennan hátt hafa efasemdir um höfundskap Snorra jafnan verið
bornar til baka. Auðveldara virðist hins vegar að sannfæra menn um að
hann hafi verið enn afkasta- og áhrifameiri rithöfundur en heimildir
segja til um. Nú má heita almennt viðurkennt að hann hafi einnig sett
saman Egils sögu og í „Inngangi" Heimskringlu leggja ritstjórar fram
enn ein rök fyrir slíkri feðrun. Þar birta þeir töflu yfir 11 algengustu orð-
myndir Heimskringlu, Egils sögu, Islendingasagna allra, Sturlunga sögu
og Grágásar og benda á að „fimm algengustu orðmyndirnar koma fyrir í
sömu röð í Heimskringlu og Eglu“ (III, xlvii). Röðin er hins vegar önnur
í hinum textunum. Enn sem komið er hefur heldur enginn orðið til þess
að andmæla opinberlega kenningu Jónasar Kristjánssonar um að Snorri
hafi gerst eiginlegur upphafsmaður Islendingasagna með Egils sögu frá
1230.18
Ef marka má skrif fræðimanna frá þessu ári er ekki heldur óhugsandi
að Snorra verði fljótlega skipað á bekk meðal merkustu ljóðasmiða ís^
lendinga fyrr og síðar. Hingað til hafa menn fremur litið á hann sem
hálfgerðan „hagyrðing“ og jafnvel minnt í því samhengi á frásögn ís-
lendinga sögu Sturlu Þórðarsonar um það hvernig „Sunnlendingar drógu
spott mikið að kvæðum þeim er Snorri hafði ort um jarlinn [Skúla] og
sneru afleiðis".19 I „Inngangi“ Heimskringlu (III, xx) er hins vegar vakin
athygli á nýrri grein Bjarna Einarssonar þar sem hann varpar fram þeirri
hugmynd að Snorri hafi sjálfur ort eitthvert frægasta kvæði íslenskra
fornbókmennta, Sonatorrek sem lengstum hefur verið kennt Agli Skalla-
17 Lars Lönnroth. „Tesen om de tvá kulturerna: Kritiska studier i den islándska
sagaskrivnings sociala förutsáttningar," Scripta Islandica 15 (1964).
18 Jónas Kristjánsson. „Var Snorri Sturluson upphafsmaður íslendingasagna?“
Andvari 32(1990), 85-105.
19 Sturlunga saga I. Reykjavík 1946, 278. Til bókarinnar verður eftirleiðis vísað
með blaðsíðutali innan sviga.