Jón á Bægisá - 01.12.2006, Síða 93
Á hálum ís - Ijóðran skautahlaup
Plays (Iceland) sem kom út árið 1973 hjá Universitetsforlaget í Osló og
Twayne Publishers í New York. Þar birtust fimm leikverk eftir Halldór
Laxness, Jökul Jakobsson, Erling E.HalIdórsson og Odd Björnsson (2).
Þrjú fyrstu leikritin voru þýdd af Alan Boucher, en verk Odds af Guðrúnu
Tómasdóttur.
Land aus dem Meer
Áðuren The Postwar Poetry of Iceland kom út vestanhafs, hafði ég búið
rúmt ár í Vestur-Berlín (1979-80) og verið önnum kafinn vormánuðina
1980 við að undirbúa fyrstu meiriháttar kynningu á íslenskri og færeyskri
menningu í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöld. Að henni stóð Neue
Gesellschaft fúr Literatur með formanninn, Ingeborg Drewitz rithöfund,
í broddi fylkingar. Kynningin var þríþætt: bókmenntir, tónlist og kvik-
myndir.
Afráðið var að setja saman myndarlegt safnrit fyrir bókmennta-
kynninguna með sýnishornum af verkum höfunda, sem boðið yrði til
Berlínar, ásamt öðru efni. Var okkur Heinz Baruske og Ingeborg Drewitz
falið að hafa veg og vanda af ritinu, sem var 193 blaðsíður og nefndist
Land aus dem Meer — zur Kultur Islands und der Faröer Inseln. Af íslenska
efninu má nefna ljóð eftir Stein Steinarr, Matthías Johannessen, Nínu
Björk Árnadóttur, Steinunni Sigurðardóttur og mig, sögur eftir Halldór
Laxness, Thor Vilhjálmsson, Hannes Pétursson og Guðberg Bergsson,
ásamt ritgerðum um íslenska leiklist, myndlist, tónlist og bókmenntir eftir
Jón Laxdal, Björn Th. Björnsson, Jón Þórarinsson og mig. Heinz Baruske
þýddi bróðurpartinn af efninu nema ‘Dauða Baldurs’ sem Wolf Kúhnelt
snaraði. Bókina prýddu grafíkmyndir eftir Þórð Hall, Eddu Jónsdóttur,
Björgu Þorsteinsdóttur, Ragnheiði Jónsdóttur, Richard Valtingojer, Jón
Reykdal og Valgerði Bergsdóttur.
Islenska bókmenntakynningin fór fram 9nda og ionda júlí í stærsta
nýbyggða bókasafni Vestur-Evrópu, Neue Staatsbibliothek, þarsem jafn-
framt voru til sýnis bækur á frummálunum og nýlegar grafíkmyndir frá
Islandi og Færeyjum. Áðuren bókmenntakynningin hófst var efnt til
opnunartónleika í húsakynnum Deutscher Akademischer Austauschdienst
(DAAD) þarsem leikin voru verk eftir Jón Ásgeirsson, Fjölni Stefánsson,
Þorkel Sigurbjörnsson og Atla Heimi Sveinsson. Höfundar sem komnir
voru á vettvang til að kynna verk sín voru Guðbergur Bergsson, Matthías
Johannessen, Nína Björk Árnadóttir og Steinunn Sigurðardóttir. Jón
Laxdal þýddi og las upp verk íslensku skáldanna við frábærar undirtektir
aukþess sem hann flutti einleik sinn, Heimssöngvarann. Thor Vilhjálmsson
á Áföasyröiá — í DAG HEYRA sönggyðjurnar til þín
91