Bændablaðið - 28.05.2015, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 28. maí 2015
Bændablaðið leitaði til ráðunauta
á helstu kornræktarsvæðum
landsins og kannaði í gegnum
þá hug kornbænda til komandi
sumars – og hvernig afkoman hafi
verið í fyrrahaust.
Almennt virðist ætla að verða
einhver samdráttur; bæði vegna
ágangs álfta og gæsa, en einnig hefur
tíðarfarið haft áhrif á sumum stöðum.
Húnavatnssýslur
„Ég held að það sé nú ekki mikill
samdráttur hér ef hann er nokkur
– mér sýnist hann í raun vera á
pari við það sem var í fyrra, en þá
minnkaði aðeins. Bændur eru seinir
með sáningu og kláruðu að mestu að
sá helgina 16. og 17. maí. Yfirleitt
hefur þetta verið að klárast upp úr
mánaðamótum, þannig að þetta er
svona hálfum mánuði á eftir.
Það urðu auðvitað einhver afföll
í fyrrahaust út af veðri og það náðist
mjög seint, en það sem náðist var
mjög gott – þroskað og gott korn.
Uppskeran var jafnvel meiri en í
meðalári hjá okkur.
Korn lagðist hér eitthvað og
brotnaði í fyrra – og bændur urðu
fyrir einhverju foktjóni líka, en
samt var uppskeran bara fín þegar
á heildina er litið.“
Skagafjörður
„Það var byrjað að sá hér korni
í kringum 6. maí,“ segir Eiríkur
Loftsson, ráðunautur í Skagafirði.
„Hér hefur verið aðeins klaki, sem
hefur tafið. Oft hafa menn ná að
klára í kringum 15.–20. maí – og
jafnvel fyrr þegar menn hafa náð
að sá talsvert í apríl – en það verður
nú ekki núna.
Að umfangi er heldur samdráttur
sýnist mér og það er náttúrlega
að einhverju leyti um að kenna
hvað vorið er seint á ferðinni. Ég
ímynda mér að samdrátturinn geti
verið fimmtungur af því sem var í
fyrra. Menn hafa líka verið að lenda
í áföllum undanfarin ár. Einhverjir
ætla að færa sig til með hluta af sinni
ræktun og þá er dálítið óvissa sem
slíku fylgir.“
Norðausturland
„Ég held að það stefni í jafnvægi
miðað við síðustu ár – og ekki
miklar breytingar. Þó það hafi verið
kalt þá seinka bændur bara sáningu í
samræmi við það, en eru ekkert mjög
seinir,“ segir Sigurgeir Hreinsson
um horfur varðandi kornsáningu í
Eyjafirði.
„Það er algengast að menn sái í
fyrstu vikunni í maí og menn voru
farnir af stað hér svona í kringum
10.–15. maí. Þetta var mun verra
árið 2013, þegar bændur voru að sá
eftir 20. maí. Það er þó á einstaka
stöðum hér að bændur hafa enn ekki
getað sáð.
Helst er það í Svarfaðardal sem
einhver samdráttur mun verða og
kannski eitthvað í Þingeyjarsýslum,
trúi ég.
Í Eyjafirði var jörð í góðu standi
í kringum 20. apríl, í raun óvenju
góð; þurr og klakalaus – og að byrja
að grænka. Á þeim tíma leit þetta því
mjög vel út og þó menn hafi lent í
stoppi núna þá er það svo sem allt í
lagi því jörðin er í raun tilbúin. Mér
fannst tónninn í bændum snemma í
vor vera þannig að þetta yrði mjög
svipað og undanfarin ár að umfangi
og ef þessi kuldatíð dregst ekki mjög
á langinn á ég ekki von á því að
samdráttur verði umtalsverður.
Afkoma kornbænda á
Norðausturlandi í fyrra var að sögn
Sigurgeirs ágæt. „Þetta var gott
sprettu-ár. Við vildum reyndar fá
ennþá meira að meðaltali, en margir
voru með mjög góða uppskeru. Á
heildina var hér besta sprettu-ár sem
menn muna eftir í fyrra, en það skilaði
sér ekki alveg nógu vel í korninu hjá
okkur.“
Skaftafellssýslur
„Það eru held ég allir búnir að sá núna
trúi ég,“ sagði Grétar Már Þorkelsson
í samtali við blaðamann 20. maí, en
Grétar hefur fylgst með kornbændum
í Skaftafellssýslum. „Líklega eru
menn um hálfum mánuði seinna á
ferðinni í sáningunni en í fyrra. Að
umfangi verður þetta með svipuðu
sniði og í fyrra. Einhver samdráttur
er þó á tilteknum svæðum – aðallega
út af tjóni af völdum gæsa og álfta.
Bændur í Lóni eru til að mynda
alveg hættir í kornbúskap og hættu
í raun í fyrra. Í Nesjum hefur hins
vegar orðið svolítið aukning. Ég veit
ekki hversu mikið verður undir hjá
Flateyjarbúinu, en kornrækt þar
hefur auðvitað minnkað talsvert frá
því þegar Lífsval var með búskapinn
þar.
Við fengum mjög gott sumar í
fyrra; korn þroskaðist snemma og
bændur gátu þreskt áður en gæsin
kom. Uppskera var með mesta móti
í samanburði við mörg síðustu ár.“
Óli Kristinn, Eystra-Seljalandi
„Ég verð með mikið minna núna en
áður,“ segir Óli Kristinn Ottósson,
kúa- og kornbóndi á Eystra-
Seljalandi undir Eyjafjöllum. „Ég
minnka umfangið úr 100 hekturum
niður í 16 hektara. Það er erfitt
umhverfi í kornræktinni og raunar
ýmsar ástæður fyrir því að ég
minnka þetta mikið við mig; bæði
höfum við orðið fyrir miklu tjóni
af völdum álfta og gæsa og svo
er kornræktin ekki styrkt nema að
litlu leyti – þannig að þetta er ekkert
nema tapið. Mér finnst svakalega
lélegt að við kúabændur séum ekki
styrktir til jafns við svínabændur á
alla hektarana.
Álftin hefur verið stórtækust
hér og í fyrra hugsa ég að hún hafi
tekið alveg af tíu hekturum hjá mér
í restina. Þar fyrir utan lækkaði
heimsmarkaðsverðið, en ég hef
verið að selja Fóðurblöndunni hluta
af minni uppskeru. Þeir lækkuðu
auðvitað verðið fyrir það korn, enda
hagkvæmara fyrir þá að kaupa bara
erlendis frá.
Sumir hér í nágrenni við mig ætla
að hætta alveg og enn aðrir minnka
töluvert við sig – og rækta í raun
kornið bara til að ná hálminum.“
Suðurland – vestan Eyjafjalla
„Þetta er miklu seinna en vanalega – ég
segi hiklaust hálfum mánuði seinna um
gróður og jafnvel meira,“ segir Sveinn
Sigurmundsson, framkvæmdastjóri
Búnaðarsambands Suðurlands, um
kornræktarsvæðin á vesturhluta
Suðurlands. „Það kom um daginn
alveg þriggja vikna tímabil, mjög
þurrt og mjög kalt. Á meðan gerðist
ekkert í jarðveginum.
Ég held að það verði minna
sáð í ár en á síðasta ári. Það hefur
verið svolítill samdráttur í þessu
til nokkurra ára; bæði hafa verið
lök kornræktarár og svo hefur sums
staðar verið mikið tjón af völdum
álfta og gæsa að menn geta ekki
lengur staðið í þessu af þeim sökum.
Kornárið í fyrra var í sjálfu sér
ekkert slæmt, en það var heldur
ekkert gott. Í lágsveitum var svo
mikil bleyta að korn þroskaðist verr
en í uppsveitum. Það viðraði líka
illa til kornþreskingar og vegna þess
varð tjónið af völdum álfta og gæsa
enn meira en ella.“ /smh
Óli Kristinn Ottósson, Eystra-Seljalandi, ætlar að draga saman seglin í kornræktinni í sumar og fer úr 100 hekturum í 16 hektara. Mynd / smh
Horfur fyrir kornræktina árið 2015 eru ekki góðar:
Útlit fyrir einhvern samdrátt
− einkum vegna tjóns af völdum álfta og gæsa
Á undanförnum mánuðum – og
misserum raunar – hefur talsvert
verið rætt um það tjón sem hlýst af
ágangi álfta og gæsa í ræktarlöndum
bænda.
Skemmst er að minnast ráðstefnu
í apríl í Gunnarsholti þar sem
vandamálið var til umræðu. Þar voru
niðurstöður kynntar úr verkefni sem
gengur út á að bændur skrásetji tjón í
sínum löndum vegna þessara vágesta.
Í ljós hefur komið að vandamálið
er umfangsmikið og á síðasta ári
tilkynntu bændur tjón á ríflega 2.500
hektara lands.
Jónas Björgvinsson er
framkvæmdastjóri fyrirtækisins
Fuglavarnir.is. Það sérhæfir sig í
hljóðkerfislausnum til að fæla ýmsar
fuglategundir frá svæðum þar sem þeir
eru ekki velkomnir.
Hann er ekki sáttur við þá
orðræðu sem hefur átt sér stað um
vandamálið. „Það hefur verið hávær
umræða undanfarið frá bændum í
korn- og nýrækt
að úrbóta sé
þörf og engar
lausnir til.
Ákveðnir aðilar,
meðal annars í
stjórnkerfinu,
hafa haldið fram
opin berlega að
allar fuglafælur,
þar með talið hljóðfuglafælur, virki
aðeins í skamman tíma en það er
ekki rétt. Okkar búnaður og tækni
hefur verið í notkun í um 20 ár í
Bretlandi og víðar um heiminn með
mjög góðum árangri. Við notumst
við eigin varnarkerfi fuglana sem þeir
treysta á og hafa notað í þúsundir ára.
Okkar búnaður spilar sér aðgreind
aðvörunarhljóð valinnar tegundar út
í umhverfið. Fuglinn veit ekki betur
en að annar fugl í nágrenninu sé í
hættu og varar við. Þannig erum við
að blekkja þeirra eðlisávísun sem þeir
ávallt treysta á.
Annars konar lausnir eins og til
dæmis byssuhvellir frá gasbyssum,
glitfælur og vindrellur er eitthvað sem
fuglar geta frekar vanist með tímanum
enda hafa háværir hvellir og glitrandi
hlutir litla eðlislega þýðingu fyrir
fuglinn. Hann einfaldlega hrekkur við
og fælist við það sem er óþekkt og nýtt
í umhverfinu en mun oft á endanum
venjast þeim lausnum.
Einnig hafa verið ræddar
hugmyndir eins og að setja saman
sérstakar varðsveitir manna sem fara
á milli bæja og fæla burtu fugl og
hafa jafnvel heimild til að skjóta á
fuglinn. Það má vel vera að það virki
í mörgum tilvikum en auðvitað er það
kostnaðarsöm aðferð og tímafrek.
Við erum stöðugt að vinna í því
að endurbæta okkar lausnir. Nú þegar
virkar okkar tæki mjög vel á máva,
hrafn, starra, gæsir (grágæs, blesgæs
o.fl.) og erum með lausnir gegn
álftinni þó að okkar viðskiptavinir séu
sammála um að álftin sé mjög erfið
og tregari til að fara, þá er þó virkni
í okkar búnaði. Við viljum ekki búa
til falskar vonir en okkar lausnir eru
raunhæfur kostur.
Við erum komin með nýja tegund
tækis með endurbættum hljóðum sem
hefur verið í þróun í þrjú ár og heitir
Scarecrow 360. Nýja tækið líkir enn
betur eftir fuglum sem eru á ferðinni
og notast er við sérstaka „surround
tækni“ þannig að hljóðið frá tækinu
stigmagnast og færist til. Scarecrow
360 inniheldur tíu mismunandi
aðvörunarhljóð.
Tækið virkar auðveldlega á 4–6
hektara og er í mörgum tilvikum að
ná yfir 6–8 hektara en fer þó eftir
aðstæðum og umhverfi. Þannig tæki
kostar hjá okkur 230 þúsund kr. fyrir
utan vsk.“
Leiga nú líka í boði
„Einnig er það nýjung hjá okkur að
bjóða upp á leigu á tækjunum. Leiga
er góður kostur fyrir marga sem vilja
ekki fara strax í fjárfestingar og vilja
prófa sig áfram með þessar lausnir.
Leigan er frá 32.000 kr. með vsk á
mánuði.
Búnaðurinn er auðveldur í
uppsetningu og keyrir á venjulegum
12v rafgeymi í nokkrar vikur.
Almennt er talið að raunkostnaður
við hvern hektara sé um 150–200
þúsund krónur með öllu, svo
augljóslega er til mikils að vinna ef
svona búnaður bjargar að lágmarki
4–6 hekturum af uppskeru næstu 5–7
ár sem er raunhæfur endingartími á
svona tæki. Það gerir að meðaltali,
á fimm ára tímabili, 25 hektara af
bjargaðri uppskeru sem reiknast á
um 5 milljónir kr. á hvert tæki,“ segir
Jónas.
Blaðamaður ræddi við þrjá
bændur með reynslu af hljóðkerfum
frá Jónasi og bar þeim saman um að
kerfin virki á þeirra áhrifasvæðum.
/smh
Jónas
Björgvinsson.
Jónas Björgvinsson, framkvæmdastjóri Fuglavarnir.is:
Bjóðum upp á raunhæfar lausnir