Bændablaðið - 28.05.2015, Qupperneq 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 28. maí 2015
Meðan við þreyjum þorrann
og góuna í misjöfnum veðrum
og vindum er gott að ylja sér
við tilhugsun um ferðalög og
gönguferðir á sumri komanda.
Það léttir lundina að hafa eitthvað
að hlakka til og þótt við höfum
flest vitað það fyrir, þá hefur
nú verið fundin sönnun þess að
útivist og fjallgöngur gera okkur
heilbrigðari og sælli á sál og
líkama. Ferska loftið og náttúran
eru heilsulindir.
Ferðafélagið Norðurslóð skipu-
leggur gönguferðir minnst einu
sinni í mánuði en félagið starfar á
svæðinu frá Kelduhverfi austur á
Bakkafjörð. Fyrsta ganga ársins var
farin um Rauðanes í Þistilfirði um
miðjan janúar í sólskini og fegursta
vetrarveðri. Þá var gönguskíðaferð á
Hólaheiði í febrúar, ganga við Lund
í Öxarfirði og aðalfundur í mars.
Á föstudaginn langa var gengin
kirknaganga frá Presthólum og í maí
var gengið í kringum Skjálftavatn
í Kelduhverfi en það er í stöðugri
hættu vegna ágangs Bakkahlaups.
Þannig rekur áætlunin sig áfram út
árið.
Sumarleyfisgöngur félagsins
verða tvær og báðar farnar í júlí.
Sumarleyfisferðir eru lengri ferðir
þar sem gengið er í nokkra daga
samfellt. Þetta eru bækistöðvarferðir,
gist er á farfuglaheimilum og gengið
út frá þeim.
Hvað er Langanesið langt?
Í ferðinni Langanes-Fontur er
gengið um friðsæla byggð sem er að
mestu leyti horfin, komið í eyðiþorp
með mikla sögu og út á ysta odda
Langaness. Gist er í fjórar nætur á
Farfuglaheimilinu Ytra-Lóni.
Ferðin hefst sunnudagskvöldið
5. júlí með fundi og fræðsluerindi
um þorpið sem var á Skálum á
Langanesi.
Eftir sameiginlegan morgunverð
daginn eftir er gengið um
svokallaðan eyðibýlahring og fræðst
um sögu bæjanna og byggðarinnar,
um gróðurinn, fuglana og fjöllin.
Hringurinn er um 14 km og í lok dags
bíður heitur pottur og kvöldmatur á
Ytra-Lóni.
Daginn eftir er gengið með
sjónum frá Sauðanesósi út að
Heiðarhöfn, um Heiðarnesið og til
baka eftir Messumelnum. Rekaviður
og fallegar fjörur, fullar af lífi. Þessi
dagleið er um 15 km.
Á fjórða degi er ekið upp á
Heiðarfjall og ummerki ratsjárstöðvar
varnarliðsins skoðaðar. Síðan niður í
Hrolllaugsstaði en þaðan er gengið
um Kumblavík og Skálabjarg að
eyðiþorpinu Skálum um 12 km. Á
Skálum bíður bíllinn og þaðan er
ekið út á Font þar sem vitinn stendur
á landsins enda. Á leiðinni heim er
komið við á Skoruvíkurbjargi sem
iðar af fugli, farið út á pallinn góða
og litið á súlubyggðina í Stóra-Karli.
Ekið til baka að Ytra-Lóni þar sem
kvöldmaturinn og heiti potturinn
bíða.
Fimmti og síðasti dagurinn er
léttur, en þá er gengið frá Sauðanesi
út í Grenjanesvita, um 8 km alls.
Á leiðinni eru ýmis mannvirki og
menningarminjar, m.a. Hið mikla
íslenska sögunarfélag, gamall
flugvöllur, flugvél, beitarhús
og hjallur. Ferðin endar í kaffi í
Sauðaneshúsi.
Gangan stendur yfir dagana 5.–9.
júlí og er tveggja skóa samkvæmt
skilgreiningu ferðafélaganna;
miðlungs erfið ferð. Nauðsynlegt
er að skrá sig í ferðina í síðasta lagi
6. júní. Skráning og allar nánari
upplýsingar hjá ffnordurslod@
simnet.is.
Um núpa, gil og gljúfur
Í júlí er einnig boðið upp á fjögurra
daga bækistöðvarferð frá Kópaskeri,
Öxarfjörður út og suður þar sem gist
er á farfuglaheimili. Gengið frá fjöru
til fjalla, um núpa, gil og gljúfur í
þeirri gullfallegu sveit Öxarfirði.
Á fyrsta degi er gengið út að
Snartastaðanúp, yfir Núpinn og
ofan í Hvalvík með fjölbreyttar
klettamyndir og gatkletta. Síðan ekið
að Núpskötlu og gengið á Rauðanúp
á Melrakkasléttu.
Menningar- og fræðslurölt
á Kópaskeri og næsta nágrenni
er verkefni næsta dags. Farin er
söguganga um þorpið, Skjálftasetur
og Byggðasafnið á Snartarstöðum
eru heimsótt og gengið um
Kópaskersmisgengið með
tilheyrandi fræðslu um jarðfræði.
Næsta dag er gengið um
Valþjófsstaðafjöru að Naustárfossi,
upp með Naustá, um skógi vaxnar
hlíðar upp á Öxarnúp og litið yfir
Öxarfjörðinn allan. Þá er gengið í
Kleifargerði og fræðst um hið merka
kuml sem fannst þar í grenndinni
árið 1956. Síðan gengið um Svelting
í Buðlungahöfn.
Lokadaginn er stefnan tekin í
Jökulsárgljúfur en byrjað á heimsókn
í Grettisbæli undir Öxarnúpi. Síðar
er gengið upp með Jökulsá að austan,
um Borgirnar upp að Gloppu, sem
er sérstakt náttúrufyrirbæri. Þar er
farið ofan í gljúfrin í sannkallaða
undraveröld. Þetta eru fáfarnar
slóðir í ævintýralegu umhverfi
Jökulsárgljúfra.
Ferðin stendur yfir 14.–17. júlí.
Þetta er líka tveggja skóa ferð, þó
gengið sé á núpana í Núpasveitinni
eru þeir ekki háir og farið rólega yfir.
Skráning í ferðina er í síðasta lagi
13. júní, hjá ffnordurslod@simnet.is.
Norðausturhorn landsins er hjá
mörgu göngufólki ókannað land.
En þar eru fjölbreyttar og spennandi
gönguleiðir og margt sem gaman er
að sjá og kemur á óvart.
Ferðafélagið Norðurslóð
býður göngufólk velkomið á
norðausturhornið, þar sem ævintýrin
bíða við hvert fótmál.
Ferðafélagið Norðurslóð:
Sæl og glöð í gönguferð
Kátir göngufélagar á Öxarnúpi. Mynd / Árni Ólafsson
Á leið upp úr Gloppu. Mynd / Ingibjörg Eggertsdóttir.
Séð af Snartarstaðanúpi ofan í Hvalvík og alla leið norður á Rauðanúp. Mynd / Sesselja Guðmundsdóttir.
Í Sveltingi. Mynd / Sesselja Guðmundsdóttir.
Gengið um Öxarnúp. Mynd / Sesselja Guðmundsdóttir