Þjóðmál - 01.12.2008, Side 40
38 Þjóðmál VETUR 2008
einkennin fremur en meinið . Til eru lausnir,
en þær eru ekki sársaukalausar . Glópagullið
sem við eltumst við er horfið, raunhagkerfið
með böggum hildar . Við getum þó hörfað í
hlé, staldrað við og náð vopnum okkar á ný .
Hinn kosturinn er að gefa sig óreiðu, deilum
og upplausn á vald . Tillaga mín er etv . ekki til
vinsælda fallin en getur þó gert gæfumuninn
um farsæld okkar í framtíðinni .
Afnám eignarskatts var mistök
Öll metum við líklega líf okkar og limi með svipuðum hætti, en hvað eignirnar
snertir erum við ekki eins sett . Þeir sem meira
eiga fá ljóslega meiri vernd frá ríkinu í formi
eignarréttar . Ef menn keyptu þá vernd færi
kostnaðurinn án efa eftir umfangi eignanna .
Ég hefi áður lýst þeirri skoðun minni að afnám
eignarskatts hafi verið mistök, heppilegra
hefði verið að hækka skattleysismörk hans
og lækka tekjuskatt á móti . Eignarskattur er
í raun ,,eignarréttargjald“ og það að sá réttur
sé verndaður án endurgjalds eins og t .d .
málfrelsi er órökrétt . Kostnaður við að vernda
eignir auðmanna fellur nú í raun á almenning .
Það er hrópandi ranglæti að þeir sem féflettir
hafa verið með eignatilfærslum beri þennan
kostnað fyrir fjárplógsmennina . Að auki nær
eignarskattur til fjármuna sem skotið er undan
eða koma ekki til tekjuskatts .
Auðokun og eignarréttur
Auðæfi hinna ofríku eru að mestu fengin með eignatilfærslum . Ekki með vinnu
og ekki með arðbærum rekstri sem skapar
um leið atvinnu handa fólki . Vanhugsuð
framkvæmd einkavæðingar, verðbólur á
hlutabréfa- og fasteignamarkaði og sjálftaka
ofurlauna eru nýleg dæmi . Erfitt er að rekja
frá hvaða einstaklingum fé er tekið . Það
breytir ekki því að þetta er að ýmsu leyti illa
fengið fé . Sumir hafa þegar flutt fé úr landi,
en aðrir leitað skjóls innanlands . Þetta þarf að
athuga þegar fjallað er um þá vernd sem ríkið
lætur þegnum sínum í té með eignarrétti án
endurgjalds, en þó með ærnum tilkostnaði .
Þess má minnast í því samhengi að slík
fjáröflun er ekki háð tekjuskattslagningu og
eignarskattur hefur verið lagður af . Það er
eingöngu 10% fjármagnstekjuskattur sem nær
til þessa fjár og er hann hvergi lægri á byggðu
bóli . Endurskoða ber skattkjör þessa fjár og
leggja gjald á hreina eign manna, umfram það
sem venjuleg fjölskylda þarf sér til viðurværis .
Leggja ber hömlur á flutning slíks fjár úr
landinu eða leggja tilfinnanleg gjöld á slíka
flutninga .
Eignarréttargjald
Endurgreiða þarf þau háu lán sem ríkið er nú að taka til að bera það tjón sem
auðokun hinna ofríku hefur valdið . Tekjum
af eignarréttargjaldi, sem er betra nafn á
eignarskatt af því að það minnir stöðugt á
röksemdirnar fyrir gjaldinu, verði varið til
að endurgreiða lánin . Á meðan verður ekki
unnt að auka ríkisútgjöld . Varla mun sjá högg
á vatni í pyngju hinna ofríku . Fljótlega mun
saxast á skuldirnar . Um leið er unnið gegn
auðokun, vextir lækka smám saman vegna
batnandi stöðu ríkissjóðs, sem aftur veldur
vaxandi einkaneyslu og almennri eftirspurn .
Atvinnulífið tekur því næst við sér með
endurnýjun framleiðslutækja . Alvöru fjárfestar,
sem helst er að finna í smærri fyrirtækjum í
framleiðslugreinum, færast í aukana og atvinna
fer vaxandi . Senn verða mestu erfiðleikarnir að
baki og þá má fínstilla eignarréttargjaldið eða
hækka skattleysismörk eftir atvikum . Engar
sérstakar hættur eru við að taka þetta gjald
upp nú . Auðvitað munu hinir ofríku reyna
að flytja fé úr landi, en stemma má stigu við
því með reglum og eftirliti . Sumum dettur
vafalaust í hug að gjaldið drægi úr framtaki
og fjárfestingum . Svo er ekki, hinir ofríku eru
ekki fjárfestar heldur spákaupmenn . Frekar
má reikna með vaxandi fjárfestingum þegar
fram í sækir, vegna lækkandi vaxta .
R. Ön.