Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2015, Page 33

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2015, Page 33
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 1. tbl. 91. árg. 2015 29 Sigríður Huld segir alltaf ánægjulegt að útskrifa nemendur. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson. Samspil skólans og starfsins geta ekki verið hvort án annars, það sem maður lærir í vinnunni er ekki hægt að kenna í skóla og svo öfugt.“ Sigríður Huld segir að hjúkrunarfræði byggist að hluta til á nánum persónulegum samskiptum. „Já, og það reynir ekki beint á mann í slíkum samskiptum í skólanum, en að vísu er mikið fjallað um samskipti og umönnun á námstímanum og grunnurinn er lagður þar. Og ég vil líka benda á að samskipti við samstarfsfólk eru ekki síður mikilvæg en samskiptin við sjúklinga og aðstandendur.“ Símenntun nauðsynleg Sigríður Huld segir að stefnan hafi alltaf verið sett á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að loknu námi við Háskólann á Akureyri. „Ég fékk vinnu á kvennadeildinni, líklega sótti ég um að starfa þar vegna þess að amma mín var ljósmóðir og á þessum árum var ég farin að gæla við að fara í slíkt nám. Starfið var í senn fjölbreytt, skemmtilegt og gefandi og ég naut mín vel á deildinni. Einn daginn var maður kannski að hjálpa til á fæðingardeildinni og hinn daginn á kvensjúkdómadeildinni þar sem dauðinn var nálægur. Eftir fyrsta árið í starfi var þó orðið ljóst að ég færi líklega ekki í ljósmæðranám. Ég ákvað að fara í kennsluréttindanám við Háskólann á Akureyri og þar fann ég vel hversu grunnurinn í hjúkrunarfræðináminu var gagnlegur. Kennsla og hjúkrun eru á margan hátt lík, til dæmis eru samskipti við fólk stór hluti starfsins.“ Eftir að Sigríður Huld hafði aflað sér kennsluréttinda starfaði hún áfram sem hjúkrunarfræðingur en sinnti jafnframt stundakennslu við Háskólann á Akureyri og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. „Síðan sótti ég um stöðu verkefnastjóra fræðslumála við sjúkrahúsið og var ráðin, en það þýddi að ég var ekki eins mikið við störf á kvennadeildinni. Fræðslusviðið var enn í mótun á þessum árum en það sér meðal um námskeið fyrir starfandi sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga auk þess að skipuleggja námskeið og fleira. Heilbrigðisstéttir leggja ríka áherslu á símenntun enda eru framfarir og breytingar í heilbrigðisgeiranum örar og þess vegna er nauðsynlegt að símenntun sé stöðugt í boði. Hjúkrunarfræðingar eru margir í fjarnámi á tilteknum sviðum greinarinnar og verkefni fræðslusviðsins er meðal annars að hvetja starfsfólk til að stunda slíkt nám. Sjálf er ég á þeirri skoðun að hjúkrunarfræðingar eigi að leggja meiri áherslu á klíníska fræðslu frekar en fræðilega fræðslu. Um þetta eru reyndar skiptar skoðanir en aðalatriðið er engu að síður að símenntun er nauðsynleg. Um það eru allir sammála.“ Gagnast landsbyggðinni Sigríður Huld segir að hjúkrunarfræðinámið við Háskólann á Akureyri skipti miklu máli, ekki aðeins fyrir stéttina heldur fyrir allt samfélagið. „Starf hjúkrunarfræðinga hefur tekið breytingum í gegnum tíðina, verkefni sem hjúkrunarfræðingar sinna í dag eru orðin fjölbreyttari. Þetta á við um almenna umönnun, stjórnun og stefnumótun. Fyrir landsbyggðina er þetta nám á Akureyri afskaplega mikilvægt enda sýna tölur að hjúkrunarfræðingar, sem útskrifast frá Háskólanum á Akureyri, starfa frekar á landsbyggðinni. Deildin gagnast þess vegna ekki aðeins Akureyri og byggðarlögunum hérna fyrir norðan og ég bendi líka á að deildin býður upp á fjarnám. Þannig er hjúkrunarfræðinám í boði á Ísafirði svo dæmi sé tekið.“ Hjúkrunarfræðingurinn stendur með skólameistaranum Sigríður Huld ákvað að skipta um starfs­ vettvang árið 2006 en þá var hún ráðin aðstoðarskólameistari Verkmennta­ skólans á Akureyri sem er einn stærsti framhaldsskóli landsins. Nemendur skólans eru um 1.200. „Ég hafði kennt svolítið við skólann enda með kennsluréttindi. Þegar þessi staða var auglýst ákvað ég að sækja um og var ráðin. Á þessum árum var farið að tala um hvaða leiðir væru færar til að breyta uppbyggingu náms á framhaldsskólastigi og ég hafði áhuga á að taka þátt í þeim breytingum. Þegar þú spyrð hvort breytingin á starfinu hafi verið mikil er svarið bæði já og nei. Núna er ég til dæmis laus við vaktavinnuna en hins vegar er bindingin á margan hátt mun meiri enda um að ræða stjórnunarstöðu. Starfið er mjög svo skemmtilegt, rétt eins og í hjúkrunarfræðinni. Í þessum stéttum koma oft upp mál sem eru erfið úrlausnar og snúast um mannleg samskipti. Margt í starfinu og náminu í hjúkrunarfræðinni stendur virkilega vel með mér í því sem ég er að starfa við í dag.“ Sigríður Huld segir ánægjulegt og gefandi að starfa með æsku landsins sem á stundum njóti ekki sannmælis meðal almennings. „Langflestir, sem koma til okkar, standa sig með ágætum og koma til með að gera í framtíðinni. Auðvitað á þetta ekki við um alla, þannig hefur það alltaf verið. Möguleikar ungs fólks eru allt aðrir og betri en á árum áður. Að mínu viti eru framhaldsskólar landsins framsæknir og bjóða allir upp á gott nám. Núna er verið að breyta námstímanum til stúdentsprófs og skiptar skoðanir eru um þá tilhögun. Sjálf er ég sannfærð um að stytting námsins sé rökrétt skref og að námið verði skilvirkara fyrir vikið.“ Hún segir alltaf ánægjulegt að útskrifa nemendur. „Já, brautskráningin er klár­

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.