Orð og tunga - 01.06.2014, Page 131
Ari Páll og Haraldur: íslenska og enska í háskólastarfi
119
t.d. að allar doktorsritgerðir á sviðum heilbrigðis- og verkfræði og
náttúruvísinda við Háskóla íslands á árunum 2007-2011 voru á
ensku. Meginhluti námsefnis í íslenskum háskólum er á ensku, um
90% samkvæmt rannsóknum Hafdísar Ingvarsdóttur og Birnu Arn-
björnsdóttur (2010). Þá birta íslenskir fræðimenn niðurstöður rann-
sókna sinna í mjög miklum mæli á ensku. I 3. kafla kom m.a. fram að
árið 2011 voru um 78% allra tímaritsgreina, sem akademískir starfs-
menn Háskóla Islands birtu, á ensku.
Rauði þráðurinn í málstefnuskjölum íslensku háskólanna, sem
könnuð voru í 2. kafla, er að íslenska skuli vera aðaltungumál þessara
skóla.10 Þar er jafnframt lögð rík áhersla á íslenskan íðorðaforða og
vandaða íslenska málnotkun.
Þegar hugað er að skjalfestri málstefnu háskólanna má hins vegar
ekki gleyma því að orð á blaði eru annað en veruleikinn. Þeim verður
að fylgja eftir og það kann að hafa í för með sér togstreitu í framkvæmd
þegar ólíkum markmiðum er raðað í forgangsröð eftir mikilvægi. Tími
háskólamanna er takmarkaður og fjárráð háskólanna sömuleiðis.
Enda þótt frekari rannsóknir þurfi að fara fram á þeim áhrifum
sem val á tungumáli hefur á háskólastarfsemina er eigi að síður ljóst
og óhætt að fullyrða að það val hefur áhrif á nám og kennslu og á
þann vettvang sem valinn er fyrir birtingu rannsóknarniðurstaðna og
jafnframt á það hvernig til tekst við miðlun þekkingar til nærsam-
félagsins. Jafnframt er augljóst af hinum öru breytingum á undan-
förnum fáeinum áratugum, einkum eftir árþúsundamótin, að ekki
dugir að bíða átekta; háskólar og vísindasamfélagið í heild þarf að
bregðast við breyttum aðstæðum með markvissum hætti í nánustu
framtíð eigi að lánast að stýra aðstæðum og þróun í sem heppilegastan
farveg.
Hér er mikið í húfi: innviðir nútímalegs samfélags á Islandi, þjóð-
tunga Islendinga og notkunarsvið hennar, menntunar- og tækniþróun
á íslandi og samkeppnisskilyrði íslensku háskólanna í alþjóðlegum
samanburði.
Heimildir
Ammon, Ulrich. 2010. World Languages: Trendsand Futures. I: N. Coupland
(ritstj.) The Handbook of Language and Globalization. Bls. 101-122. Malden/
Oxford: Blackwell.
10
Um er að ræða skjöl frá sex háskólum af sjö, þ.e. öllum nema Háskólanum í
Reykjavík sem hefur ekki sent frá sér skjalfesta málstefnu.