Náttúrufræðingurinn - 2016, Síða 35
107
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
af birki, fjalldrapa og blendingi
þessara tegunda í mólögum sýna að
útbreiðsla birkis hefur verið óstöðug
frá síðustu ísöld og fram að landnámi
og fylgt náið hitafarsbreytingum á
tímabilinu.3 Rannsóknir á land námi
birkis við skógarmörk í Norður-
Noregi og á Kólaskaga samhliða
auknum sumarhita gáfu svipaða
niðurstöðu.43 Beitarálagið hafði þó
meiri áhrif á aukna útbreiðslu
birkisins en aukinn sumarhiti. Á
því rannsóknarsvæði þar sem
beitar álagið var mest lækkuðu
skógarmörk. Á þremur rannsóknar-
svæðum öðrum stóðu þau í stað
en hækkuðu á tveimur svæðum.
Þetta gerðist þrátt fyrir að aukning
sumarhita væri svipuð á öllum
rannsóknarsvæðunum og reynt
hafi verið að velja svæði sem voru
landfræðilega lík.
Fleiri þættir stýra landnámi
birkis en beit og sumarhiti. Þetta
hefur komið fram í rannsóknum á
landnámssvæðum birkis á Skeiðar -
ársandi þar sem fræuppsprettur eru
í töluverðri fjarlægð. Fræframleiðsla
og spírun fræs eru hitaháðir ferlar og
góðum fræárum getur fylgt öflugt
landnám birkis, eins og gerst hefur á
Skeiðarársandi á síðustu áratugum.
Það landnám virðist helst skýrast
af því að saman fóru góð fræár
með miklu magni af þroskuðu fræi,
hagstæð spírunarskilyrði og lítið
beitarálag sem allt lagði grunninn
að fyrstu kynslóð birkis á sandinum
í byrjun tíunda áratugar síðustu
aldar.48 Slík skilyrði geta verið
tímabundin og tilviljunarkennd. Það
kom í ljós á Skeiðarársandi þar sem
nýliðun dróst mjög saman eftir 1998.
Í ungskóginum eru ungplönturnar
byrjaðar að framleiða töluvert af fræi
en spírunargeta þess er hins vegar
afar lítil miðað við spírunargetu
fræs í eldri skógum í Skaftafelli
og Morsárdal og í jaðri þeirra.49
Lífeðlisfræðilega er þessi munur
óútskýrður en böndin berast að
gæðum og magni frjókorna. Þessi
hindrun hægir á landnámi birkis til
lengri tíma litið. Setgerðin þar sem
fræið spírar og smáplantan vex upp
hefur einnig mikil áhrif á landnám
birkis og vaxtarhraða þess.50 Á
landgerðum þar sem frosthreyfingar
eru miklar eða svarðgróður þykkur
og raki í jarðvegi sveiflugjarn eru
skilyrði léleg fyrir landnám birkis
þótt fræregn sé nægjanlegt og fræin
spírunarhæf.
Fjarkönnun á gróðri á norður-
slóðum, þar sem athugaður var
munur á blaðgrænu gróðurs á
árabilinu 1982 til 2010, leiddi í ljós
að aukningin var mest á vestari
helmingi landsins og minnkaði
eftir því sem austar dró.51 Þetta
er í samræmi við landshlutamun
á nýliðun birkis sem hér hefur
verið lýst. Almennt var mest
aukning á blaðgrænu á árunum
1982–89, nokkuð minni á tímabilinu
1990–99, en minnst aukning var
á árabilinu 2000–2010. Wöll11
safnaði sýnum úr íslensku birki
til aldurs- og vaxtargreininga og
komst að þeirri niðurstöðu að
birki hefði á tímabilinu 1997-2006
aukið þvermálsvöxt miðað við
tímabilið 1987–1996. Það styrkir
þá kenningu að aukna útbreiðslu
birkis megi að nokkru leyti rekja
til samspils hækkandi sumarhita á
Íslandi vegna veðurfarsbreytinga
9. mynd. Birkiskógurinn í Aðaldalshrauni í Aðaldal, Suður-Þingeyjarsýslu hefur aftur á móti lítið breyst frá síðustu úttekt. Kortið til
vinstri sýnir eldri kortlagninguna frá 1987–91 en kortið hægra megin nýju kortlagninguna frá 2010–14. Á það kort hafa verið dregnar
útlínur eldri kortlagningarinnar til að sýna muninn á lögun skógarins. Ljóst er að eldri kortlagningin er að hluta til mun grófari en sú
yngri en það hafa líka orðið breytingar á útbreiðslu birkis, t.d. í vegsvæði þjóðvegarins sem sker landið. Með samanburði við eldri
kortlagninguna sést vel að birki frá síðustu áratugum nær nú alveg upp að vegöxlum. – The figure shows the mapped birch woodland in
the 1987–91 inventory (left) compared with the same area mapped in the inventory presented in this paper (right). Two height classes,
higher than 2 m (brown) and lower than 2 m (yellow) are shown on the map from 1987–91. On the map from 2010–14 the height at
maturity is shown; shrubland (<2 m) (yellow), woodland (2–5 m) (brown) and forest (>5 m) (red).The black line denotes the border of the
mapped area in 1987–91. The area, the Aðaldalshraun lava-field in North Iceland, is a typical site where the distribution of birch has not
changed much since the last inventory. Nevertheless, there are some changes that can be observed on the main road strip through the
woodland, now grown with newgrowth of birch up to the road. Mynd/Fig.: Björn Traustason 2016.