Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2016, Page 83

Náttúrufræðingurinn - 2016, Page 83
155 Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags skordýraættbálkunum tvívængjum, æðvængjum, bjöllum og fiðrildum auk áttfætlna. Nokkrar áhugaverðar rammagreinar fylgja efninu. Minnst er á meindýr og plágur og umfjöllun um smádýr í jarðvegi er góð. Að lokum er sagt frá rannsóknum á ánamöðkum, af þeim eru fleiri tegundir á landinu en margir halda. Og það er mikið af þeim – þar sem þéttleikinn er mestur er eitt tonn af ánamöðkum á hektara! Hryggdýrin sem hafa verið hér síðan fyrir landnám og nýta þurrlendið eru aðallega fuglar eins og allir vita. Hátt í áttatíu tegundir verpa hér að staðaldri og mun fleiri koma hér við. Um 30 þeirra eru staðfuglar. Eins og áður hefur komið fram er einstaklingsfjöldi margra stofna feikimikill og er það eitt af sérkennunum í náttúru landsins. Mófuglar eru þeir sem verpa í mólendi og álíku landi. Vaðfuglarnir eru allir mófuglar en ekki er fjallað um þá í þessum kafla, og endurspeglar það skort á rannsóknum á vistfræði margra þeirra. Ekkert er til dæmis fjallað um heiðlóuna nema það sem kemur fram um búsvæðaval hennar í ferskvatnskaflanum. Benda má á að síðan bókin var rituð hafa birst niðurstöður rannsókna á spóum9 og sandlóum.10 Ýtarleg og góð umfjöllun er um rjúpuna, einkum um niðurstöður rannsókna um sveiflur stofnsins. Í rammagrein (bls. 308) er fjallað um áhrif fálka á rjúpuna. Vakin er athygli á því að spörfuglar hafa mjög lítið verið rannsakaðir hér á landi. Þekking á vistfræði gæsa og álfta er töluverð og er ágætis umfjöllun um þessa fugla í kaflanum. Grunnurinn var lagður í viðamiklum rannsóknum á heiðagæs í Þjórsárverum undir forystu Arnþórs Garðarssonar 1971–74 (rammagrein bls. 305). Áhugavert er að heiðagæsastofninn, sem hefur stækkað mikið, eins og raunar grágæsar- og álftarstofnarnir, verpir ekki lengur svo til eingöngu í Þjórsárverum heldur einnig í Guðlaugstungum og víðar á hálendinu. Umfjöllun um fugla lýkur með frásögn af haferninum, en stofn hans hefur verið vaktaður lengur en allra annarra dýra hér á landi eða síðan 1959. Snorri gerir grein fyrir rannsóknum (mest stofnvistfræði) á þeim fáu landspendýrum sem lifa villt á Íslandi; tófum, minkum, hagamúsum og hreindýrum. Rammagrein (bls. 316) um þætti sem ráða stofnstærð er skýr. Þá er rætt um áhrif tófu og minks á lífríki landsins og þau álitamál sem upp koma í tengslum við stofnstærðarstjórnun. Kafli 6. Staða íslenska lífríkisins (bls. 321–363) Kaflinn byrjar með ágætri samantekt um lífríki Íslands. Undirkaflar eru um lífbreytileika, hafið, ferskvatn, þurrlendi, rask og vistheimt, og að lokum um náttúruvernd. Mikilvægi þess að taka slíkt efni saman og gera það aðgengilegt fyrir alla, þ.m.t. kennara sem geta notað það í kennslu, er óumdeilt. Flestir vita að höfundur hefur verið öflugur talsmaður náttúruverndar og starfað lengi á því sviði. Hann er því á heimavelli og það er ómetanlegt að fræðimaður í vistfræði skrifi texta af þessu tagi fyrir almenning. Mikið er talað um lífbreytileika nú á dögum og er skilningur á gildi hans og verndun ein af áherslum Sameinuðu þjóðanna varðandi menntun til sjálfbærni. Snorri skilgreinir hugtakið og rekur áhrif mannsins sem verða sífellt alvarlegri vegna aukinnar tækni og aukins mannfjölda. Síðan er fjallað um þá þætti sem ógna lífbreytileikanum mest, þ.e. búsvæðaröskun, loftslagsbreytingar, næringarefnamengun, ósjálfbær nýting og ágengar framandi tegundir, og að lokum ræðir Snorri um verðmæti lífbreytileikans. Þessi kafli er vel skrifaður og sérlega aðgengilegur. Ástand sjávar og lífríki hans er eðlilega sérstakt áhugamál Íslendinga og almenn þekking á þeim málum líklega nokkuð góð. Um þetta skrifar Snorri í kafla um hafið. Nýting stofna á Íslandsmiðum hefur verið nær því að vera sjálfbær en hjá flestum öðrum þjóðum. Engu að síður eru mörg dæmi um ofnýtingu. Nú eru blikur á lofti: Hitastig hækkar, útbreiðsla dýra breytist, straumar breytast vegna bráðnunar jökla, yfirborð hækkar, hafið súrnar. Enn er sjórinn hér tiltölulega hreinn en það breytist hratt. Snorri lýkur kaflanum á umfjöllun um verndun vissra tegunda og búsvæða. Hann bendir á að þrátt fyrir að friðunarákvæði náttúruverndarlaga hafi náð yfir alla efnahagslögsögu landsins frá 1999 hafa stjórnvöld ekki enn stofnað sjávarþjóðgarð við landið, sem Snorri telur að sé löngu orðið tímabært. Í kaflanum um ferskvatn er í upphafi bent á þá staðreynd að tíu stærstu vatnasvið landsins eru jökulvötn, og að í ljósi hækkandi hitastigs megi búast við verulegum breytingum á þessari öld. Nú þegar höfum við raskað fimm þessara tíu vatnasviða verulega. Snorri fjallar um margvísleg áhrif virkjana á landið og vatnsbúskapinn, bæði vatnsaflsvirkjana og jarðhitavirkjana. Sláandi er að lesa um breytingar sem orðið hafa á Þingvallavatni síðustu 40 árin og koma fram í hærra hitastigi, ákveðnara hitaskiptalagi, efnamengun og breytingum hjá frumframleiðendum, sem hafa svo áhrif á aðrar lífverur. Áhrif loftslagsbreytinga á ferskvatn og ferskvatnsbúsvæði geta orðið gífurleg, sérstaklega vegna bráðnunar jökla. Nú þegar höfum við orðið vitni að breytingum á lífríki vatna, t.d. hefur bleikju, sem er hánorræn tegund, fækkað og mikil aukning orðið á útbreiðslu vatnaflóka, sem er kísilþörungur sem getur orðið mjög fyrirferðamikill í ám og lækjum og breytt lífsskilyrðum annarra lífvera þar. Að lokum ræðir Snorri um mikilvægi þess að fara vel með vatnið, sem er sameiginleg auðlind mannkyns, og telur að auka þurfi rannsóknir á ferskvatnsvistkerfum. Í kaflanum um þurrlendið fjallar höfundur um sérstöðu Íslands og rifjar upp helstu einkennin, m.a. víðerni hálendisins. Hann bendir á að landslagið skipar stóran sess í sjálfsmynd þjóðarinnar. Fleiri og fleiri eru að uppgötva hversu mikil auðlind landið sjálft og náttúra þess er nú á tímum mikillar fjölgunar ferðamanna. Mikilvægt er að við friðlýsingu sé stuðst við vísindalega þekkingu á náttúrufari og ferlum náttúrunnar því að slík þekking er forsenda skynsamlegra ákvarðana um mörk svæða. Síðan er fjallað um áhrif búsetu og talar höfundur um nokkrar byltingar í því samhengi. Fyrst var

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.