Dagblaðið Vísir - DV - 20.02.2015, Page 40

Dagblaðið Vísir - DV - 20.02.2015, Page 40
40 Skrýtið Helgarblað 20.–23. febrúar 2015  Nokkuð nákvæm eftirlíking – Hallstat Hvar: Kína Einhverjir þekkja eflaust bæinn Hallstat í Austurríki sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Færri þekkja þó að líkindum bæinn Hallstat í Guangdong-héraði í Kína sem er allt að því nákvæm eftirlíking af austurríska bænum. Það var vellauðugur eigandi námuvinnslufyrirtækis í Kína sem hafði veg og vanda að framkvæmdun- um sem kostuðu tæplega einn milljarð Bandaríkjadala. Sem fyrr segir svipar bænum mjög til austurríska bæjarins; vegir eru eins, kirkjan er eins og þá er byggingarstíll húsanna alveg eins. Það eina sem Kínverjunum tókst ekki að líkja vel eftir var stórbrotið umhverfið sem umlykur austurríska bæinn. Furðulegir bæir um víða veröld n Ungt fólk bannað í einum n Stærsta draugaborgin er í Kína n Aðeins einn bæjarbúi  Ungt fólk bannað – The Villages Hvar: Flórída, Bandaríkjunum The Villages, eða Þorpin á íslensku, er bær í Flórída í Bandaríkjunum sem hugsaður var fyrir eftirlaunaþega. Talið er að um hundrað þúsund manns búi í The Villages og eru allir sem ekki eru orðnir nítján ára bannaðir. Reyndar mega ungmenni, til dæmis barnabörn íbúa, sem ekki hafa náð þessum aldri dvelja í bænum, en þó ekki meira en í 30 daga á hverju almanaksári. Bærinn er um margt sérstakur eins og að framan greinir. Þannig fara flestir íbúar allra sinna ferða í golfbílum. Þá er svartamarkaðsbrask með viagra sagt algengt, þar sem hver tafla getur kostað allt að tólf Bandaríkjadölum, 1.500 krónum. Vefritið Slate greindi svo frá því árið 2006 að kynsjúkdómar væru býsna algengir í bænum.  Allir í einni blokk – Whittier Hvar: Alaska, Bandaríkjunum DV fjallaði fyrir skömmu um bæinn Whittier í Alaska. Bærinn er um margt sérstakur, en þó einna helst fyrir þær sakir að nánast allir íbúar búa undir sama þaki í stórri blokk í bænum. Byggingin, sem heitir Begich Towers, er 14 hæðir og var hún reist árið 1956. Tilgangur hennar var að hýsa hermenn sem höfðu aðsetur á svæðinu. Byggingin er ekki aðeins heimili hér um bil allra íbúa svæð- isins heldur er þar einnig lögreglustöð, heilsugæsla, kirkja og kaffihús. Raunar þurfa íbúar staðarins aldrei að fara út úr húsi þar sem alla nauðsynlega þjónustu er að finna í húsinu.  Fleiri látnir en lifandi – Colma Hvar: Kaliforníu, Bandaríkjunum Við fyrstu sýn virðist bærinn Colma í Kaliforníu vera ósköp venjulegur smábær. Íbúar þar eru fimmtán hundruð sem er býsna lítið miðað við það sem gengur og gerist í Kaliforníu. Staðreyndin er sú að í bænum er ógnarstór kirkjugarður þar sem ein og hálf milljón manna hvílir. Þegar gullæðið stóð sem hæst í Bandaríkjunum um miðja 19. öld fluttu hundruð þúsunda íbúa til nágranna- borgarinnar San Francisco. Á níunda áratug 19. aldar voru allir kirkjugarðar borgarinnar orðnir stútfullir og var þá brugðið á það ráð að finna greftrunarstaði í Colma. Í mars árið 1900 ákváðu yfirvöld í San Francisco að ekki yrðu fleiri kirkjugarðar teknir í notkun í borginni þar sem landið þótti of verðmætt og árið 1914 var ákveðið að flytja kirkjugarða borgarinnar til Colma – og að sjálfsögðu fylgdu hinir framliðnu með. Enn þann dag í dag er fólk grafið í Colma.  Aðeins einn íbúi – Monowi Hvar: Nebraska, Bandaríkjunum Bærinn Monowi í Nebraska var upphaflega stofnaður af tékkneskum innflytjendum í byrjun 20. aldar. Í kringum árið 1930 var íbúafjöldi í kringum 150 en íbúum fór ört fækkandi eftir það. Í dag er bærinn helst þekktur fyrir það að vera fámennasti bær Bandaríkjanna. Aðeins einn íbúi býr í Monowi, 77 ára kona, Elsie Eller. Að sjálfsögðu fer hún með öll völd í bænum en í honum er meðal annars að finna bókasafn með um fimm þúsund bókum.  Stærsta drauga - borgin – Ordos Hvar: Kína Borgin Ordos í Innri-Mongólíu í Kína hefur stundum verið kölluð stærsta draugaborg Kína. Áætlanir gerðu ráð fyrir að um ein milljón manna gæti búið í borginni, en talið er að aðeins sé búið í um tveimur prósentum íbúða í borginni. Fyrir um tuttugu árum var ráðist í byggingu borgarinnar en hún átti að verða eins konar miðstöð fyrir fólk í kolavinnslu- iðnaðinum. Fjárfestar byggðu hverja íbúðina á fætur annarri en eftirspurnin eftir íbúðum reyndist margfalt minni en framboðið. Þetta gerði að verkum að verktakar og fjárfestar töpuðu stórum fjárhæðum og standa nú fjölmargar hálfkláraðar byggingar í Ordos. Nýlega hófst átak til að efla áhuga almennings, þá sérstaklega ungs fólks, á kostum þess að búa í Ordos. Þannig fá ungir frumkvöðlar skrifstofuaðstöðu án endurgjalds og fría nettengingu heim til sín.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.