Morgunblaðið - 24.05.2018, Qupperneq 39
áfram að forgangsraða í þágu skóla-
starfs og í þágu velferðar.“
Innheimta hæstu skattana
Eyþór biður svo um orðið: „Ég vil
fá að bregðast við þessu. Ef borgar-
stjóri heldur því fram að álögur hafi
lækkað þá er ég Lísa í Undralandi.
Vegna þess að fasteignaskattar hafa
hækkað um 50% á fjórum árum. Í
mínum huga er 50% hækkun ekki
lækkun. Númer tvö er að útsvarið
var hækkað í botn af borgarstjóra
þegar hann var formaður borgar-
ráðs og ekkert sveitarfélag á höf-
uðborgarsvæðinu innheimtir jafn
háa útsvarsprósentu á launað fólk.
Þessar hækkanir, auk annarra, til
dæmis hjá Orkuveitunni, þar sem
gjöld eru núna til dæmis hærri en í
Mosfellsbæ, eru ekki lækkanir.“
Sendu borgarbúum reikning
– Þá spyr ég þig, Eyþór. Þið eruð
líka með fjölda kosningaloforða. Það
á að hækka lægstu laun á leik-
skólum, hækka niðurgreiðslu til
dagforeldra, byggja Sundabraut,
eyða biðlistum eftir dagvist, fella
niður fasteignaskatta á 70 ára og
eldri, efla heimaþjónustu við eldri
borgara og efla strætisvagnakerfið,
svo eitthvað sé nefnt. Hvað mun það
kosta borgina að efna öll þessi lof-
orð? Hver er heildartalan?
„Varðandi úrbætur í gatnakerfinu
yrði þetta samstarf við ríkið, við
Sundabraut og annað. Aðalatriðið í
því efni er að borgin sé tilbúin að
breyta og setja þessar framkvæmdir
af stað. Varðandi Sundabrautina
hefur borgin með [skipulagi byggðar
í] Vogabyggð hreinlega lagt 10-15
milljarða reikning á herðar borgar-
búum með því að útiloka hagkvæm-
asta kostinn. Vegagerðin hefur sent
bréf til borgarstjóra um það. Við
viljum fara hagkvæmari leiðir. Við
viljum líka fara raunhæfar leiðir í
úrbótum í vegamálum og teljum að
við getum gert það með Vegagerð-
inni án þess að það íþyngi borginni.
Varðandi það að lækka gjöld á
íbúana eru menn að horfa til þess að
við höfum misst gríðarlegan fjölda
útsvarsgreiðenda til annarra
sveitarfélaga. Það er ekki svo að við
töpum alltaf tekjum með því að
bjóða betur. Við sjáum að í Reykja-
vík eru hæstu álögur en samt bætir
borgin við sig skuldum í borgarsjóð
og íbúarnir eru óánægðir. Við viljum
horfa til annarra sveitarfélaga þar
sem þetta hefur verið gert. Þá til
dæmis sveitarfélaga í kringum
okkur eins og Garðabæjar, Kópa-
vogs og fleiri sveitarfélaga. Þar er
reksturinn með þeim hætti að það
þarf ekki að vera með okurverð á
byggingarrétti eða of háar álögur.
Þannig að þetta borgar sig upp til
lengri tíma.“
– Þá eru það menntamálin. Leik-
skólar og grunnskólar heyra undir
borgina. Þið lofið báðir aðgerðum í
þágu grunnskólanna. Hverjar eru
áherslur ykkar í grunnskólunum?
Eyþór verður fyrri til svara: „Það
er merkilegt að núna, örfáum dögum
fyrir kosningar, er ekki búið að
semja við Félag grunnskólakennara.
Það er ekki búið að ljúka mennta-
stefnu Reykjavíkurborgar og það er
ekki búið að jafna þann kvóta sem
þarf til þess að styðja við börn af er-
lendum uppruna. Þetta eru þrjú
stórmál í grunnskólunum sem ég
hefði talið að hefði átt að ljúka fyrir
kosningar. En það hefur ekki tekist
hjá þessari borgarstjórn. Það er
dæmi um að það er mikið talað en
ekki mikið klárað.“
Þverpólitísk stefnumótun
Dagur tekur svo til máls:
„Við náðum viðsnúningi í rekstri
borgarinnar um mitt þetta kjör-
tímabil. Og það fyrsta sem við gerð-
um var að bæta inn fjármunum,
bæði í skólakerfið og velferðina.
Þetta hefur skipt verulegu máli.
Samhliða höfum við farið í þver-
pólitíska vinnu við að móta mennta-
stefnu til langs tíma. Þar höfum við
kallað alla að, fagfólkið, foreldrana,
skólasamfélagið. Það er rétt hjá Ey-
þóri að við tókum þá ákvörðun að
klára ekki menntastefnuna heldur
leggja hana fram í drögum núna
fyrir kosningar og klára hana þá í
haust. Það er einmitt vegna þess að
okkur finnst skipta máli að það sé
ákveðin festa í sýninni á skólakerfið
og að þetta verði ekki gert að flokks-
pólitísku þrætuepli í aðdraganda
kosninga. Þetta er í raun of mikil-
væg vinna til þess að eiga það á
hættu. Því ég finn það hvar sem ég
kem að það er svo mikilvægt að okk-
ur hafi takist að snúa vörn í sókn í
skólamálum. Að fólk hafi trú á fram-
tíðinni.
Við erum að mörgu leyti að ala
upp einhverja efnilegustu kynslóð
sem hefur alist upp í þessari borg.
Maður sér það á svo mörgu þegar
maður hittir krakkana og sér hvað
þau eru að skapa og afreka í lífi sínu
og starfi. En við verðum líka að hlúa
að kennurum og skólasamfélaginu
þannig að nýsköpun og deigla geti
blómstrað. Við erum að búa sam-
félagið allt undir miklar breytingar
á næstu árum. Það er mjög mikil-
vægt að skólakerfið sé í lykilhlut-
verki við það annars vegar og hins
vegar við að rækta jöfnunarhlutverk
sitt; tryggja að öll börn fái tækifæri
til að komast til manns og nýta hæfi-
leika sína, á hvaða sviði sem þeir
kunna nú að liggja,“ segir Dagur.
Juku við fjárveitingarnar
– Síðustu ár hefur metfjöldi er-
lendra ríkisborgara flutt hingað til
lands. Þótt aldursdreifing liggi ekki
fyrir hjá Hagstofunni má ætla að
mörg börn séu að flytja hingað.
Hvernig ætlið þið að tryggja að börn
af erlendum uppruna nái árangri í
skólakerfinu?
„Við greindum þetta á þessu kjör-
tímabili og þarna eru stór viðfangs-
efni,“ segir Dagur. „Bæði varðandi
læsisþáttinn og annan aðbúnað.
Þannig að í kjölfarið jukum við fjár-
veitingar. Við settum upp nýtt kerfi
farkennara til þess að leggja inn
móðurmálskennslu. Því að hættan
er sú að ef þú kannt ekki þitt móður-
mál, sama hvert það er, verðurðu
kannski hálftyngdur á því, og átt
erfiðara með að læra íslensku. Sem
er algjör lykill að þessu samfélagi,
að sjálfsögðu … Þetta er eitt af for-
gangsmálum í menntamálum.“
Sláandi tölfræði
Eyþór verður næst til svara. „Það
eru sláandi tölur, þegar borinn er
saman námsárangur barna innflytj-
enda við önnur börn, að það er 26%
munur á meðaleinkunnum. Sem er
mesti munur sem er mældur innan
OECD. Það er því ljóst að núverandi
stefna, eða framkvæmd hennar, hef-
ur brugðist þessum börnum. Þessi
vandi hefur aukist og sérstaklega í
þeim hverfum þar sem flestir inn-
flytjendur búa. Þannig að það er
löngu tímabært að leysa þessi mál.
Þótt það sé gott að vita að það sé bú-
ið að kryfja og greina málið er mikil-
vægara að leysa það. Annað er að
aðgengi barna innflytjenda að
öðrum þáttum eins og íþróttum og
tónlist er minna, sem og þátttakan.
Þar viljum við auka upplýsingagjöf
inn í skólana. Foreldrar sem ekki
hafa alist upp við frístundakort, eða
íþróttir eða tónlistarskóla, þurfa
meiri stuðning og upplýsingagjöf.
Svo þarf að vera tækifæri til að
stunda til dæmis listir, en á það
skortir í mörgum hverfum borgar-
innar.“
Öll börnin fari í leikskóla
– Þá eru það leikskólarnir. Sam-
kvæmt tölum sem komu úr borgar-
kerfinu í apríl eru rúmlega 1.600
börn á biðlista í leikskólunum. Þá
spyr ég þig, Dagur, hvernig á að
stytta þessa biðlista?
„Já, þessi 1.600 barna tala hefur
verið svolítið nefnd. En hún er af-
skaplega úrelt. Vegna þess að hún
byggir á fyrirspurn sem var gerð
vikuna áður en bréf voru send út
vegna inntöku í haust. Þannig að allt
bendir til þess að öll þessi börn kom-
ist inn á leikskóla í haust. Það er nú
svona takturinn í þessu. Það fara út
bréf á vorin til leikskólabarna. Við
höfum fjölgað ungbarnadeildum og
gerum það aftur í haust. Þannig að í
haust ættum við að geta tekið inn
yngri börn en áður. Síðan höfum við
sett fram áætlun um hvernig við
fjölgum leikskólum með sérstökum
viðbótardeildum og ungbarnadeild-
um til þess að ná að brúa bilið milli
Farið yfir málin Eyþór varar við áhættu í fjármálastöðu borgarinnar. Dagur segir stöðuna eftirsóknarverða.
Ólík framtíðarsýn Dagur segir skipulagshugmyndir Eyþórs vera úreltar. Eyþór segir stefnu Dags tefja umferð. SJÁ SÍÐU 40
39
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. MAÍ 2018
Dvergshöfða 2, 110 Reykjavík bilanaust@bilanaust.is
Sími: 535 9000 | bilanaust.is
Gæði, reynsla og gott verð
Vottaðir hágæða
VARAHLUTIR
í flestar gerðir bifreiða
Siðan 1962
Bílanaust er einnig í Hafnarfirði – Keflavík – Selfossi – Akureyri – Egilsstöðum