Skírnir - 01.09.2006, Page 4
Frá ritstjóra
Markmið menningartímarits eins og Skírnis hlýtur að vera fjölbreytt efnisval og
vönduð efnistök og vonandi sjá áskrifendur þess stað í haustheftinu. Umfjöllun um
samtímasögu heldur áfram með fróðlegum minningum Ásgeirs Jóhannessonar um
Guðmund Í. Guðmundsson og þátt hans í myndun minnihlutastjórnar Alþýðu-
flokksins í desember 1958. Grein Ásgeirs, sem Guðni Th. Jóhannesson skrifar inn-
gang að, geymir einnig merkilega mannlýsingu á stjórnmálamanninum Guðmundi.
Svavar Hrafn Svavarsson skrifar um upphaf hugmyndarinnar um sjálfstæði
Íslendinga og setur um leið þróun þjóðernishyggjunnar í sögulegt samhengi sem
fræðimenn hafa verið að kanna undanfarin ár. Þorvaldur Gylfason fæst hins vegar
við samtímann og risana sem eru að vakna, Indland og Kína, og skoðar forsendur
hins mikla hagvaxtar í þessum löndum.
Þá fylgja tvær greinar sem hvor með sínum hætti snerta gotneska heimssýn.
Guðni Elísson lýkur umfjöllun sinni um DV og dauðann á forsíðunni en fyrri hluti
hennar birtist í vorheftinu og vakti mikla athygli, og Úlfhildur Dagsdóttir skrifar
um merkingarheim mannslíkamans.
Staða og hlutverk hugvísinda er mjög til umræðu um þessar mundir, einsog
heyra mátti á hugvísindaþingi sem haldið var fyrir skömmu í Háskóla Íslands, og
Sigurjón Árni Eyjólfsson spyr í því sambandi hvort þörf sé á nýrri guðfræði.
Endurskoðun viðurkenndrar afstöðu liggur líka til grundvallar grein Bergljótar S.
Kristjánsdóttur sem spyr hvort fræðimenn og útgefendur hafi hugsanlega tekið sér
stöðu höfunda þegar vísur í Íslendingasögum eiga í hlut.
Þátturinn Skírnismál sem geymir deilu- og umræðugreinar er tekinn upp aftur
í þessu hefti, annars vegar með grein um siðfræði andstöðunnar og virkjana-
hugmyndir eftir Jón Ólafsson heimspeking, hins vegar grein eftir Róbert Trausta
Árnason fyrrum ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins sem staðhæfir að það
verði enginn sátt um íslensk öryggismál.
Í þessu hefti hefur göngu sína nýr þáttur sem heitir einfaldlega Bókmenntir:
Hér birtast ný ljóð eftir Matthías Johannessen, fyrsti kaflinn í minningabók sem
Ingibjörg Haraldsdóttir hefur í smíðum og ný smásaga eftir Einar Kárason. Er það
von ritstjóra að lesendur Skírnis fagni þessari viðbót.
Tvær umsagnir um bækur eru í Skírni að þessu sinni, Anna Björk Einarsdóttir
skrifar um Argóarflísina eftir Sjón og Loftur Guttormsson skrifar um nýjasta
bindið af Sögu Íslands. Halldór Björn Runólfsson segir frá myndlistarmanni
Skírnis, Steinu Vasulka, og loks greinir Sigurður Líndal, forseti Hins íslenska bók-
menntafélags, frá veglegri afmælisgjöf sem félaginu barst.
Halldór Guðmundsson
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:55 Page 250