Skírnir - 01.09.2006, Page 23
verjum sem takast á við Grikki, eða hjá Grikkjum sem takast á við
Persa, eða Íslendingum sem takast á við umheiminn. Ein og sér
stendur hún ekki undir þjóðernishyggju, nema í mjög þröngum
skilningi. En sé þessi sjálfsmynd svo stöðug, svo niðurnjörvuð að
hún skilgreini þjóðernið fyrir „hinum“ í gegnum aldir, þar á með-
al þær aldir sem einkennast af pólitískri þjóðernishyggju, þá er
kannski ástæða til að álíta sjálfsmyndina hluta af þjóðernishyggj-
unni.
Lýsing Arngríms vakti áhuga danskra sagnfræðinga, sem vildu
fá heimildir um fornöld sína, enda undir sömu sök seldir og aðrir
sem voru á höttunum eftir glæstri fortíð. Áhuginn var almennur á
meðal norrænna fræðimanna, enda húmanískur og tímanna tákn.
Hvert ríki þurfti sína fornöld og helst gullöld, sem gjarnan mátti
vera hliðstæð klassískri fornöld. Þessi viðleitni er hliðstæða hins
rómantíska „tilbúnings“ 19du aldar, þar sem „hefðin“ er fundin
upp.13 Þó að dönsku sagnfræðingarnir væru í þessum skilningi
eigingjarnir, fyrir hönd landa sinna, hvöttu þeir Arngrím til rann-
sókna á sögu Íslands, svo og til að semja skýringarrit og þýðingar
handa dönskum fræðimönnum. Þessi vinna hans laut helstu leik-
reglum húmanismans. Þó að kveikjan að skrifum Íslendinga um
sjálfa sig hafi verið útlenskar lýsingar, má því segja að vinnan sjálf
hafi sprottið af húmanískum áhuga bæði íslensku höfundanna og
dönsku fræðimannanna.
Arngríms er þó helst minnst fyrir Íslandssögu sína, sem hann
samdi nokkru síðar (Hamborg 1609), Crymogaea sive Rerum Is-
landicarum Libri III.14 Þetta verk gaf á margvíslegan hátt tóninn
fyrir þau sagnfræðiverk Íslendinga sem sigldu í kjölfarið. Mörg
voru samin á latínu og náðu hámarki með Historia Ecclesiastica Is-
landiae eftir Finn Jónsson biskup (Kaupmannahöfn 1772–78).
hugmynd um sjálfstæði íslendinga 269skírnir
13 En einhvern efnivið þurfa allir. Frægt dæmi um „tilbúning“ fornaldar á lær-
dómsöld eru sá matur sem Niðurlendingar gerðu sér úr nýfundinni frásögn
Tacítusar (Germaníu) af uppreisn Batava gegn Róm (sjá Schama (1987: 75–77)).
Annað frægt dæmi þjóðernistilbúnings eru skotapilsin (sjá Trevor-Roper
(1983)).
14 Jakob Benediktsson (1951: 1–225). Finna má almenna greinargerð fyrir ævi og
verkum Arngríms hjá Jakobi Benediktssyni (1957: 1–81).
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:55 Page 269