Skírnir - 01.09.2006, Page 65
eru leiðir til þess að byggja upp ólíkar tegundir fjármagns til að
knýja vöxtinn áfram til langs tíma litið. Meginmunur er þó á vexti
Indlands og Kína. Í fyrsta lagi hefur Indland í flestum greinum
vaxið hægar en Kína. Í annan stað hefur Indlandi mistekizt að
draga úr fólksfjölgun, en Kínverjar hafa þverskallazt við kröfum
almennings um aukið lýðræði. Þótt undarlegt megi virðast, eru
hagvaxtarhorfur Indlands bjartar, af því að það er e.t.v. tiltölulega
auðvelt að hafa hemil á fólksfjölgun með fortölum og eflingu al-
mannatrygginga. Frekari samdráttur í fólksfjölgun er þess vegna
kannski innan seilingar einnig þar. Kínverjum tókst þetta, en að
vísu með valdboði miðstjórnarinnar í Beijing, og það mun Ind-
verjum þykja varasamt fordæmi. Það er hins vegar erfitt og tíma-
frekt að koma á lýðræðislegum stjórnarháttum eins og dæmi Suð-
ur-Kóreu og Taívans sanna, því að þá þarf að kveða niður rótgróna
andstöðu einræðisafla gegn lýðræði á stjórnmálavettvangi. Þess
vegna virðast framtíðarhorfur Kína ótryggari en horfur Indlands.
Kína þarfnast lýðræðis ekki síður en Indland þarf að hægja á
fólksfjölgun. Hagvextinum hefur verið misskipt í báðum lönd-
um, hann hefur verið mestur í borgunum og minnstur til sveita.
Bæði löndin þurfa að bregðast við þessari misskiptingu. Þau
þurfa einnig að takast á við gríðarlegan uppsafnaðan vanda í
umhverfismálum, sem getur reynzt erfiður viðfangs í svo fjöl-
mennum og þéttbýlum löndum. Mengunarvandinn stafar öðrum
þræði af verðlagningu eldsneytis, sem hefur hvatt til of mikillar
orkunotkunar í atvinnurekstri heima fyrir. Við þetta bætist nú
vegna uppgangsins í báðum löndum mikil aukning olíunotkunar,
sem eykur enn á mengunarvandann og hefur þrýst heimsmark-
aðsverði á olíu upp á við að undanförnu. Mengun umhverfisins
og nauðsynlegar mengunarvarnir leggja kostnað á fólk og fyrir-
tæki og geta hamlað hagvexti Indlands og Kína til langs tíma litið,
ef menn gæta ekki að sér í tæka tíð.
Ritgerðin er reist á fyrirlestri höfundar á fundi fjármálaráðherra, ráðuneytis-
stjóra og seðlabankastjóra tólf Afríkulanda í Bridgetown í Barbados 17. sept-
ember 2005 og birtist á ensku í Challenge í febrúar 2006. Dagfinnur Svein-
björnsson stjórnmálafræðingur, Halldór Guðmundsson ritstjóri og Ólafur Ís-
leifsson lektor gerðu margar góðar og gagnlegar athugasemdir við fyrri drög.
risarnir eru vaknaðir 311skírnir
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:55 Page 311