Skírnir - 01.09.2006, Side 78
fyrir að ráða í raunverulega afstöðu blaðsins til efnisins sem birt-
ist á síðum þess. Blaðamennirnir virtust stundum skemmta sér
konunglega yfir viðfangsefninu og jafnvel gera grín að viðmæl-
endum sínum með uppblásnum og ofkrydduðum fréttastílnum.17
Þessi sérstaki ritháttur varð ritstjórunum Mikael Torfasyni og
Jónasi Kristjánssyni líklega að falli í janúar 2006 þegar þeir birtu
fyrirsögnina „Einhentur kennari sagður nauðga piltum“ (DV,
10.1. 2006) þar sem fjallað var um meint kynferðisbrot Gísla
Hjartarsonar ritstjóra og kennara á Ísafirði. Viðbrögð Egils
Helgasonar fjölmiðlamanns við fréttinni voru afdráttarlaus en
hann sagði fyrirsögnina einkennast af hallærislegum meinfýsistón
þar sem hlakkað sé yfir óförum annarra „eins og lífið sé and-
styggilegur sirkus“. Egill spyr: „til hvers þurfti til dæmis að segja
að viðfangsefni forsíðunnar í dag væri „einhentur“?“.18 Egill vildi
kenna þessar fyrirsagnir við níhílisma en ég tel þær einfaldlega
hluta af framsetningarhættinum, írónískt stílbrigði sem heyrir
undir bókmenntagreinina sem blaðið er skrifað í.19 Stuðluð viður-
nefni, líkamslýti og illska hafa alltaf haldist í hendur í lítilsigldustu
bókmenntagreinunum. Pennarnir á DV eru auðvitað veraldarvan-
ari en svo að þeir láti hanka sig á slíku. Hjá þeim eru fyrirsagnirn-
ar kankvísar vísanir í hefðina og gefa til kynna ákveðið virðingar-
leysi andspænis umfjöllunarefninu. Jafnvel dauðinn, eitt miðlæg-
asta umfjöllunarefni DV, er ekki heilagur.
guðni elísson324 skírnir
17 Undir þetta heyrir DV-húmorinn sem er afskaplega fyndinn sé litið framhjá af-
leiðingum hans. Þar eru fyrirsagnir settar fram í hálfkæringi og sumir einstak-
lingar fá sérstök viðurnefni skari þeir fram úr í sérvisku eða afbrotahneigð:
Þannig lesum við um líkmennina (sjá frekar síðar), hasstvíburana (DV, 20.4.),
hnífakonuna (DV, 21., 23. og 24.7.), kattakonuna (DV, 24.8., 20.9. og 18.12.),
Hildu hitasæknu (DV, 28.7.), „ofbeldisfulla iðnaðarmanninn“ Hákon Eydal
(sjá frekar síðar) og Kaftein Kókaín (DV, 13.1. 2005). Svona mætti lengi telja.
18 Sjá: „Augun beinast að eigendum DV“, Vísir, 10.1. 2006. http://www.visir.is
[sótt 30.4. 2006].
19 „Glæpur einhenta mannsins“ gæti verið heiti á viktoríanskri glæpasögu, leitin
að einhenta manninum var líka helsta markmið flóttamannsins í kvikmyndinni
og sjónvarpsþáttaröðinni The Fugitive, en sá átti að hafa banað eiginkonu
söguhetjunnar. Á fyrri hluta síðustu aldar kom út á vondri íslensku skáldsagan
Eineygði óvætturinn í tveimur bindum (Reykjavík: Vasaútgáfan, 1946) og
svona mætti lengi telja. Líkamleg afmyndun er eitt miðlægasta einkenni got-
neskrar frásagnarlistar.
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:55 Page 324