Skírnir - 01.09.2006, Page 85
Fréttirnar af líkfundinum á Neskaupsstað voru gotneskur
hvalreki af áður óþekktri stærðargráðu. Margstungið lík óþekkts
fórnarlambs var dregið hlekkjað upp úr höfninni eftir eina verstu
óveðurshelgi vetrarins. Smám saman tóku málin að skýrast og í
ljós kom að hinn látni hét Vaidas Jucevicius og var lítháískt burð-
ardýr, en banamein hans var að fíkniefnapakkningar sem hann
hafði gleypt festust í maga hans og mjógirni. Þremenningarnir
Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Tomas Mala-
kauskas voru fljótlega grunaðir um að hafa komið að fíkniefna-
flutningnum og að hafa sökkt líki Vaidas í höfnina.28 Forsíða DV
var lögð undir fréttaflutning af líkfundarmálinu og fortíð fórnar-
lambsins og „líkmannanna“ svokölluðu var reifuð í frétt eftir frétt
í febrúar og mars 2004. Þannig var forsíða blaðsins lögð undir lík-
fundarmálið 19., 25. og 26. febrúar og 3., 4., 24., 25., 27. og 30.
mars, en einnig var málið oft aukafrétt á forsíðu blaðsins. Neta-
bryggjan á Neskaupsstað varð alræmdur staður og í DV birtust
fréttir af því að ferðamenn vildu „sjá vettvang glæpsins“ (DV,
26.3.) og að netabryggjan væri „túristagildra af bestu gerð“ (DV,
13.5.) og er það kannski til marks um áhrif fréttaflutningsins á
samfélagið allt.29 Dag eftir dag birtust síðan myndir af ódæðis-
mönnunum þremur frá því þegar þeir voru leiddir fyrir dómara og
myndirnar gáfu ótvírætt til kynna að hér væru varhugaverðir ein-
staklingar á ferð. Sérstaklega eftirminnilegar eru ljósmyndin af
Jónasi Inga Ragnarssyni þar sem hann horfir beint í vélina og sýn-
ir í sér tennurnar og af Litháanum Tomasi Malakauskas sem felur
andlitið undir grárri hettu. Myndirnar kalla fram í hugann tvær
helstur klisjur gotneskrar arfleifðar, söguna af tvífaranum, þar sem
skín í herra Hyde undir yfirborðinu, og ímynd dularfulla að-
komumannsins sem er hulinn undir kufli sínum.30
dauðinn á forsíðunni 331skírnir
28 Kafari fann líkið fyrir tilviljun 11. febrúar 2004, aðeins þremur dögum eftir að
því hafði verið sökkt.
29 Síðar um sumarið bárust fréttir af því að unglingar tækju af sér ljósmyndir fyrir
framan húsið í Stórholtinu þar sem Sri Rahmawati var myrt.
30 Tvífarinn er eitt rótgrónasta minni gotnesku hefðarinnar. Í tvífaranum kristall-
ast hugmyndin um tvo í einum, ljósið og myrkrið sem takast á í mannssálinni.
Skáldsaga Roberts Louis Stevenson Doktor Jekyll og herra Hyde er eflaust
þekktasta dæmið um slíka frásögn, en þær skipta tugum í nútímanum.
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:55 Page 331