Skírnir - 01.09.2006, Page 105
nauðsynlega samþjöppun sem fréttaflutningur kallar á, ýkir þær
sveiflur sem finna má í mannlegum athöfnum og viðbrögðum með
því að fara hraðar úr einum öfgum í aðrar, þvert á það sem eðlilegt
getur talist eða sennilegt í raunsæislegum skilningi orðsins. Það er
einmitt á slíkum forsendum sem Thomas Elsaesser útskýrir meló-
dramatísk áhrif sjónrænna miðla, t.d. í kvikmyndunum skáldverka
sem spanna vítt svið.56 Þá er haldið í veigamestu atburði frásagn-
arinnar, helstu hvörf og kennsl, en annað er skorið miskunnarlaust
í burtu. Skáldverki sem tekur tíu til tuttugu tíma í lestri er nú um-
bylt og það þjappað saman í kvikmynd sem er einn og hálfur til
tveir klukkutímar. Því líður mun skemmri tími milli hæða og
lægða í frásögn kvikmyndarinnar en í fyrirmyndinni sem unnið
var úr og við það eykst vægi melódramans í aðlöguninni. Sömu
kenningu mætti auðveldlega beita til að skýra þau óumflýjanlegu
þjöppunaráhrif sem verða við að flytja sögur af frásagnarverðum
atburðum úr veruleikanum yfir í afmarkað rými sjónvarpsfrétta-
tíma og dagblaða.
Ekki er síður mikilvægt að í fjölmiðlasamfélagi nútímans verða
mörk afþreyingar og fréttamennsku sífellt óljósari. Það hlýtur að
vekja upp spurningar um veruleikasýn fréttamiðla ef þeir nýta sér
í síauknum mæli ýmis af tækjum afþreyingarinnar til að efla áhorf.
Hér má nefna dramatísk fréttastef og fyrirsagnir, og það hvernig
vægi frétta ræðst gjarnan af myndefni þeirra, en frétt sem ekki er
hægt að skreyta myndum hefur takmarkaðra sölugildi en sú sem
sláandi myndefni fylgir.57 Einnig má greina frásagnarleg einkenni
dauðinn á forsíðunni 351skírnir
56 Thomas Elsaesser: „Tales of Sound and Fury: Observations on the Family
Melodrama.“ Sjá Film Genre Reader II. Ritstj. Barry K. Grant. Austin: Uni-
versity of Texas Press, 1997, bls. 360.
57 Í grein minni „Þrjátíu mínútur í sjónvarpssúpunni: „Fjölmiðlun“ fræða og
ímynd gagnrýnandans“ tók ég sem dæmi frægan bardaga hnefaleikakappanna
Evanders Holyfield og Mikes Tyson í júní 1997 um heimsmeistaratitilinn, þeg-
ar Tyson beit stykki úr eyra Holyfields. Atburðurinn var kallaður hneyksli ald-
arinnar og var ein umræddasta frétt mánaðarins. Í kvöldfréttatímum Ríkissjón-
varpsins var þó ekkert fjallað um atburðinn og þegar ég spurðist fyrir um
ástæðurnar var mér sagt að ekkert myndefni hefði fengist með fréttinni og því
hefðu fréttastjórarnir kosið að segja ekki frá biti Tysons (sjá frekar í grein minni
í Milli himins og jarðar. Ritstj. Anna Agnarsdóttir, Pétur Pétursson og Torfi H.
Tulinius. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1997).
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:55 Page 351