Skírnir - 01.09.2006, Page 218
INGIBJÖRG HARALDSDÓTTIR
Út í heim
Fremst í albúminu svarthvít eða öllu heldur grágrá ljósmynd
— það sem á að vera svart er grátt og það sem á að vera hvítt er
líka grátt, en öllu ljósgrárra. Stærð: upphaflega 69 sm en síðan
klippt til í 67,5. Tekin á kassavél. Hver skyldi hafa tekið hana?
Líklega mamma, mig minnir að hún hafi átt og notað kassavél.
Hvenær tekin, og hvar? Á Reykjavíkurflugvelli, snemma í sept-
ember 1963. Haustmynd. Flugvöllur. Þannig byrjaði það. Ein-
hver á leið út í flugvél og stikar stórum, hlaðin handfarangri,
einhver háleit og bjartsýn, hlýtur að vera óleyfilega ung, hlýtur
að vera reynsluleysið uppmálað, jafnvel sakleysið, þótt það sjá-
ist ekki á myndinni, ekki svona aftanfrá. Það sem sést er ferða-
hugurinn. Gríðarlegur æsingur í manneskjunni, það sést, þótt
myndin sé ekki stærri. Skyldi hún vera að missa af vélinni?
Varla. Hitt fólkið á myndinni sýnist rölta þetta í hægðum sín-
um, en sú sem er á myndinni miðri, hún æðir áfram, það sést. Í
átt að vélinni. Hlussur þessar flugvélar þá, eitthvað svo vamb-
miklar og ótraustvekjandi. Spurning hvort maður var ekki í lífs-
hættu allan tímann? Þessi tiltekna flugferð til Kaupmannahafn-
ar hlýtur þó að hafa verið áfallalaus því að ég man varla eftir
henni. Þó er einsog ég sjái óljóst fyrir mér svipinn á Ásgeiri
ferðafélaga mínum þegar hann stóð upp úr sæti sínu eftir lend-
ingu á Kastrup og leit til okkar Siggu sem sátum aftar í vélinni.
Hann glotti, kampakátur. Á leiðinni inn í flugstöðvarbygging-
una sagði hann á sinn hæga, ísmeygilega hátt: „Jæja, þá er mað-
ur búinn að sofa hjá fegurðardrottningu!“ Ungfrú Ísland hafði
nefnilega setið við hlið hans — og hann þóttist hafa sofnað á öxl
hennar. Okkur Siggu þótti hann fyndinn. Fleiri minningar á ég
ekki úr þessari ferð.
Skírnir, 180. ár (haust 2006)
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:56 Page 464