Skírnir - 01.09.2006, Síða 219
Þótt ég hefði aldrei flogið áður var ég ekki ósigld manneskja,
öðru nær. Vorið sem ég var átján ára sigldi ég með Gullfossi til
Bretlands og dvaldist þar sumarlangt, gætti barna og kynnti mér
framandlega lifnaðarhætti húsbænda og hjúa í ríki drottningar. En
það er önnur saga. Þessi sem ég ætla að rifja upp núna byrjar á
Reykjavíkurflugvelli tveimur árum síðar. Mér er ekki fyllilega
ljóst hvar eða hvenær hún endar. Mér er ekki einu sinni ljóst hver
hún eiginlega var — eða er — þessi ferðaglaða söguhetja sem lifir
sínu grágráa lífi á lítilli ljósmynd og ef til vill víðar, ef til vill er
hana einnig að finna í bunka af gömlum sendibréfum sem liggur
hér á borðinu hjá mér. Ég veit það ekki, en hitt er víst: ég er kom-
in um langan veg að finna hana. Mig grunar að ég eigi við hana er-
indi.
Septemberdagur á Reykjavíkurflugvelli, semsagt. 1963. Gerð-
ist eitthvað? Ung stúlka hleypti heimdraganum, heitir það víst.
Mynd var tekin af atburðinum. Nokkrum dögum seinna skrifar
stúlkan heim og byrjar bréfið á þessum orðum:
„Þá er ég komin til fyrirheitna landsins.“
Merkilegt hvað þessi sendibréf vekja blendnar tilfinningar
núna, rúmum 40 árum síðar, þar sem ég sit við skrifborð og rýni í
gulnuð blöðin. Engu líkara en orðin hafi fengið aðra merkingu eða
öllu heldur: sú sem les þessi orð núna sjái þau ekki á sama hátt,
skilji þau öðrum skilningi. „Fyrirheitna landið“? Hvað á hún við?
Er hún að spauga eða er henni alvara? Hvar er það nú, þetta
þrönga einstigi hinnar einu sönnu túlkunar? „Ferð án fyrirheits“,
sagði Steinn Steinarr. Sú bók var í farteski stúlkunnar og fylgdi
henni æ síðan, á öllu hennar flakki. Þó skrifar hún þessa setningu
svona líka glaðhlakkalega, nýkomin til Moskvu, höfuðborgar
heimskommúnismans, 13. september 1963. Og kalda stríðið í al-
gleymingi.
Eitt er víst: bréfin geyma ekki „sannleikann“ og segja ekki alla
söguna. Einu sinni hélt ég að sannleikurinn væri einn, og taldi mig
þekkja hann. Áratugirnir sem liðnir eru síðan hafa sýnt mér fram
á að málið er ekki og var aldrei svo einfalt. Þessvegna er erfitt að
setja sig í spor hennar, stúlkunnar á flugvellinum. Ég reyni það
samt. Þreifa mig áfram, bréf fyrir bréf, og hugsa þakklát til pabba
út í heim 465skírnir
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:56 Page 465