Skírnir - 01.09.2006, Page 236
Sex árum síðar vaknaði Engracia Gutiérrez í ömurlegasta hverfi
höfuðborgar Guatemala við það að barið var að dyrum. Menn í
einkennisbúningum voru komnir til að tilkynna að bróðir hennar,
José Antonio, skráður í sveit landgönguliða, hefði fallið í Írak.
Þessi götudrengur var sá fyrsti sem dó í innrásarhernum í
stríðinu árið 2003.
Yfirvöld létu breiða röndum og stjörnum prýddan fánann yfir
kistuna og maðurinn var heiðraður að hermannasið. Síðan gerður
að bandarískum ríkisborgara — launin sem honum hafði verið
lofað.
Sjónvarpið var með beina útsendingu frá athöfninni og lofaði
hetjuskap þessa hugrakka hermanns sem hafði fallið í viðureign
við írösku sveitirnar.
Síðar kom í ljós að hann hafði fallið fyrir vinarskoti eins og það
kallast þegar menn villast á óvini.
Kristín Guðrún Jónsdóttir þýddi.
Eduardo Galeano (f. 1940) frá Uruguay er einn vinsælasti rithöfundur
Rómönsku Ameríku. Auk ritstarfa hefur hann unnið við blaðamennsku og
ritstjórn áratugum saman. Hann var gerður útlægur í tvígang og bjó í Argent-
ínu og á Spáni en sneri aftur til heimalands síns árið 1985. Löngum hefur þótt
erfitt að flokka rit Galeanos því að hann blandar saman skáldskap, blaða-
mennsku, stjórnmálum og sagnfræði í verkum sínum. Hann hefur gefið út
fjölda bóka, m.a. Las venas abiertas de América Latina (Opnar æðar
Rómönsku Ameríku, 1971), Días y noches de amor y de guerra (Dagar og
nætur í ást og stríði, 1978), El libro de los abrazos (Bók faðmlaga, 1989) og El
fútbol a sol y sombra (Fótbolti í sól og skugga, 1995). Þekktasta verk hans er
án efa Memorias de fuego (Minningar af eldi, 1982–1986), þrjú bindi með
stuttum textum sem spanna sögu Ameríku frá tímum frumbyggja til nútím-
ans.
Eduardo Galeano hefur unnið til fjölda verðlauna og verk hans hafa ver-
ið þýdd á yfir tuttugu tungumál. Sögurnar sem hér birtast eru úr nýjustu bók
hans, Raddir úr tímanum (Bocas del tiempo, 2004).
eduardo galeano482 skírnir
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:56 Page 482