Skírnir - 01.09.2006, Page 249
hugmyndir. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða ummæli Sjóns um
hættuna sem stafi af viðhorfum eins og þeim sem Valdimar heldur fram. Í
samtali Sjóns við bókmenntafræðinema lagði hann áherslu á að slík
viðhorf „smygluðu sér“ oft og tíðum inn í hugarheim fólks í gegnum
vísindin.31 En ef betur er að gáð þá er það ekki í vísindum sem þessar hug-
myndir lifa bestu lífi í dag.
Í fyrirlestri Sumarliða R. Ísleifssonar, sagnfræðings, „Hafa ímyndir
áhrif?“ sem hann hélt á vegum Sagnfræðingafélagsins síðastliðinn vetur
undir yfirskriftinni Hvað er útrás? kemur í ljós að hugmyndir á borð við
þær sem Valdimar heldur á lofti lifa betra lífi í samtímanum en nokkurn
mann hefði órað fyrir.32 Sumarliði ræddi ímyndasköpun Íslands í gegnum
tíðina í fyrirlestrinum og bar saman íslenska þjóðrembu þess tíma sem
Argóarflísin fjallar um við þá orðræðu sem hefur verið áberandi í tengsl-
um við útrás íslenskra fyrirtækja og velgengni íslenskra tónlistarmanna
erlendis upp á síðkastið. Hann segir að þjóðernisleg rök hugmyndasögu-
lega skyld mannkynbótastefnunni hafa verið notuð „til að skýra fram-
gang og velgengni fólks og fyrirtækja, gargandi snilld þeirra út um allan
heim [sem] sækir kraft sinn í hina mikilfenglegu íslensku náttúru og
norrænan menningararf.“33
Niðurstaða Sumarliða er sú að orðræða nútímans sé alls ekki svo ólík
þeirri orðræðu sem algeng var og viðtekin við upphaf 20. aldar. Hann ber
saman lykilorð umræðunnar og segir hana að mörgu leyti samhljóða.
Forsvarsmenn umræðunnar í dag eru ekki valdalausir karlar heldur þvert
á móti fólk sem tekið er mark á, háttsettir stjórnmálamenn, mikilsvirtir og
jafnvel heimsþekktir listamenn og margir fleiri. Að mínum dómi gefur
Argóarflísin lesandanum ekki tækifæri til að tengja orðræðu mannkyn-
bótastefnunnar við útrásarorðræðu dagsins í dag þrátt fyrir bersýnilegan
skyldleika þeirra. Þetta verður til þess að ádeila Argóarflísarinnar á þjóð-
rembu er harla lítil. Bókin gefur lesandanum færi á nokkurs konar flótta
undan því að takast á við hana og setja í samhengi við eigið líf. Argóarflís-
fortíðarþrá í argóarflís sjóns 495skírnir
31 „Samtal við Sjón.“ Sjá einnig umræðu Sjóns um íslenska þjóðrembu í Jón Yngvi
Jóhannesson: „Að baka úr hisminu“, bls. 20.
32 Sumarliði R. Ísleifsson: „Hafa ímyndir áhrif? Fyrirlestur hjá sagnfræðifélaginu
7. mars 2006.“ Sjá: http://kistan.is/efni.asp?n=4542&f=3&u=2 [sótt 10.08.06].
33 Sumarliði R. Ísleifsson: „Hafa ímyndir áhrif?“ Sumarliði ræðir svipaðar hug-
myndir í Sumarliði R. Ísleifsson: „Fyrirmyndarsamfélagið Ísland.“ Ritið, 2. ár
2002, bls. 117–129. Þar tekur hann auglýsingabækling frá Flugleiðum, sem
sendur var með stærstu dagblöðunum í Danmörku inn á dönsk heimili, sem
dæmi um orðræðu Íslendinga og ímyndasköpun þeirra erlendis. Í bæklingnum
birtust svipaðar hugmyndir um Ísland og þær sem hafa verið áberandi í tengsl-
um við „útrásina“. Hann tekur einnig dæmi af íslenskum listamönnum sem í
viðtali við stórt blað í Þýskalandi hömpuðu náttúrunni og norræna sagnaarfin-
um.
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:56 Page 495