Skírnir - 01.09.2006, Síða 262
Vélbúnaður til listgerðar
Skilningur þeirra Steinu og Woodys á sérþörfum hinnar nýju list-
ar varð til þess að þau fundu sal í Soho, á suðvestanverðri Man-
hattan-ey, sem líktist blöndu af kvikmyndasal og leikhúsi og hent-
aði prýðilega til myndbandasýninga, hljóð- og hljómleika. Þetta
varð upphaf The Kitchen, þekktustu myndbandsmiðstöðvar allra
tíma og dró staðurinn heiti sitt af Broadway Central Hotel, sem
verið hafði flaggskip gistihúsa á neðanverðri eynni á ofanverðri
19. öld, en salur Vasulka-hjónanna var upphaflega eldhús hótels-
ins. Þau Steina og Woody höfðu veg og vanda af staðnum tvö
fyrstu árin og gerðu hann að því heimsfræga nafni sem hann er
enn í hugum listunnenda, en vegna mikils erils, þrengsla og lítils
tíma til eigin listsköpunar ákváðu þau að yfirgefa New York-borg
árið 1973 og flytja til Buffalo, skammt sunnan við landamæri
Kanada, þar sem þau þáðu stöðu og aðstöðu við Rannsóknardeild
í margmiðlun við Fylkisháskólann. Árið 1981 brugðu Vasulka-
hjónin aftur búi og fluttu alfarið til Santa Fe í Nýju-Mexíkó. Þar
dvelja þau milli þess sem þau kenna við hina þekktu margmiðlun-
armiðstöð, Zentrum für Mediakunst, í Karlsruhe, í Þýskalandi
suðvestanverðu.
Frammi fyrir Machine Vision og öðrum verkum, sem spruttu
af fyrstu tilraunum Steinu til að koma fyrir flóknum vélbúnaði í
sýningarrými verður að hafa í huga löngun hennar til að upphefja
alla hindrun á vegi áhorfandans til beinnar upplifunar. Samsetning
verksins átti eftir að taka stöðugum breytingum næstu tvo áratug-
ina en kjarninn, Allvision, var ætíð hinn sami. Steina virðist þó
snemma hafa skynjað vandkvæðin sem því fylgdu að setja upp
flóknar vélar sem fylgdust hver með annarri um leið og þær tóku
upp allt umhverfið. Það var nær ógerlegt að bæta fimm mynd-
böndum við slíkt ofureftirlit án þess að rugla áhorfendur gjörsam-
lega í ríminu. Niðurstaðan varð sú að Steina ákvað að greina milli
vélbúnaðar og myndbanda, sem af honum spruttu, og til varð
verkið Orbital Obsession — Þráhyggja um sporbauginn — árið
1977, þar sem fjórum af fimm upprunalegum verkum Machine
Vision var steypt saman í eitt órofa myndband.
halldór björn runólfsson508 skírnir
Skírnir haust nota-1 13.11.2006 15:56 Page 508