Morgunblaðið - 27.09.2018, Blaðsíða 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. SEPTEMBER 2018
VIÐTAL
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á
búskap og hef alltaf aðstoðað hér
eftir föngum, ekki síst við heyskap
og jarðvinnslu,“ segir Baldur Helgi
Benjamínsson sem er að undirbúa
það ásamt konu sinni, Elinu Nolsöe
Grethardsdóttur, kynbótafræðingi
og mjólkurgæðaráðgjafa hjá Auð-
humlu, að taka við búskap á Ytri-
Tjörnum í Eyjafjarðarsveit af for-
eldrum sínum, Benjamín Baldurs-
syni og Huldu Magneu Jónsdóttir.
„Baldur var sendur einn til að
sækja kýrnar áður en hann var orð-
inn sex ára og var byrjaður að vinna
á dráttarvél tólf ára,“ segir Benja-
mín um búskaparáhuga sonarins.
Baldur menntaði sig í búnaðar-
fræðum. Fór á Hvanneyri eftir
stúdentspróf frá Menntaskólanum á
Akureyri, fyrst í bændadeildina en
svo í BS-nám í búvísindum og loks í
meistaranám í kynbótafræði við
Landbúnaðarháskólann í Kaup-
mannahöfn. Síðan hefur hann unnið
við landbúnaðinn, beint og óbeint,
sem ráðunautur og verkefnastjóri
hjá Bændasamtökum Íslands en
lengst sem framkvæmdastjóri
Landssambands kúabænda í rúm
tíu ár. Alltaf hefur hann sótt í sveit-
ina og aðstoðað við búskapinn. Þeg-
ar hann var í bændadeildinni gerði
hann endurræktunaráætlun fyrir
alla jörðina á Ytri-Tjörnum og hef-
ur verið unnið eftir henni síðan og
eru því tún og önnur ræktun í góðu
horfi.
„Ég hef lifað og hrærst í bú-
skapnum og þykir reyndar félags-
störfin einnig skemmtileg,“ segir
Baldur Helgi.
Setti lífið í bið
Fjölskyldan hefur stefnt að því
lengi að Baldur kæmi inn í búskap-
inn en það hefur dregist, meðal
annars vegna óvæntra atvika. Þau
Elin hugðust byggja hús á jörðinni
og gerðu fyrir sex árum samning
um kaup húsi sem þar átti að reisa.
Í ljós kom að fyrirtækið hafði verið
tekið til gjaldþrotaskipta nokkrum
dögum áður en skrifað var undir og
gat því ekki efnt samninginn. For-
svarsmenn fyrirtækisins og fast-
eignasalinn voru dæmd til að greiða
þeim skaðabætur sem nema inn-
borgunum á samninginn auk vaxta
og málskostnaðar. Síðan Hæstirétt-
ur staðfesti þann dóm hafa þau ver-
ið í innheimtumáli sem ekki er lok-
ið.
„Þetta mál hefur sett líf okkar í
bið í fimm ár, meðal annars áform
um búskap. En það þýðir ekki að
láta þetta stöðva sig að eilífu,“ segir
Baldur.
Nýr valkostur í fjármögnun
Kaup á stóru kúabúi í fullum
rekstri er heilmikil fjárfesting. Það
er erfiður þröskuldur fyrir ungt fólk
sem ekki kemur að borðinu með
fullar hendur fjár.
Erfitt getur verið að meta jarðir
til verðs og þarf að taka tillit til
margra þátta. Feðgarnir benda á að
Ytri-Tjarnir séu á einum besta stað
á landinu og nálægt Akureyri.
Væntanlega væri hægt að selja
hana auðmönnum á háu verði, miklu
hærra verði en nokkur búrekstur
getur risið undir. Baldur bendir á að
ekki fáist fyrirgreiðsla í bönkum
nema jörðin sé seld á verði sem bú-
skapur getur staðið undir og vaxta-
kjör fari eftir því hvernig endur-
greiðsluhorfur eru. Ekki sé heldur
hægt að selja jörð við einhverju
gjafverði því taka þurfi tillit til
systkina hans auk þess sem slíkt
myndi væntanlega leiða til vanda-
mála varðandi skattlagningu.
Baldur nefnir annað vandamál.
Þegar gróin bú er seld er bókfært
verð eigna gjarnan orðið lágt og því
myndast mikill söluhagnaður.
Bændur sem selja afkomendum sín-
um bú sín lána oft hluta kaupverðs-
ins gegn skuldabréfi. Geta þeir þá
lent í því að þurfa að greiða skatt af
söluhagnaði löngu áður en fullt
kaupverð fæst greitt. Hefur þetta
hamlað ættliðaskipum á bújörðum.
Haraldur Benediktsson og fleiri
þingmenn hafa lagt fram frumvarp
til breytinga á lögum um tekjuskatt
þar sem lagt er til að heimilt verði
að dreifa skattlagningu söluhagn-
aðar á allt að 20 ár í stað 7 ára, ef
hluti kaupverðsins er greiddur með
skuldaviðurkenningu. Tilgangurinn
er að auðvelda kynslóðaskipti í ís-
lensku atvinnulífi, ekki aðeins bú-
rekstri.
„Ef frumvarpið verður að lögum
myndi það bæta verulega úr þeirri
ósanngirni sem nú er. Bændur
myndu geta greitt tekjuskatt af
söluhagnaði um leið og þeir fá af-
borganir af seljendaláni og halda því
eftir einhverju af söluverðinu til eig-
in nota.
Þetta yrði einnig nýr valkostur í
fjármögnun jarðakaupa og skapaði
möguleika á myndun eftirlaunasjóðs
fyrir bændur sem hætta búskap,“
segir Baldur Helgi.
Ævistarfið fari til þeirra
Ætt Benjamíns og Baldurs hefur
tengst jörðinni Ytri-Tjörnum í 160
ár. Þar bjó langafi Benjamíns og
nafni, Benjamín Flóventsson, eftir
miðja nítjándu öld og þar fæddist afi
hans, Kristján H. Benjamínsson.
Benjamín þurfti að flytja annað en
Kristján stefndi alltaf að því að
komast aftur að Ytri-Tjörnum og
tókst að kaupa jörðina árið 1899.
Sonur hans, Baldur Helgi Kristjáns-
son, tók við búskapnum árið 1944.
Benjamín og Hulda komu inn í bú-
skapinn með honum árið 1974 og
tóku alfarið við rúmum áratug síðar.
Benjamín verður sjötugur í byrj-
un næsta árs og hefur haft hug á að
minnka við sig vinnu. „Mér finnst
mjög ánægjulegt að ævistarfið fari
til þeirra, fyrst þau hafa áhuga á
því,“ segir Benjamín.
Stefnt er að því að skiptin verði
um áramót. Benjamín reiknar þó
með að þau Hulda búi í íbúaðarhúsi
sínu fyrst um sinn. Baldur og Elin
eiga íbúðarhús í Hrafnagilshverfinu,
handan ár. Baldur segir að hann
verði nokkrar mínútur að aka í vinn-
una. Til framtíðar litið sé þó betra
að búa á jörðinni. Til tals hefur
komið að fjölskyldurnar skiptist á
íbúðarhúsum.
„Ætli ég verði ekki vinnumaður
hjá þeim, það er að segja ef hann
vill hafa mig. En það kemur allt í
ljós,“ segir Benjamín þegar hann er
spurður um framhaldið.
Samræmi við fjölskyldulífið
Baldur segist taka við ágætis búi
en þó sé kominn tími til að ráðast í
framkvæmdir. Nefnir hann að fjós-
inu hafi verið breytt í lausagönguf-
jós með mjaltabás fyrir fjórtán ár-
um. Benjamín bendir á að hægt sé
að mjólka 12 kýr í einu og því gangi
mjaltirnar yfirleitt ágætlega og taki
ekki langan tíma. Baldur segir að
opinberar kröfur um rými fyrir
gripi í fjósum og fleira hafi breyst
frá því breytingarnar voru gerðar.
„Það skiptir þó meira máli að maður
vill sjálfur breyta og bæta ýmislegt
sem þótti gott og gilt fyrir fjórtán
árum.“
Hann segist vel geta hugsað sér
að ganga alla leið og breyta fjósinu
þannig að hægt verði að taka í notk-
un mjaltaþjóna. Baldur og Elin eru
með stóra fjölskyldu og horfir hann
til þess að það sé krefjandi verkefni
að samræma vinnu og fjölskyldu-
stundir. „Mjaltir eru kvölds og
morgna og stangast á við þann tíma
sem mikið er að gera á heimilinu,
annatímann á morgnana þegar
börnin eru að fara í skóla og „úlfa-
tímann“ á kvöldin þegar maður vill
sinna börnunum. Lykilorðið er
sveigjanleiki sem betur fæst með
notkun róbóta í fjósinu,“ segir Bald-
ur.
Benjamín bendir á að erfitt sé að
hnika mjöltunum til og segir að
reynslan sýni að afurðir kúnna auk-
ist töluvert þegar mjaltaþjónar taka
við mjöltunum.
Hef lifað og hrærst í búskapnum
Ættliðaskipti standa fyrir dyrum á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði Vandasamt að verðleggja jörðina
Breyting á lögum um skattlagningu söluhagnaðar myndi auðvelda fjölskyldunni skiptin
Morgunblaðið/Benjamín Baldursson
Búsældarlegt Nokkuð þéttbýlt er á Staðarbyggð í Eyjafirði. Hér eru Ytri-Tjarnir í forgrunni, fjósið, gamli bærinn
og íbúðarhús Benjamíns og Huldu næst veginum. Hinum megin ár sést til Hrafnagilshverfisins.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Feðgar Benjamín Baldursson og Baldur Helgi Benjamínsson á Ytri-
Tjörnum. Fyrir dyrum standa breytingar á högum þeirra.
Framtíðin ætti að geta verið góð í mjólkurfram-
leiðslu, að mati Baldurs Helga Benjamínssonar, þótt
einnig séu blikur á lofti þar eins og annars staðar.
„Ég tel að framtíð sé í þessari atvinnugrein, ef vel
verður haldið á spilunum, og við getum búið við
sómasamlega afkomu. Annars væri ég ekki að
þessu.“
Helsti óvissuþátturinn er aukinn innflutningur
mjólkurafurða vegna tollasamninga við Evrópusam-
bandið sem smám saman taka gildi. „Laun hafa
hækkað mikið í samfélaginu og landbúnaðurinn þarf
að standa sig í samkeppninni um fólk og fjármagn.
Ég tel að tækifærin séu fyrir hendi. Við sáum það til
dæmis ekki fyrir á árunum 2011 til 2012 að eftir örfá
ár hefði markaður fyrir mjólkurafurðir aukist um
fjórðung. Sala fituhlutans er enn að aukast en pró-
teinhlutans að minnka og er það áhyggjuefni.
Við fórum til Svíþjóðar í sumar og sáum þar
sviðna jörð. Hér opnuðust möguleikar á að flytja út
hey í stórum stíl. Enginn sá það fyrir. Við höfum
mikið landrými og vatnsforða og loftslagið hefur
verið hagstætt undanfarin ár. Við höfum til dæmis
verið að slá tíu dögum til hálfum mánuði fyrr en
þegar ég var að alast upp. Ég tel að það séu heil-
mikil tækifæri í jarðrækt á Íslandi.
Allt þetta sýnir að það eru líka tækifæri í landbún-
aði en það skiptir máli hvernig haldið er á spilunum.
Við þurfum að hugsa um það hvernig við ætlum að
gera greinina samkeppnishæfari. Þeirri leit lýkur
aldrei,“ segir Baldur.
Skiptir máli hvernig haldið er á spilunum
Ljósmynd/Baldur Helgi Benjamínsson
Þriðji sláttur Spretta var góð í Eyjafirði. Hér er verið
að slá fjölært rýgresi á Ytri-Tjörnum 6. september.
Skoðið miðjublaðið og
gerið góð kaup í Bónus
g
Mánudaga - Fimmtudaga
10:00 - 19:00
Föstudaga - Laugardaga
10:00 - 19:30
Sunnudaga
11:00 - 18:00
Sm ratorg
aðeins í Bónus Sm ra or
á i
Lengri opnunartími