Náttúrufræðingurinn - 2017, Blaðsíða 15
15
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
LÍFSHÆTTIR ÍSKÓÐS
VIÐ ÍSLAND
Ískóð (Boreogadus saida) er smávaxin hánorræn þorsk-
fiskategund, útbreidd allt í kringum norðurheim-
skautið og sennilega algengasta fisktegundin í Norð-
ur-Íshafinu. Ískóð gegnir mikilvægu hlutverki í fæðu-
vef Íshafsins, étur dýrasvif og er fæða annarra fiska,
sjávarspendýra og fugla. Samfara hlýnun jarðar og
bráðnunar hafíss hefur áhugi á vistkerfi Norðurhafa
aukist. Hér er gerð grein fyrir rannsóknum á ískóði
við Ísland og er áhersla lögð á einkennalýsingu og
stærstu drætti í útbreiðslu. Fram til þessa hefur lítið
verið ritað um ískóð á íslensku. Rannsóknin er byggð
á gögnum sem safnað hefur verið á vegum Hafrann-
sóknastofnunar í stofnmælingu botnfiska í mars 1985–
2013 og í seiðaleiðöngrum í ágúst-september 1974–
2003. Ískóð fékkst í stofnmælingu aðallega á ytri hluta
landgrunnsins undan norðvestur- og norðurströndinni.
Ískóð fékkst sjaldan í seiðarannsóknum og þá nánast
einungis utan við landgrunnsbrúnina norðvestur af
Íslandi og yfir landgrunni Austur-Grænlands. Með
hækkandi botnhita dró úr fjölda stöðva þar sem ískóð
fékkst í botnvörpu. Víðfeðmust var útbreiðslan á land-
grunninu á árunum 1989, 1994 og 1995. Meðalfjöldi
ískóðs á stöð var mestur við –1,5 til 1,0°C botnhita og
á 200–450 m dýpi. Ískóð í stofnmælingu var 5–32 cm
að lengd en það sem fékkst í seiðarannsóknum 2–19
cm. Auk tiltækra upplýsinga frá nálægum hafsvæðum
bendir útbreiðslan til þess að ískóð við Ísland sé upp-
runnið í hrygningarstöðvum við Austur-Grænland og
að með frekari hlýnun sjávar og hopi hafíss kunni það
að hverfa af Íslandsmiðum.
1. mynd. Ískóð. – Polar cod (Boreogadus saida). Teikning/drawing: Jón Baldur Hlíðberg.
Ritrýnd grein /Peer reviewed
Náttúrufræðingurinn 87 (1–2), bls. 15–23, 2017
Ólafur S. Ástþórsson