Náttúrufræðingurinn - 2017, Blaðsíða 63
63
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
grasvíði eins og skugginn. Þar er
augljóslega um sambýli (stoðbýli)
að ræða, eins konar matarfélag
svepps og plöntu, sem reyndar er
algengt fyrirbæri í náttúrunni og
kallast svepprót (mykorrhiza), því
að þræðir (ímur) sveppsins vaxa
saman við rætur plöntunnar og
mynda oft ljósa þekju utan um þær
yngstu. Þetta sambýli er báðum til
mikils gagns, því að sveppurinn fær
kolvetni til næringar frá plöntunni
en miðlar henni ýmsum næringar-
efnum í staðinn, aðallega stein-
efnum sem hann leysir úr moldinni
með efnaskiptum sínum (rotnun).
Næstum öll tré og runnar í norð-
lægum löndum hafa slíka svepp-
rót, og fjöldi annarra plantna, með-
al annars kornsúra og rjúpnalauf.
Svipað sambýli er einnig í flétt-
um, nema þar er þörungur mót-
aðili sveppsins í stað plöntunnar,
og fléttur vaxa oft við hinar erfið-
ustu aðstæður eins og alkunnugt
er. Óvenjulegt er hversu margar
svepptegundir eru tengdar gras-
víðinum. Samkvæmt athugunum í
Alpafjöllum skipta þær nokkrum
tugum. Yfirleitt eru þær smávaxn-
ar og lítið áberandi, tilheyra flestar
trafsveppum (Cortinarius) og hæru-
sveppum (Inocybe), og eru erfiðar í
greiningu, enda fremur lítið þekktar
hérlendis (sbr. Sveppabók mína,14
bls. 51 og 64). Sumir geta vaxið með
öðrum víðitegundum. Þó koma
einnig fyrir stærri sveppir, svo sem
snæserkur (Amanita nivalis) sem er
alhvítur að lit og talinn ágætis mat-
sveppur. Ýmsir sníkjusveppir koma
fyrir á grasvíði eins og á öðrum víði-
tegundum, m.a. víðiryð (Melampsora
epitea) og víðitjörvi (Rhytisma salicin-
um) en gera sjaldan teljandi skaða.
Íslensk nöfn og erlend
Íslensk nöfn á grasvíði eru mörg.
Sum þeirra bera endinguna -lauf,
sem almennt var notað um lágvax-
inn víði, sbr. orðið laufhey, og flest
benda þau til að grasvíðir sé mikil
gæðaplanta hvað beit snertir og
mun það ekki ofætlað.
Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar (1.
útg. 1772)15 er heitið kotúnslauf haft
um þessa tegund, sem vísar til fræ-
ullar víðisins, sbr. enska orðið cotton
= baðmull. Sama heiti er notað í
Ferðabók Olaviusar (1. útg. 1780).16
Heitið kotúnsvíðir hefur verið notað
um aðrar víðitegundir, svo sem grá-
víði (fjallavíði) og loðvíði, og vísar
til þess sama (5. mynd).
Nafnið grasvíðir kemur fyrst
fyrir hjá Birni Halldórssyni í bókinni
Grasnytjar (1783)17 og telur Steindór
Steindórsson í bókinni Íslensk plöntu-
nöfn, 1978,18 líklegt að hann hafi
búið það til með hliðsjón af latneska
viðurnefninu herbacea eða eldra nafni
sem var Salix graminea, eins og áður
segir. Síðan hafa flestir höfundar
notað þetta íslenska heiti. Nikolai
Mohr (1786) notar það, en getur þess
að sumir kalli tegundina kotungslauf,
sem líklega er skýring hans á kotúns-
lauf, en hugsanlega ritvilla.19
Björn bjó lengi í Sauðlauksdal
við Patreksfjörð, og hafa sumir
viljað skýra það örnefni þannig að
sauðlaukur sé heiti á grasvíði, en
Björn notar það heiti á allt aðra
tegund, nefnilega Triglochin sem
enn heitir sauðlaukur í íslenskum
flórubókum. Eftir lýsingu hans að
dæma vex grasvíðir í stórum stíl í
Sauðlauksdal og því er þessi tilgáta
ekki fjarri lagi. Ingólfur Davíðsson1
segir grasvíði nefndan sauðlauk á
Fljótsdalshéraði og víðar „að því
er virðist frá fornu fari. Ef til vill eru
„Sauðlauksdalir“ við hann kenndir.“
Steindór Steindórsson minnist
einnig á þetta í grein í Heima er bezt
1956:
Ég hef alltaf dregið mjög í efa, að
bæjarheitið Sauðlauksdalur gæti
verið dregið af þeim sauðlauk, sem
vér nú köllum, sem að vísu er all-
algeng planta, en hvergi svo áber-
andi að hann gæti gefið tilefni til
nafngiftar. En mér hefur verið tjáð,
að á Austurlandi sé grasvíðir nefnd-
ur sauðlaukur, og örnefni séu þar til,
dregin af því. Getur það vel átt við
um Sauðlauksdal vestra.20
Ekki þekkir greinarhöfundur
þetta nafn á Héraði, eða örnefni því
tengd. Oddur Hjaltalín bjó til nafnið
dvergavíðir (1830)21 með hliðsjón af
heiti grasvíðis á ýmsum tungumál-
um. Hann tilfærir einnig nöfnin gras-
víðir og kotungslauf. Heitið geldinga-
lauf kemur fyrir í Lýsingu Íslands
(2. bindi) eftir Þorvald Thoroddsen,
sauðlauf í sóknarlýsingu Holtssóknar
í Rangárvallasýslu, og smjörlauf
meðal annars í seðlasafni Ólafs
Davíðssonar.18
Stefán Stefánsson notar grasvíði
sem aðalnafn, en hefur smjörlauf sem
aukanafn í 1. útgáfu Flóru Íslands
frá 1901,11 og hefur það haldist síð-
an. Hann getur einnig um nöfnin
sauðkvistur og geldingalauf. Ágúst H.
Bjarnason getur um sömu nöfn í
flórubók sinni 1983.22
5. mynd. Grasvíðir með þroskuð (opin) aldin. Myndin er tekin uppi á ásnum milli Sandár
og Suðurárhrauns á Bárðdælaafrétti. Ljósm. Hörður Kristinsson, 8. ágúst 2007.