Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Blaðsíða 57
Á l f u r
TMM 2013 · 2 57
réttingunni og sópað saman „Rannsókn á tilfinningalífi mínu frá því í
frumbernsku með sérstakri áherslu á brokkgengt ástarlíf mitt“, sest ég við
skrifborðið með plástur og nýlagað bencha-te, andspænis fartölvuskjánum.
Útgefendurnir eiga von á nýrri bók frá mér eftir þrjár vikur. Ég sendi þeim
fyrsta kaflann úr „Systir mín, melankólían“, einni af misheppnuðu skáld-
sögunum mínum, fyrir allnokkru og er að hugsa um að senda þeim næsta
kafla líka, um leið og hann er tilbúinn.
Ég sé að mér hefur borist nýtt tölvuskeyti með fyrirsögninni: „Hvað á það
að þýða að svara ekki í símann?“
Ég gefst upp á skáldskapnum og ákveð að kominn sé tími á síestuna mína.
Ég fæ hræðilega martröð. Í Parísarborg geisar blóðug styrjöld milli ungra,
svangra ljóðskálda og vellaunaðra, mettra tölvuforritara. Við kærastan mín
höfum neglt bókahillu fyrir útidyrnar og girt fyrir gluggana með herðatrjám.
Niður úr loftinu hanga tugir dauðra músarunga. Ég er um það bil að stinga
einum þeirra ofan í pott með kraumandi saltvatni þegar ég hrekk upp af
svefninum, bullsveittur og skjálfandi.
Þá heyri ég gengið um í stigaganginum og rétt á eftir lýkur kærastan mín,
án nokkurra vandkvæða, upp hurðinni.
„Ég keypti döðlur, möndlur og þurrkuð týtuber.“ Hún leggur brúnan,
skrjáfandi bréfpoka á stofuborðið, hnusar út í loftið og segir: „Frábært.
Varstu að laga te?“
Síðan kyssir hún mig ánægð á nefbroddinn. „Hvað ertu að gera í kímónó-
sloppnum mínum?“
„Það var dragsúgur.“
„Er ekki allt í góðu?“
„Jú, jú. Ég var bara að skrifa.“
„Duglegur.“
Hún hlammar sér aftur í hægindastólinn og seilist eftir doðrantinum um
forna, egypska listmuni. „Vildirðu vera svo vænn að fjarlægja Spiderman-
nærbuxurnar þínar af stofugólfinu, ljúfur?“
Ég framfylgi að venju boði hennar. Síðan sest ég við skrifborðið og brýt
heilann dágóða stund um skáldsögurnar mínar. En það er of heitt, mér
dettur ekkert í hug. Úti krafsar gamla kerlingin á neðstu hæðinni í gang-
stéttina með strákústi.