Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Blaðsíða 37
TMM 2013 · 2 37
Veturliði G. Óskarsson
Heilög þrenning:
Land, þjóð og tunga
Hugleiðing um orðræðu
Land, þjóð og tunga I: Uppsprettan
Í orðræðu um tungu og sjálfsmynd á Íslandi, einkum í riti, koma orðin
land, þjóð og tunga fyrir eins og indversk mantra. Þau eru notuð af fólki á
öllum sviðum samfélagsins, frjálslyndu jafnt sem íhaldssömu, stjórnmála-
mönnum jafnt sem þeim sem láta sig pólitík minna skipta; í ádeilugreinum,
á tyllidögum og í hversdagssamhengi. Mjög oft er jafnframt vísað, beint eða
óbeint, í samnefnda sonnettu Snorra Hjartarsonar (1906–1986):
Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,
þér var ég gefinn barn á móðurkné;
ég lék hjá þér við læk og blóm og stein,
þú leiddir mig í orðs þíns háu vé.
Á dimmum vegi dýrð þín um mig skein,
í dögun þeirri er líkn og stormahlé
og sókn og vaka: eining hörð og hrein,
þú heimtar trúnað, spyr hver efnd mín sé.
Þú átt mig, ég er aðeins til í þér.
Örlagastundin nálgast grimm og köld;
hiki ég þá og bregðist bý ég mér
bann þitt og útlegð fram á hinzta kvöld.
Ísland, í lyftum heitum höndum ver
ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.
Kvæði Snorra birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar vorið 1949, í 1. hefti
á bls. 3, temahefti um Ísland og Atlantshafsbandalagið, og var kvæðið mjög
sennilega nýort.1 Þó að hvergi sé vikið að inngöngu Íslands í bandalagið fer
ekki á milli mála að kvæðið hefur að geyma sterka skírskotun í þá viðburði
og þau miklu átök sem urðu 30. mars á Austurvelli.