Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Blaðsíða 28
Á r n i S n æ va r r
28 TMM 2013 · 2
Ég hrökklaðist úr landi og hef að mestu unnið hjá alþjóðastofnunum síðan
en var þó um hálfs árs skeið á Fréttablaðinu.
Það liðu ekki nema örfáar vikur eftir að ég var rekinn að hringt var í eina
þeirra kvenna sem reknar voru um sumarið og henni boðin vinna að nýju.
Fljótlega var búið að ráða í allar þær stöðu sem losaðar höfðu verið, en kjörin
höfðu rýrnað.
Hvað bjó hér að baki?
Gat verið að eigendurnir hefðu tekið fyrirtækið í gíslingu; starfsmennirnir
væru teknir af lífi hver á fætur öðrum til að hóta lánadrottninum (Kaupþing
átti orðið skuldirnar) að ef þeir fengju ekki góðan díl myndu þeir skilja eftir
sviðna jörð og ónýtt fyrirtæki? Því lengri tími sem liði, því minna yrði eftir upp
í skuldirnar. Eða voru stjórnendurnir einfaldlega svona fullkomlega óhæfir til
að reka fyrirtæki og eiga í sómasamlegum samskiptum við starfsfólk?
Lengst af virðist einnig hafa verið haldið áfram að pumpa út fé í ráðgjafa-
greiðslur, þóknanir og ýmiss konar kostnað til eigenda; svo háar upphæðir
að laun nokkurra starfsmanna voru eins og upp í nös á ketti.
Framhaldið þekkja svo allir. Baugur eignaðist fyrirtækið og Jón og
Sigurjón voru lausir allra mála. Sú staða var komin upp að einn maður, Jón
Ásgeir Jóhannesson, hafði yfirburðastöðu í matvöruverslun og ýmsum við-
skiptum, átti dagblað, tímarit, sjónvarps- og útvarpsstöðvar, að ógleymdum
ítökum í fjármálafyrirtækjum. Við þessu reyndi Davíð Oddsson að bregðast
á fautalegan hátt með því að leggja fram frumvarp um að takmarka hringa-
myndun í eignarhaldi fjölmiðla.
Frumvarp Davíðs var efnislega svipað frumvarpi sem Ólafur Ragnar
Grímsson hafði áður lagt fram á þingi. Blaðamannafélagið sem fagnaði frum-
varpi forsetans verðandi, snerist nú af alefli til fylgis við eigendur Stöðvar 2.
Fjölmiðlar í eigu Baugs lögðust gegn frumvarpinu og náði baráttan hámarki
þegar starfsmenn fyrirtækisins gengu fylktu liði að Alþingi og lögðu banana,
vafalaust keypta í Bónus, á tröppur löggjafarsamkundunnar.
Varð Ólafur Ragnar Grímsson síðan við ósk kosningastjóra síns frá 1996
um að neita að skrifa undir lög sem meirihluti Alþingis hafði samþykkt.
Landsmenn gátu nú næstu árin lifað hamingjusamlega í náðarfaðmi Baugs-
fjölskyldunnar: eftir góðan nætursvefn í rúmi úr húsgagnaverslun hringsins
gat fjölskyldan burstað í sér tennurnar og borðað morgunmatinn allt keypt
í búðum Baugs og rennt yfir fréttirnar úr Fréttablaðinu, slegið svo lán í
Íslandsbanka til að kaupa sjónvarp og horft á þingmenn í þáttum um kosn-
ingabaráttu sem nutu styrkja Baugs á sjónvarpsstöð Baugs.
Og talað í síma á vegum auðhringsins. Fréttamenn á Stöð 2 fengu örlítinn
styrk fyrir að láta síma- og netviðskipti sín fara í gegnum Tal sem var hluti
af samsteypunni. Áður en upp úr sauð á Stöð 2 hafði ég reynt að fá útskrift
af símareikningi mínum hjá fyrirtækinu. Fékk ég þvert nei enda gæti eigandi
númersins – Stöð 2 – einn fengið slíka útskrift. Þrátt fyrir margítrekaðar
spurnir fékk ég aldrei svör um það hvort fyrirtækið hefði fengið útskrift af