Tímarit Máls og menningar - 01.06.2013, Blaðsíða 62
Þ ó r u n n E r l u o g Va l d i m a r s d ó t t i r
62 TMM 2013 · 2
götustráksleg fyrir mig. Þetta er úr heimi frekra karla og yfirgangs þeirra. Að
rúlla yfir, meiða og skíta út lifandi menn og dýr. Dætur, vini og skyldmenni
Brynhildar.
Það er skáldskaparvíddin sem ég á erfitt með, að telja sig hafa leyfi til að
skrifa handrit að sögulegri kvikmynd eða bók vísvitandi bullandi um helga
persónu – og allar persónur eru helgar. Sagnfræðilegur skáldskapur á ekki að
vera til, bara sögulegur og þá eiga persónurnar að vera skáldaðar. Basta. Jón
Arason biskup ætti þá að heita Jóhannes Arason, til dæmis, svo að hver sem
les muni allan tímann að skáldið skrifar.
En svona er frelsið. Laxness gerir virðulegan átjándu aldar mann eins og
Arnæus að hálfgerðum pedófíl, með hjálp handritafræðings. Almenningur
greinir ekki á milli. Þegar skáldað er eigum við öll að vita að verið er að bulla,
en það vill í mörgum höfðum gleymast. Mynd Íslandsklukkunnar af átjándu
öldinni er dásemd. Bókstafstrúar sagnfræðingar leiðinda fýlupúkar.
Clíó minnar kynslóðar
Ég hef þjónað ólíkum gyðjum til skiptis allt lífið, sem sagnfræðingur og
rithöfundur. Hef rafmagnsgirðingu milli héraða sagnfræðinnar og skáld-
skaparins, tek ekki í mál að blanda þessu saman. Ýmsir halda að ég hafi
misst múrinn niður í Snorra á Húsafelli en svo er þó ekki, ég bara nýtti það
sem ég lærði af annalskólanum franska um notkun heimilda til hversdags-
sögu og færði niður til einstaklingsins, skrifaði svo bókmenntalegan texta
á köflum án þess að brjóta siðareglur sagnfræðingsins. Lipur, innblásinn
og vel skrifaður texti er alveg jafn mikið sagnfræðinnar og skáldskaparins.
Verandi menntaður sagnfræðingur, alinn upp af nokkurn veginn sómakæru
fólki, gerir manni tvennt ókleift: ritstuld eða plagiarisma og það að ljúga
upp á fólk. Ég get hvorugt. Codex Ethicus Sagnfræðingafélags Íslands er
til í fimm köflum, tiltölulega nýlega til kominn og er að finna á heimasíðu
félagsins. Í Bandaríkjunum finnast margar útgáfur af slíkum siðareglum.
Kjarni íslensku siðareglanna vísar beint í Ara fróða: „Allir sagnfræðingar
eiga í starfi sínu að leggja áherslu á að hafa það sem sannara reynist …“ og
sagnfræðingurinn má ekki skemma heimildir „ekki búa til upplýsingar sem
engar heimildir eru fyrir; falsa heimildir; stela úr ritverkum, hugmyndum
eða kenningum annarra; né velja úr heimildum aðeins það sem hentar
niðurstöðum þeirra en sleppa að geta þess sem mælir á móti; og misnota
upplýsingar til stuðnings niðurstöðum sínum […] Þeir sem þurfa að leggja
mat á verk, umsóknir eða feril sagnfræðings [þarna hljóta ritdómar að teljast
með] skulu ávallt gæta fyllstu óhlutdrægni en aldrei láta persónulega velvild
eða óvild, hagsmunatengsl eða hagsmunaárekstra hafa áhrif á mat sitt. Sé
hætta á hlutdrægni skulu þeir skilyrðislaust víkja sæti.“
Og að lokum þetta sem er svo erfitt: „Höfundar ritverka bera ábyrgð á
orðum sínum.“