Tímarit Máls og menningar - 01.02.2018, Blaðsíða 23
L o ð i r h e i m u r i n n s a m a n á t á k n u m ?
TMM 2018 · 1 23
„Ég er karlmaður sem …“
Í viðtali við Einar Fal Ingólfsson í Morgunblaðinu segir Auður Ava að hún
líti á Afleggjarann sem „óð til karlmannsins“5 og í viðtali eftir að Ör kom út
slær hún á svipaða strengi: „Já, í bókunum mínum hef ég verið að reyna að
afbyggja hugmyndir okkar um karlmennsku og kvenleika.“6
Karlmennska og kvenleiki eru enda miðlæg viðfangsefni í báðum skáld-
sögunum sem hér er fjallað um. Arnljótur í Afleggjaranum er framan af
sögunni óviss um sjálfan sig og aðrir eiga líka erfitt með að átta sig á honum.
Efasemdir um kynhneigð hans koma fyrir nokkrum sinnum í sögunni, faðir
hans bregst við fréttum af því að hann eigi von á barni með því að segja: „Ég
bjóst ekkert endilega við því að verða þeirrar hamingju aðnjótandi að verða
afi, segir hann. Við mamma þín héldum að þú værir jafnvel ekkert sérstaklega
á þeim buxunum.“ (100) Að minnsta kosti tvær konur sem hann kynnist gefa
líka í skyn að hann geti verið samkynhneigður. Hefðbundin ráðandi karl-
mennska byggir meðal annars á afdráttarlausri afneitun samkynhneigðrar
þrár og hins kvenlega, en Arnljótur er óhræddur við að eiga sér „kvenleg“
áhugamál. Ástríða hans í lífinu er rósarækt og hann er ófáanlegur til að beina
henni í „hagnýtari“ og karlmannlegri farveg eins og að læra plöntuerfðafræði
þrátt fyrir hvatningu föður síns og umtalsverðar námsgáfur. Áhugi Arn-
ljóts á rósum nær allt aftur í æsku og hann hefur verið óvenjulegur drengur
sem vildi fremur eyða tíma sínum í gróðurhúsi móðurinnar en með öðrum
drengjum. Sérstaða hans háir honum þó ekki, enda vinnur hann hana upp
með því að standa sig á einu afmörkuðu sviði hefðbundinnar karlmennsku:
„það bjargaði mér að ég var líka bestur í fótbolta. Þá var maður látinn í friði.“
(238) Fótboltinn verður þannig leið Arnljóts til að jafna út sín „kvenlegu“
áhugamál og „sleppa í gegn“ sem einn af strákunum. Í upphafi sögu er hann
engu að síður langt frá því að vera með sjálfan sig á hreinu, hann er upptekinn
af þremur hlutum, dauðanum, líkamanum og rósarækt, „það getur að vísu
verið dagamunur á því hvernig sætin skipast.“ (24)
Ferð Arnljóts til klaustursins virðist meðal annars hafa þann tilgang að
greiða úr þessari flækju líkama, dauða og rósa. Í flugferðinni á leið utan er
hann harkalega minntur á líkamann. Hann veikist og byrjar dvölina í nýju
landi á sjúkrahúsi þar sem hann er skorinn upp. Örið sem sá uppskurður
skilur eftir á síðu hans er ein af tengingunum milli sagnanna tveggja sem
hér er fjallað um.
Þroski Arnljóts kemst ekki á skrið fyrr en barnsmóðir hans, Anna, kemur
með dóttur þeirra í kastalaþorpið og þau leigja þar saman íbúð um tíma, fyrst
sem vinir, seinna sem elskendur. Arnljótur vex inn í nýtt hlutverk sem faðir
og um tíma sem fjölskyldumaður. Þetta gerir hann með því að taka að sér
verk sem hljóta að teljast hefðbundin kvennastörf. Þegar Anna kemur til hans
í þorpið með Flóru Sól er það Arnljótur sem sér um eldamennsku, þvotta og