Skessuhorn


Skessuhorn - 17.06.2015, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 17.06.2015, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 17. JÚNÍ 201516 Elsa Lára Arnardóttir býr á Akranesi, er kennari að mennt en var kosin á þing 2013 fyrir Framsóknarflokkinn. Hún telur ekki að konur séu konum verstar en álítur er kemur að launum, að þær séu e.t.v. rag- ari við að meta menntun sína og reynslu en karlar, en það sé þó afar mismunandi. Þrátt fyrir að tímarnir hafi breyst og við lifum á 21. öld, heyrir hún samt þær raddir að hún sé ekki að sinna börnum og heimili sem skyldi. Rætt er við Elsu Láru um líf þingkonu nútímans. Við getum þetta saman Elsa Lára Arnardóttir hafði svo sem ekkert endilega hugsað sér að gerast Alþingismaður eða að verða virkari í pólitík en hún hafði ver- ið. En er mál fóru að þróast í þá átt var fyrirséð að eitt og annað varð að breytast heima. „Maður- inn minn hefur unnið í Noregi og á Grænlandi í nokkur ár. Því hef ég verið ein með börnin á meðan hann er í vinnutörn úti og í raun hefur heimilislífið verið skipulagt í kringum fríin hans. Því var það svo að þegar kom til álita að ég færi á þing eða tæki sæti það of- arlega á lista að slíkt gæti komið til, var fundað með afa og ömmu,“ segir Elsa Lára Arnardóttir bros- andi í upphafi spjalls. „Það eru sem sagt langafi og langamma barnanna minna sem ég er að tala um því foreldar mínir búa ekki hér á Akranesi. Ég hef gjarnan litið á afa og ömmu sem foreldra mína og á gríðarlega gefandi og gott sam- band við þau. Raunar verð ég helst að heyra í þeim daglega og amma er ein af mínum bestu vinkonum. Það er hið sanna ríkidæmi að fá að njóta samvista við bæði ömmu og afa. En allt um það. Þegar ákveð- ið var að fara í kosningabaráttu var sem sagt sest niður með ömmu og afa. „Við getum gert þetta saman,“ sögðu þau, svo þetta var meðvituð ákvörðun. Þannig að afi og amma hafa svolítið séð um heimilið á meðan ég hef verið í vinnunni og fyrir það er ég afar þakklát. Reynd- ar fékk maðurinn minn núna fyr- ir skömmu vinnu hér heima og er kominn í um það bil 8 til 5 vinnu, svo nú finnst mér ég geta allt,“ segir hún brosandi. Í fjárhagslegu basli eins og margir Þegar umræðan beinist að efna- hagsmálum segir Elsa Lára að þau hjónin hafi alveg átt í fjárhagslegu basli eins og svo margir Íslending- ar. Þau hafi nýlega verið búin að byggja sér hús þegar hrunið dundi yfir og margoft farið í gegnum þá umræðu hvort ætti að selja eða eiga. Laun eiginmannsins erlendis hafi sannarlega skipt máli og launin séu mun betri í þinginu heldur en hjá kennurum. „Ég er hins vegar hugsi yfir því að ýmsu leyti,“ segir hún al- vörugefin og heldur áfram. „Kenn- arar eru að leggja grunn að fram- tíðinni með menntun barnanna okkar. Þeir þurfa því að hafa laun við hæfi. Ég velti fyrir mér hvort við konur séum almennt ragari við að meta okkur sjálfar til launa held- ur en karlar, þó það geti verið afar mismunandi. Of oft heyrir maður konur segja þegar þær eru spurð- ar um hvar þær vinni; „ég er BARA heima.“ Þær eiga að hætta að segja „bara“ og vera stoltar af því sem þær eru að gera. Íslenskar konur eru frábærar og geta allt sem þær ætla sér. Sem dæmi er ég sjálf sem hélt að ég færi aldrei út í pólitík. Ég þorði ekki og hélt ég hefði það ekki í mér að stíga þau skref sem þurfti, til að hella mér út í þetta starf. En ég ákvað að taka áskoruninni og sé ekki eftir neinu. Við þetta hef ég lent í ýmsu en þægindahringurinn stækkar og eftir því sem áskorunum fjölgar, stækkar hann enn meira, segir hún og brosir við. Konur styðja hver aðra Elsa Lára segir að konur styðji hver aðra og það verði hún vör við í þinginu, hvar hún á afskap- lega góðar vinkonur. Þær séu dug- legar að leita til hverrar annarrar þegar höndla þarf ýmsar aðstæð- ur. „Við ræðum málin, tökum ef til vill göngutúr í kringum tjörnina til að spjalla. Það er alveg nauðsyn- legt. Ég held því að tímarnir hafi breyst þannig að konur séu ekki konum verstar. En ég hef sannar- lega heyrt utan af mér raddir sem gagnrýna mig og segja, ef hún sé ekki í vinnunni þá er hún úti að hlaupa. Velta því fyrir sér hvernig ég hafi tíma í þetta og hver sjái eig- inlega um börnin mín og heimilið. Mér brá rosalega mikið þegar ég heyrði fyrst þessar gagnrýnisradd- ir en þetta venst eins og allt ann- að. Ef að fólki líður betur að tala svona, þá er það bara gott. En það er meðvituð ákvörðun að reyna að láta slíkt ekki hafa áhrif á sig, enda veit ég betur,“ segir hún og leggur áherslu á orð sín. Kannski þarf konu í áberandi ábyrgðar- stöðu að nýju „Fæðingarorlof feðra er afar já- kvætt í okkar góða samfélagi. Í því samhengi er nauðsynlegt að hækka launaþak á fæðingarorlof, þannig að það verði í takt við meðallaun í landinu. Það hefur sýnt sig að feður taka síður fæðingarorlof nú vegna þess hversu launaþakið er lágt. Margir hafa kannski ekki efni á að lækka mikið í launum. Þessu þarf að breyta svo þeim körlum sem taka fæðingarorlof, fjölgi á ný, segir Elsa Lára ákveðin og heldur áfram. „Við þurfum að skoða hvað við getum gert til að börnin hafi raunverulega möguleika á að hafa pabba sinn heima, eins og mömm- urnar. Að það sé jafn sjálfsagt að pabbinn sé heima og mamman. Kannski þurfum við aftur konur í forystu landsins eða einhverjar afar áberandi stöður, svo að eftir sé tek- ið. Það er hins vegar af og frá að ég sé upptekin af því að kona eigi að vera einhversstaðar, bara af því að hún er kona. En því miður sjáum við, í mörgum tilvikum, að konur komast ekki nógu ofarlega á lista. Kannski er eina leiðin að vera með ákveðnar reglur um uppstillingu á framboðslista flokka, þó ég hafi farið marga hringi með það mál og sveiflist svolítið með þá skoð- un mína. En ég fæ sem dæmi mörg símtöl um að koma skilaboðum til karlanna í vinnunni. Ég held að færri hringi í þá og láti þá koma skilaboðum til mín. Enn í dag eig- um við konurnar að halda utan um kaffihlaðborð fyrir kosningar á meðan við sjáum karlana ekki sinna þeim verkum. Mér finnst sem það vanti meiri virðingu fyrir konum sem eru að sinna þessu starfi og því er skoðun mín sú nú að setja verði þessar reglur. Kannski snýst þetta eingöngu um mann sjálfan og það er alltaf mikilvægt að horfa í eig- in barm. En allavega er öllum holt að hafa það í huga, að það á ekki að viðgangast að gera mismunandi kröfur til fólks í sömu vinnu, eftir kynjum.“ Virðing fyrir fólki og skoðunum er nauðsynleg „Það er mjög mikilvægt að radd- ir beggja kynja heyrist og þótt við séum ekki alltaf sammála þá er mikilvægt að við virðum skoðan- ir hvers annars, óháð öllu. Okkur er það öllum hollt að hlusta á aðra og bera virðingu fyrir náunganum, en því miður vantar oft dálítið upp á það. Við þurfum svo mikið að hætta að rakka hvert annað niður í stað þess að segja bara hver skoðun manns er, án þess að rakka aðrar niður. Ég hef líka miklar áhyggj- ur af þróun mála í bankakerf- inu, þar sem þjónustugjöld þeirra hækka stöðugt og sá hópur sem verður mest fyrir barðinu á því, er gamla fólkið okkar. Það hef- ur nefnilega sýnt sig að það nýt- ir sér tæknina minna en þjónustu bankanna meira. Þetta er löglegt en mér finnst það siðlaust. Einn- ig finnst mér það, sem hér gerð- ist, það er efnahagshrunið, megi rekja til nokkurra siðlausra ákvarð- ana, örugglega líka ólöglegra. Það er þáttur sem mér finnst enn eiga eftir að gera upp og mikilvægt að verði gert því fyrr verður ekki sátt í okkar góða samfélagi. Þetta er mín skoðun og örugglega eru aðrir á allt annarri skoðun. Ég hef hins vegar verið dugleg að vekja athygli á þessum málum í þinginu og mun halda því áfram.“ Allir þurfa heimili „Eins og ég sagði þá hef ég talað talsvert fyrir þessum málum, af því að ég hef áhyggjur. Það er ákveð- inn hópur, bæði konur og karlar, sem tala um þetta í þinginu. Marg- ir hafa áhyggjur af fjölskyldum sem hafa brotnað við hrunið. Það hefur haft gríðarleg áhrif á börn, ef við tökum það sem dæmi. En mikilvægt er að halda í vonina og viðhalda henni. Til að gera vel við fjölskyldur þá er m.a. nauðsynlegt að koma hér upp raunverulegu vali á húsnæðismarkaði. Hérlend- is hefur ríkt mikil séreignastefna en það er svo að það geta ekki allir keypt húsnæði og sumir vilja það ekki, en allir þurfa að eiga heimili. Ég bind miklar vonir við að þeir sem vilja leigja, geti búið við ör- yggi í húsnæðismálum og það er mikilvægt að það gerist í náinni framtíð. Það er ekki hægt að horfa upp á fjölskyldur flytjast stöðugt til vegna þessa ástands sem nú ríkir á leigumarkaði. Þess vegna er afar ánægjulegt að sjá þær aðgerðir sem ríkisstjórnin leggur til í kjarasamn- ingum, en það er að byggja 2.300 íbúðir fyrir tekjulágar fjölskyldur á næstu fjórum árum. Einnig er ver- ið að stórauka fjármuni í húsnæð- isbætur sem mun koma sér ein- staklega vel fyrir heimili með lág- ar tekjur og meðal tekjur. Annað sem verður að gera er að afnema verðtrygginguna, það er nauð- synlegt til að sagan endurtaki sig ekki. Verðbólga má ekki hafa þau áhrif að það komi niður á lánum heimilanna. Það hefur sýnt sig að verðtryggð lánasöfn bankanna eru gríðarlega há og þegar verðbólgan hækkar, þá verða lánasöfn bank- anna verðmeiri og eignatilfærsla verður frá heimilum landsins til fjármálastofnanna. Það verður að stöðva. Einnig þarf að hjálpa þeim einstaklingum sem eru með verð- tryggð lán, að skuldbreyta yfir í óverðtryggð lán með litlum til- kostnaði. Þá er mikilvægt að koma með mótvægisaðgerðir fyrstu ár lánstímans, því afborganir af óverðtryggðum lánum eru hærri en af verðtryggðum. Ég finn mig vel í þessu hlutverki inni á þingi þó það geti líka tekið á. Ég vil vera röddin sem talar fyrir þessum mál- um. Ég er ekki alltaf sú þægasta í hópnum enda er það ekki hlutverk okkar þingmanna, heldur að fylgja sannfæringu okkar. Ég hefur verið órög við að benda á það sem mér finnst ekki í lagi. Þetta er sú rödd sem ég vil standa fyrir.“ Hlaupin bjarga geðheilsunni Elsa Lára er mikill hlaupari. Árið 2008 byrjaði hún að hlaupa. Það gerði hún einkum til að bjarga geð- heilsunni, að eigin sögn. Til að byrja með hljóp hún milli tveggja ljósastaura en labbaði síðan milli næstu, þrekið var ekki meira. Í dag hleypur hún Ultra maraþon svo þetta er greinilega hægt. „Það er gríðarlega gott að fara út að hlaupa ekki síst á morgnanna fyrir vinnu. Þá set ég fókusinn fyrir daginn. Á hlaupunum verða margar ræður til og hugmyndir fæðast en oft er þetta mín leið til að komast út í náttúr- una, fá ró og aftengja sig frá amstr- inu. Á sumrin förum við mæðgurn- ar, ég og 12 ára dóttir, mín í sjó- sund. Þegar vöðvarnir eru algjör- lega búnir á því, þurfa þeir kælingu og þá er þetta dásamleg aðferð. Fyrir nú utan það að sjósundið gef- ur okkur mæðgum dýrmætar sam- verustundir,“ segir Elsa Lára Arn- ardóttir að endingu. bgk Gríðarlega mikilvægt að raddir beggja kynja heyrist Rætt við Elsu Láru Arnardóttur alþingismann í Norðvesturkjördæmi Elsa Lára Arnardóttir þingmaður í Norðvesturkjördæmi. Elsa Lára í hlaupagallanum í miðri á, á Snæfellsnesi þegar hún skokkaði Flatnaveg frá Rauðmelsölkeldu að Skógarströnd.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.