Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 26
26 Litli-Bergþór
• Í staðinn fyrir að Fréttablaðið og tonn af ruslpósti
ryðjist inn um lúguna á gólf til þín á hverjum
degi, til þess eins að þú þurfir að henda því út í
tunnu eftir eina flettingu, færðu Bændablaðið í
póstkassann hálfsmánaðarlega og getur dundað
þér við að lesa áhugaverðar greinar þangað til
næsta tölublað kemur út.
• Hafi maður áhuga á leiklist eins og ég, er lítið mál
að komast í leikfélag, ófaglærðum áhugamönnum
er tekið fagnandi!
• Sveitasamfélagið er sterkt og náið. Beri
dauðsfall að, syrgir öll sveitin með, fæðist nýtt
barn samgleðst hún. Hér hjálpast fólk að og þekkir
nágranna sína og heilsar þeim. Þessu er ekki fyrir
að fara í borg óttans.
• Maður verslar mun sjaldnar og getur lifað
án veskis svo dögum skipti, sem væri nánast
ómögulegt í Reykjavík. Freistingarnar eru færri
hér, og þar af leiðandi eyðir maður litlu í þær;
maður fellur sjaldnar í freistni.
• Veðrið í Tungunum er betra en í Reykjavík.
Engin hafgola, heitara á sumrin, kaldara en
stilltara veður á veturna. Og LOGNIÐ maður!
• Húsnæðisverð er miklu lægra (bæði til kaups og
leigu). Hér er samt hörgull á leiguhúsnæði og við
erum búin að búa á fjórum stöðum í sveitinni á
þremur árum. Ástandið er samt töluvert skárra hér
en í höfuðborginni.
Unnur Malín Sigurðardóttir:
Ég er fædd og uppalin Reykjavík, en hafði lengi látið mig dreyma um að flytja í sveit. Úr því
varð haustið 2014, en þá fluttumst við Arnar með son okkar Unnstein Magna í „Þorpið í
skóginum”, Laugarás í Biskupstungum. Tel ég það eina mestu gæfu-flutninga sem við höfum
átt. Við eignuðumst fljótt góða vini í sveitinni og komumst á undraskömmum tíma inn í
samfélagið. Ég tók saman nokkra punkta um þær breytingar sem fylgdu flutningunum.
• Maður hittir vini sína úr borginni kannski
sjaldnar, en þegar maður hittir þá dvelja þeir hjá
manni lengur, og eru ekki að flýta sér í næsta
erindi. Samböndin verða við það innilegri og
nánari.
• Börnin geta unað frjáls við leik úti, engar
áhyggjur af umferðinni, rónum eða dónum.
• Listviðburðir eru vissulega ekki eins margir og
fjölbreyttir og í Reykjavík. Hér er þó gott framboð
af tónleikum, en ég sakna þess stundum að sjá
ekki meiri myndlist og götulist.
Það má lesa úr þessum punktum að ég er í
heildina ánægð með lífið í sveitinni. Ég er þannig
manneskja að ég útiloka aldrei neitt, en ég held að
ég sé ekki að fara að flytja til Reykjavíkur í bráð.
Flutt í sveit úr borg