Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 36
36 Litli-Bergþór
Afi minn og amma í móðurætt voru Skúli
Benjamínsson járnsmiður á Blönduósi og Guðrún
Benónýsdóttir frá Skagaströnd, en þau bjuggu
ekki lengi saman. Fyrir átti amma Guðrúnu Sigríði
Sigurðardóttur, sem flutti til Vesturheims 1913,
en afi átti áður Björn Skúlason, sem var faðir
Hafsteins Björnssonar miðils. Albróðir mömmu
og ári eldri var Einar Eymann Skúlason. Hann ólst
upp á Gilá í Vatnsdal og bjó þar framan af ævi, en
varð síðar þingvörður í Reykjavík. Guðrún amma
mín flutti með Bryndísi móður mína unga suður
til Reykjavíkur árið 1904 og bjó þar síðan. Hún
lést 1959 og náði ég því að kynnast henni vel.
Faðir minn, Róbert, var elstur átta barna
Þorbjörns Guðmundssonar netagerðarmeistara í
Naustinu og Guðríðar Guðrúnar Jónsdóttur, sem
bjuggu á Framnesvegi 18 í Reykjavík. Þorbjörn og
Guðríður voru bæði úr Hraunhrepp á Mýrunum,
giftu sig að Skiphyl í Hraunhrepp 1902 og fluttu
síðan til Reykjavíkur. Sagt er að faðir minn hafi
verið látinn heita í höfuðið á breskum vini afa
míns, Róbert að
nafni, sem hann
hafði kynnst til
sjós á skútuárum
sínum. Það hlýtur
að hafa verið
mjög góður vinur.
Róbert var ekki
algengt nafn þá
og þegar móðir
mín bar undir
föður minn hvað
ég ætti að heita,
sagði hann „bara
ekki Róbert“. Og
auðvitað var ég
þá skírður Róbert!
Yngsta föðursystir
mín, Guðrún, var á
aldur við mig og góður kunningsskapur okkar á
milli.
Faðir minn var mikill templari alla ævi, gekk 8
ára í barnastúkuna Æskuna nr. 1 og síðar í stúkuna
Verðandi. Hann giftist Sigríði A.H. Sigurðardóttur
og áttu þau saman soninn Sigþór árið 1927, en
hann dó ungur, rúmlega tvítugur.
Ég var hins vegar átta mánaða gamall tekinn í
fóstur af Sigríði G. Guðmundsdóttur ljósmóður
frá Efra-Apavatni og Brynj-ólfi Þórðarsyni frá
Sumarliðabæ í Holtum, en þau bjuggu í Gölt í
Grímsnesi* og ólst ég upp hjá þeim þar. Hvernig
það kom til að ég fór þangað spurði ég ekki um
meðan ég gat. En ég kann söguna af því hvernig
þau Sigríður og Brynjólfur kynntust. Brynjólfur
hafði verið til sjós með Helga, bróður Sigríðar,
sem var þá vinnukona á Klausturhólum. Þeir
komu eitt sinn að Klausturhólum og Brynjólfur
bað um mjólk handa hestunum. Sigríður bar þeim
mjólkina, og þá leist Brynjólfi svo vel á stúlkuna,
að hann bað hennar á staðnum. Þau bjuggu síðan
saman í 50 ár! Hestarnir hafa eflaust verið þreyttir
eftir langa reið og mjólkin verið fóðurbætir þess
tíma.
Þau voru leiguliðar í Gölt til 1937, en þá keyptu
þau jörðina á 6 milljónir minnir mig. Ég man enn
umræðuna og óvissuna um það hvort þau yrðu
áfram í Gölt eða þyrftu að flytja.
Í Gölt ólst ég upp með börnum þeirra Sigríðar
og Brynjólfs, en þau voru öll nokkru eldri en
ég. Guðmundur Ragnar fæddur 1912, Kristinn
fæddur 1913, Borghildur fædd 1914 og Elínborg
fædd 1919.
Róbert Þorbjörnsson, faðir Róberts,
ásamt Sigþóri hálfbróður hans (f. 1927).
Fósturforeldrar Róberts, þau Brynjólfur Þórðarson bóndi í Gölt og
Sigríður G. Guðmundsdóttir ljósmóðir.
Gamla húsið í Gölt þar sem Róbert ólst upp, timburhús á steyptum
kjallara, byggt 1927. Myndin er tekin um 1945. Hlaðnir torfveggir voru
á þrjá vegu umhverfis húsið, og þeir sjást við báða gafla hússins, en
austan við er skemma. Kominn er vísir að trjágarði og það eru blóm í
gluggum.