Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 38

Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 38
38 Litli-Bergþór Það var skóli í gamla þinghúsinu á Borg (nú kaffihúsið Gamla-Borg), en um það leyti sem ég átti að byrja í skóla, veiktust skólastjórahjónin bæði af taugaveiki og dóu, svo húsinu var lokað vegna smithættu. Ég gekk því í farskóla, til skiptis á Brjánsstöðum, í Eyvík og Öndverðarnesi. Við vorum þrír saman, sem gengum frá Gölt í skólann í Eyvík, hátt í klukkutíma gang hvora leið, oft í myrkri. En við þekktum orðið þúfurnar. Man að við máttum ekki fara yfir Galtarvíkina á ís, nema við fengjum sérstakt leyfi til þess. Nú mega foreldrar ekki til þess vita að börn gangi nokkur hundruð metra í veg fyrir skólabílinn! Þegar kennt var á Brjánsstöðum og í Öndverðarnesi gistum við. Valdimar Pálsson var eini kennari minn á þessum bæjum, en hann ólst upp á Spóastöðum. Varð síðar gjaldkeri hjá KÁ. Skólagöngunni lauk ég svo í skólanum á Borg, tók fullnaðarprófið í salnum þar 1939. Fyrsta launaða vinna mín á ævinni var að skera tóbak heima í Gölt fyrir verslunina á Borg, en tóbakið kom í stórum rúllum og fékk ég 2 krónur fyrir hverja rúllu. En fyrsta vegavinnan mín var starf kúsks við lagningu Kiðjabergsvegar 1937, þá 12 ára. Var með tvo hesta og tvo hestvagna og teymdi þá allan daginn. Man það brotnaði vagnhjól undan öðrum hestvagninum og mig minnir að nýtt vagnhjól hafi komið með Óla Ket að sunnan og verið sett af við verslunina á Borg. Þetta var með því síðasta sem notaðir voru hestvagnar við vegagerð, síðan tóku við ýtur og vörubílar. Ég fermdist í Stóru-Borgarkirkju árið 1939 og árið eftir réð ég mig sem vinnumann að Björk í Grímsnesi í einn vetur, þá 15 ára gamall. Það var skemmtilegur vetur og systkinin voru góð við mig. Ég sá um að smala fénu og fékk 80 kónur fyrir veturinn auk nærfata og sokka. Ég var líka útsölumaður fyrir barnablaðið Æskuna á árunum 1940-1941 og fékk kr 3,50 í útsölulaun fyrir árið 1940, sé ég í dagbók frá þeim tíma. Þarna hefjast líklega gjaldkerastörf mín! Veturinn eftir réði ég mig til Gríms á Syðri- Reykjum, þá 17 ára. Fór ríðandi frá Gölt upp að Sólheimum, sem þá hét Hverakot, en Grímur var þá staddur þar við pípulagnir. Ég hafði frétt hjá Olgeiri á Borg að það gæti verið að Grím vantaði mann. Man hvað mér fannst það undarlegt, að Grímur fór inn í hænsnakofann til að ræða við mig! Vildi víst ekki að neinn heyrði. En hann réði mig í sex vikur og ég átti að fá heilar 600 krónur fyrir! Átti að vinna við að grafa fyrir fyrsta gróðurhúsinu á Syðri-Reykjum og mála timbur í gróðurhúsið. Og nokkrum dögum seinna, þann 14. nóvember 1942, fór ég heim að Syðri- Reykjum með Grími. Fengum far með Volvonum frá versluninni á Borg, yfir gömlu Brúarárbrúna hjá Spóastöðum og austur að Grímsby, sem var bárujárnsskúr Gríms við Reykja-vegamótin. Þaðan gengum við 6 km heim að Syðri-Reykjum í ofsaroki og myrkri. Mættum á leiðinni þakinu af haughúsinu á Syðri-Reykjum, sem hafði fokið. Þá var kominn ofaníborinn vegur að Hryggholtunum, en moldarslóði þaðan og heim. Daginn eftir var stillilogn og skafheiðríkja. Við Ingvar á Efri-Reykjum unnum síðan við að grafa fyrir gróðurhúsi Gríms. Ég fór heim um jól, en réði mig aftur til Gríms eftir áramót. Fljótlega lánaði Grímur mig þó að Bíldsfelli í Grafningi, en Ingibjörg, kona Gríms, var þaðan. Var ég þar fram á vor, sá m.a. um póstflutninga upp að Villingavatni einu sinni í viku, en pósturinn var sóttur að Alviðru. Aðrir póstar tóku svo við frá Villingavatni. Um vorið 1943 fór ég aftur að Syðri-Reykjum til Gríms og má segja að ég hafi ekki farið af torfunni næstu 60 árin og vel það. Grímur Ögmundsson hafði flutt heim að Syðri- Reykjum 1936 frá Laugarvatni, þar sem hann vann við pípulagnir. En á Syðri-Reykjum höfðu foreldrar hans búið síðan 1906. Ögmundur Guðmundsson faðir hans var bróðir Ingimars, Horft til vesturs frá íbúðarhúsi Gríms og Ingibjargar á Syðri-Reykjum um 1947. Fremst er nýi Willis jeppinn X-260, t.v. er eldri hluti vélarhússins, bragginn og pökkunarskúr/uppeldisgróðurhús, sem síðar var rifið. Hægra megin má sjá kálgarð og elsta gróðurhúsið (nær) sem reist var 1942. Róbert nálægt tvítugu

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.