Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 37

Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 37
Litli-Bergþór 37 Í Gölt voru stundum önnur börn, sem Sigríður tók að sér í sambandi við ljósmóðurstörf sín, og árið 1928 kom þar kona frá Hnífsdal með tvo syni sína með sér, Þorlák Jónsson, sem var fæddur 1923 og Tungnamenn kannast við sem Láka, sem lengi var í Bræðratungu, og Ásmund, sem var jafn gamall mér. Skömmu eftir að hún kom, eignaðist hún þriðja soninn, Kristin Finnbjörn, en svo dó hún skömmu síðar sama ár. Faðir þeirra fórst líka fyrir vestan um vorið. Láki fór þá í fóstur að Kiðjabergi, sex ára gamall og var þar fram að sextugu, ef frá eru talin nokkur ár, sem hann var í Reykjavík. En yngri bræður hans ólust upp í Gölt á sama tíma og ég var þar. Seinna ólust þar einnig upp börn Elínborgar, þau Stefán, Brynjólfur, Pálmi og Sigríður Kragh. Pálma þekkja Tungnamenn líka, en hann er nú húsvörður í Aratungu. Þetta var því stórt heimili og ekki ríkt, en það var mikil silungsveiði í Hestvatni, sem var góð búbót. Það var gott að alast upp í Gölt og Sigríður fóstra mín passaði vel upp á að ég héldi tengslum við skyldfólk mitt í Reykjavík. Ein fyrsta æsku minn- ing mín er þegar hlustað var á fyrstu íslensku útvarps send ing una í Gölt þann 20. desember 1930. Sennilega hafa það verið strákarnir, Guðmundur og Kristinn, sem stóðu fyrir því að útvarpið var keypt, þeir voru þá 17 og 18 ára. En Sigríður fékk ljósmóðurlaun sín einu sinni á ári og því hafa verið til peningar til að kaupa það. Það þurfti að smíða hillur undir útvarpið og fylgihluti þess. Á öðrum veggnum var löng hilla fyrir lampa, sýrugeyma og þurrabatterí, og á hinum veggnum hilla fyrir einn stóran hátalara. Batteríin voru hlaðin í Vaðnesi, en þar var vatnsrafstöð. Páll Diðriksson á Búrfelli setti upp háan staur út á Fjóshólnum fyrir loftnetið, og sagði við mig: Ef þú kemur við snúruna, þá deyrð þú! En snúran var lögð frá hólnum inn um glugga á stofunni. Ég tók alltaf á mig sveig útaf snúrunni eftir það! Á gamlársdag kom svo Kiðjabergsfólkið heim í Gölt til að hlusta á útvarpið. Ég tel útvarpið hafa verið eina stærstu tæknibyltingu síðustu aldar. Ég þjálfaði mig með því að labba tóma mýri, um 5 km, upp að Borg. Fór tíu ára með smérið, einu sinni til tvisvar í viku, uppeftir í veg fyrir flutning. Kaupfélag Grímsnesinga hafði opnað verslun heima á Minni-Borg árið 1919 og var Stefán Diðriksson, kennari við skólann á Minni-Borg, verslunarstjóri þar. Kaupfélagið varð gjaldþrota 1931, þegar ég var sex ára, og ég minnist þess að Sigríður fóstra mín náði að kaupa sér fallega peysu á útsölunni. Garðar Gíslason keypti eftir það reksturinn og byggði núverandi verslunarhús 1937 og síðar sláturhús, sem ég átti eftir að keyra steypumöl í um 1960. Olgeir hét verslunarstjórinn þar. Bændur versluðu ýmist í Kaupfélaginu (KÁ) eða á Borg, eftir því hvar þeir stóðu í pólitík. Ég hafði gaman af því þegar Þorsteinn á Vatnsleysu sagði frá því á hreppsnefndarfundi, að einhverntíma hefði Ágústa uppgötvað þetta fína „Export“ í versluninni á Borg, þegar þau voru að bíða þar meðan rútan var affermd. Og það hefði verið betra en í Kaupfélaginu! Róbert 12-13 ára gamall. Róbert 21 árs á kagganum, hertrukk sem Grímur á Syðri-Reykjum átti. Hér að keyra fólk í Grafningi á kjörstað árið 1946. Róbert ók fyrst sjálfstæðisfólkinu á Bíldsfelli á kjörstað á Úlfljótsvatni og fór svo upp að Villingavatni og Ölfusvatni að aka fleiri sjálfstæðismönnum á kjörstað. Sjálfstæðisflokkurinn sendi þó nokkra bíla austur fyrir fjall og alveg upp í Tungur til að aka á kjörstað. Það voru oft fyrrum sveitungar sem tóku það að sér, því bílaeign var ekki orðin almenn á þessum árum.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.