Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 34

Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 34
34 Litli-Bergþór Það er hverjum manni hollt að kynnast fjölbreyttum listum. Hlusta á ýmiss konar tónlist frá ólíkum heimshornum og tímum. Fara í leikhús, og á dansa og balletta. Svo er það öll myndlistin sem til er! Já alla vega list! Hún auðgar andann, lífgar tilveruna og vekur mann til umhugsunar um svo margt. Það er ekki það sama að sjá mynd af Fjallamjólk Kjarvals af tölvuskjá og að bera dýrðina augum. Ekki er það heldur það sama að heyra eitthvert lag spilað af upptöku eins og að mæta á tónleika og vita að verið er að framkvæma tónana á staðnum jafnóðum. Það er mikilvægt að fá tækifæri til að upplifa list beint, án milliliða! Þess vegna flykkist fólk á tónleika, þess vegna fer fólk á listsýningar, þess vegna mætir fólk í leikhús. Hér í sveit fáum við ágætan skammt af lifandi tónlist, enda eru hér nokkrir staðir sem henta vel til tónleikahalds. Leiksýningar eru settar upp annað hvert ár af Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu og er það vel. Ég myndi samt vilja sjá enn fleiri leikrit í Aratungu, en það er mikil vinna að setja upp leiksýningu - jafnvel þó hún sé mannfá og einföld. Þá kem ég að því sem er í raun umhugsunarefni þessa pistils og það er, að hér í sveit finnst mér allt of lítið framboð af myndlist. Þá spyr maður sig; hvers vegna eru svona fáar sýningar opnaðar hér í sveit árlega? Ég tel skýringuna vera einfalda. Það vantar listsýningarrými sem hannað er sérstaklega til þess. Sal með góðri lýsingu sem stilla má eftir þörfum, sal þar sem hægt er að brjóta upp rýmið með lausum veggjum og þess háttar. Þó það geti alveg hentað í sumum tilfellum að sýna á stöðum eins og Mika, gengur það ekki alltaf. Hvernig förum við þá að því að auka vægi myndlistar og fjölga myndlistarsýningum í Biskupstungum? Með því að fá listsýningasal! Það þarf ekki að kosta of miklu til. Þegar búið er að ausa peningum í íþróttamannvirkin, er ekki við öðru að búast en að menningarvitarnir reyni að jafna vægi íþrótta og lista. Að hafa hraustan líkama er mikilvægt, en það skiptir jafn miklu máli að auðga andann. Það gefur auga leið að ef sveitin státaði af listsýningarsal, fengjum við íbúarnir að sækja miklu fleiri listsýningar í heimabyggð. Til að fá meiri menningu til okkar, þurfum við að skapa réttu aðstæðurnar. Ímyndum okkur að reist yrði listhús í Reykholti sem samanstæði af einum eða tveimur fallegum sýningarsölum og nokkrum mismunandi vinnustofum sem ýmist væru leigðar listamönnum eða handverksmönnum til lengri eða skemmri tíma. Þar gætu listamenn unnið að list sinni, og opnað vinnustofur fyrir almenningi og haldið námskeið. Þangað kæmu listamenn víðs vegar af landinu og úr hinum stóra heimi, ynnu að list sinni og settu upp sýningar í sölunum. Skóla- og leikskólabörnin okkar fengju að sýna einu sinni, eða tvisvar, jafnvel oftar, á ári. Með slíku húsi myndum við öll fá fleiri tækifæri á að sjá meiri list og það sem mér finnst mikilvægast í þessu; börnin fengju að alast upp við meiri list hér í sveit, sem myndi auka víðsýni þeirra, listskilning og gefa þeim umhugsunarefni. Ég el þá von í brjósti mér, að í náinni framtíð verði gerð bót á þessu og íbúar í Biskupstungunum gömlu fái að njóta meiri lista. Unnur Malín Sigurðardóttir: Ég hef lyst á meiri list

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.