Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 30

Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 30
30 Litli-Bergþór Biðlisti í leikskólann. Á fundi byggðaráðs í lok september kom fram, að farinn er að myndast biðlisti barna sem óskað er eftir að fái inni í skólanum. Kannað hafði verið hvort mögulegt væri að börn á biðlistanum fengju inni á Flúðum og undirtektir sagðar hafa verið jákvæðar. Sveitarstjóra var falið að semja við Hrunamannahrepp vegna þessa. Miðhúsafréttir. Jóhannes í Múlakaffi festi í haust kaup á íbúðarhúsinu Miðhúsum 3 og er hann að gera það upp til nota í ferðaþjónustu sinni, sem hann stundar m.a. í Úthlíð. Búfjárgöng voru sett undir þjóðveginn við Miðhús og Fellskot í september. Eru þau 2,60- 2,80 m í þvermál og því vel mann- og hestgeng. Á sama tíma voru sett kúagöng undir veginn hjá Miðdalskoti. Lyfjafræðingur í Laugarási. Geirþrúður Sighvatsdóttir, lyfjafræðingur, sneri til baka til starfa í lyfsölunni í Laugarási þann 1. september, eftir árs leyfi. Nú býðst viðskiptavinum lyfsölunnar ekki aðeins að kaupa lyf, heldur einnig að taka þátt í heimspekilegum vangaveltum um lífið almennt, jafnvel tilgang þess, enda lagði Geirþrúður stund á heimspeki í ársleyfi sínu. Nýr vígslubiskup. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, átti að láta af störfum í lok október. Fram fór kosning um eftirmann, en þar sem enginn þeirra sem í kjöri voru hlaut meira en helming atkvæða, þarf að kjósa milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð, þeirra Eiríks Jóhannssonar og Kristjáns Björnssonar. Kristján Valur mun gegna embættinu eitthvað áfram, eða þar til nýr vígslubiskup tekur við keflinu. Orgeltónleikar í Skálholtskirkju. Jón Bjarnason, organisti í Skálholti, var með orgeltónleika í hádeginu þrisvar í viku í nóvember, til styrktar gluggasjóði Skálholtskirkju og til að bjóða gestum upp á lifandi tónlist. Bókasafn í Slakka, samkeppni um nafn. Í byrjun nóvember var opnaður lítill bókakofi fyrir utan hliðið í Slakka. Hann er alltaf opinn og er fyrir allan aldur. Hugmyndin að bókakofanum er til komin vegna þess að eigendum Slakka fannst yndislegt að það væri aftur komið barnalíf í Laugarás, en nú eru 17 börn í leik- og grunnskóla með lögheimili í Laugarási. Fyrir þrem árum var það aðeins eitt. Slakkafólk vildi búa til einhverja afþreyingu til að gleðja og auka ánægju íbúanna og telja tilvalið að fara með börnin í kvöldgöngu, velja sér bók og lesa í kofanum eða taka með heim. Síðan er alveg frábært fyrir eldri göngugarpana að koma við í upphituðum kofanum og glugga í bók eða íhuga um stund. Þetta nýja bókasafn eða bókakofi hefur ekki fengið nafn og því hefur verið blásið til samkeppni um nafn á kofann/safnið.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.