Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 28

Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 28
28 Litli-Bergþór Hugsjónir Páll M. Skúlason: Ég átti æsku þegar heimurinn var heldur einfaldari en nú er. Allar línur voru miklu skýrari og það var auðveldara að búa sér lífssýn og standa við hana. Þannig var það hjá foreldrum mínum og mig minnir að svo hafi einnig verið hjá öðrum foreldrum í Laugarási þess tíma og reyndar líklegast hjá flestum foreldrum. Á þessu svæði taldist það til óvenjulegra undantekninga ef fólk studdi ekki annað hvort Framsóknarflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn. Aðrir flokkar komu eiginlega ekki til tals. Ég man þó eftir því að talað var um, þegar ný fjölskylda flutti í hverfið á sjöunda áratugnum að þar væri á ferð fólk sem studdi Alþýðuflokkinn, en það þótti ekki par fínt. Ég tilheyrði framsóknarfjölskyldu og Tíminn kom með mjólkurbílnum tvisvar eða þrisvar í viku, lesinn upp til agna og það fór ekki á milli mála að Eysteinn var aðal karlinn. Ég minnist þess að hafa borið afar hlýjan hug til Eysteins og var að sama skapi í nöp við Ingólf á Hellu. Ef þú varst framsóknarmaður þá hagaðir þú lífi þínu í samræmi við það. Þarna var nefnilega ekki bara um að ræða einhverja hugmyndafræði, heldur beinlínis lífsstíl. Því var það, að þegar fjölskyldan fór í kaupstað á Landróvernum þá var það til þess að fara í Kaupfélag Árnesinga og enga aðra verslun. Ég var orðinn talsvert stálpaður þegar ég kom fyrst inn í Kaupfélagið Höfn á Selfossi, sem litið var á sem nokkurskonar birtingarmynd „íhaldsins”, mjög hikandi og fullur af fordómum gagnvart þeirri verslun. Ég var jafnvel fordómafullur gagnvart fólkinu sem starfaði þar innanbúðar. Mér fannst eins og það væri fylgst með mér fara þar inn og því sem ég gerði þar innan dyra. Það þurfti eldsneyti á Landróverinn og það var keypt hjá Esso og engum öðrum. Skeljungur kom aldrei til greina og ég held að frekar hefði heimilisbifreiðin verið keyrð bensínlaus en að rennt hefði verið inn á slíka bensínstöð. Með svo skýrri skiptingu milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, ekki aðeins hugmynda- fræði lega heldur einnig í því sem snéri að inn- kaupum til heim- il isins mátti gjarnan sjá um langan veg hverjir fylgdu hvaða flokki. Þannig mátti gjarnan sjá á barnaballi kvenfélagsins í hvorri versluninni jólafötin á börnin höfðu verið keypt. Það vildi svo til að pabbi og Hjalti í Laugargerði deildu ekki pólitískum skoðunum og svo heppilega vill til að milli Laugargerðis og Hveratúns var (og er) framræsluskurður. Þeir nágrannarnir og félagarnir áttu oft kröftug samtöl yfir þennan skurð um pólitík; ekki bara flokkspólitík heldur ekki síður sölufélagspólitík (Sölufélag garðyrkjumanna), sem var ávallt heitt umræðuefni. Þrátt fyrir djúpstæðan ágreining um stjórnmál af ýmsu tagi, fékk slíkt ekki að hafa áhrif á samstöðu frumbýlinganna í Laugarási. Í málefnum Laugaráss var fólkið samstíga, eftir því sem ég best veit. Samskipti voru mikil og ágæt milli þessara fjölskyldna, þó stundum kastaðist í kekki þegar hugsjónir eða lífssýn þurfti að verja eða halda á lofti.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.