Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 41

Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 41
Litli-Bergþór 41 Svo lenti ég líka í heyflutningum haustið 1955 eftir rigningarsumarið mikla hér sunnanlands, þá á Volvobílnum nýjum. Sótti hey í Fnjóskadalinn fyrir Bjössa í Skálholti. Við vorum tveir í samfloti, ég og Bjössi (Sigurbjörn Ingimundarson) á Reykjavöllum. Það má segja frá því núna að fyrir jólin 1952 var ég beðinn um að fara með mjólk til Reykjavíkur. Fór þrjár ferðir á meðan á allsherjarverkfalli verkamanna stóð, en Tómas í Helludal var með mér í öllum ferðunum. Ég var þá enn með fjárgrindurnar á bílnum eftir fjárflutningana að norðan, við strengdum segl yfir grindurnar og höfðum brúsana þar undir svo þeir sáust ekki. Fórum með mjólk frá ýmsum bæjum í Biskupstungum til skyldmenna þess fólks í Reykjavík. Man t.d. eftir því að hafa farið með mjólk heim til foreldra Jóhönnu Sigurðardóttur, fv. forsætisráðherra, frá ættingjum hennar á Galtalæk. Móðir hennar var þá í verkalýðsbaráttunni, en lét þetta óátalið, því alla vantaði mjólk fyrir jólin. Lögreglan vissi líka af okkur, því ég gisti hjá Guðmundi Brynjólfssyni uppeldisbróður mínum í síðustu ferðinni, en hann starfaði í lögreglunni. Tómas hafði með sér samanbundinn vönd úr trjágreinum, eins konar heimatilbúinn sóp, sem notaður var til að sópa heyi í hlöðum, ef til átaka kæmi við verkfallsverði og við keyrðum hratt til baka um Mosfellsheiðina! En veðurfar var mjög gott þá, alauð jörð og dimmt. Á vorin var mest að gera við áburðarflutningana í apríl, jafnvel í mars, áður en vegir þiðnuðu og fóru í hvörf, og svo aftur í júní þegar vegir þornuðu. Í maí voru mjög oft þungatakmarkanir. Kaflinn frá Mosfelli og út undir Svínavatn var oft nánast eitt samfellt hvarf. Ég fór oft tvær ferðir á dag í Gufunes, en þegar þungatakmarkanir voru var ég stundum aðeins með hálft hlass í ferð til að koma áburðinum út í tíma. Ég var heppinn með að ég fann aldrei til í bakinu, því í áburðarflutningunum dró ég hvern einasta poka af bílnum, allt að 24 tonnum á dag. En bændur tóku við og báru á sjálfum sér þangað sem pokunum var staflað. Ég keyrði mikið efni í Aratungu þegar hún var byggð og einnig keyrði ég mestallt efni í Skálholtskirkju, allar steinskífur á gólfið og á þakið. Skífurnar voru gefnar frá Noregi og sóttar til Reykjavíkur. Keyrði líka marga bíla af rörum, sem áttu að fara í hitaveitu að kirkjunni, en það komst ekki í verk að setja þau niður, svo ég þurfti að keyra þau öll til baka til Reykjavíkur fyrir vígsluna 1963. Það efni sem ekki var búið að nota mátti ekki vera á jörðinni þegar ríkið gaf kirkjunni Skálholtsjörðina. Ég keyrði líka 15 bíla af rauðamöl í Skálholtshlaðið úr Seyðishólum, allt á síðustu stundu fyrir vígsluna. Biskupshúsið var með fyrstu verkefnum sem ég fékk eftir að ég keypti Volvoinn 1955. Ég hafði keypt bílinn á 125 þúsund, en ók fyrir 250 þúsund árið 1956 vegna Skálholts. Húsið var steypt upp á tveimur nóttum seint í mars! Við vorum bara tveir, sem höfðum þrek til að keyra steypuhjólbörur svo langt upp, ég og Einar í Auðsholti. Efst þurfti að húkka í þær með járnkrók til að ná þeim upp síðasta spölinn. Enginn krani eða talía til að hífa steypuna upp. Þegar sláturhúsið var byggt á Borg 1960, keyrði ég steypumölina frá Syðri-Reykjum. En húsið varð stærra eða ekki rétt áætlað steypumagnið, allavega þurfti meiri möl en ráð var fyrir gert. Ég keyrði því um nóttina, mokaði sjálfur á mig með krana og hafði Húnboga með mér til að lýsa mér með vasaljósi! Húnbogi var Hafliðason og var frá Hjálmsstöðum í Laugardal. Hann var lengi vinnumaður á Syðri-Reykjum. Árið 1960 var ég aðallega í grænmetisflutningum, flutti þá grænmeti fyrir alla garðyrkjubændur í Tungunum. Ég er ekki frá því að þeir hafi launað mér það með því að kjósa mig í hreppsnefndina 1962! Vegavinnan var þó lengst af aðal atvinna mín á sumrin, vann fyrir Vegagerðina og einstaklinga og svo báðu oddvitarnir mig líka um vinnu við sveitarvegina. Tómas í Helludal var verkstjóri fyrir þá vegagerð. Á veturna var minna að gera. Ég gekk í Vöru bíl stjórafélagið Mjölni 1951, en félagið var stofnað 1942 af Stokkseyringum og Eyrbekkingum vegna Bretavinnunnar í Kaldaðarnesi. Ég ók eigin vörubíl samfellt í 50 ár, eða þar til ég hætti því 1998. Fimmti og síðasti Volvo-inn keyptur 1981.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.