Litli Bergþór - des. 2017, Blaðsíða 29
Litli-Bergþór 29
Veðurannáll. Veðrið í sumar var gott og öfgalaust,
hvorki heitt né kalt, vott né þurrt. Oft skúraveður
og hiti á bilinu 7-17°C, en bjartir og fallegir dagar
inn á milli. Góður þurrkur í lok júlí og eins komu
fallegir dagar í ágúst. Haustið var einnig milt og
gott, þó flesta daga hafi verið einhver úrkoma, en
hún var þó yfirleitt lítil. Vægt næturfrost gerði einn
dag í september og nokkra daga í lok október, en í
byrjun nóvember kólnaði með töluverðu frosti og
éljum, sem hélst út mánuðinn.
Refaveiðar. Samkvæmt Magnúsi Kristinssyni,
refaskyttu í Austurhlíð, var legið á 13 grenjum
í sumar. Unnust alls 61 dýr, þar af 41 yrðlingur,
17 grendýr og 3 hlaupadýr. Öll gren sem fundust
voru í byggð, ekkert fannst í þekktum grenjum á
öllum Biskupstungnaafrétti.
Litli Bergþór á Tveim úr Tungunum
Útsendari Litla Bergþórs var með kynningarbás á
sveitarhátíðinni „Tvær úr Tungunum“ í ágúst og
tókst þar að krækja í þó nokkra nýja áskrifendur!
Ýmsir komu þar að máli
við hann og þökkuðu
fyrir ágætt blað og kunni
okkar maður vel að
meta það. Á hátíðinni
voru tilkynnt nöfn
á hringtorgunum í
Reykholti og heita þau
annars vegar Bjarnatorg
við Bjarnabúð og hins vegar Bjarkartorg við
Bjarkarbraut.
Tungnaréttir voru haldnar laugardaginn 9.
september í góðu veðri. Fjárfjöldi var svipaður
og undanfarin ár, nálægt 5000 fjár og fengu menn
gott veður á fjallinu. Á Haukadalsheiði heimtist
fjöldi fjár eftir fyrstu leit, milli 60 og 70 kindur,
og mun það að mestu hafa verið fé af afrétti,
sem slapp þangað. Í eftirsafn var farið síðustu
helgi í september og heimtust þá 72 kindur
samanlagt af inn- og framafrétti, auk sex kinda
sem sóttar voru í Einifell daginn áður en farið
var í leitina. Síðan hafa heimst 19 kindur og er
nú í desember ekki vitað um neina kind eftir á
afréttinum. Hlíðabændur voru enn að heimta fé af
Úthlíðarhrauni í lok nóvember.
Lýðheilsugöngur voru gengnar í Tungunum,
eins og víðar um land, öll miðvikudagskvöld
í september, til að hvetja unga sem aldna til að
hreyfa sig. Stóð Ferðafélag Íslands fyrir göngunum
í samvinnu við sveitarfélögin, en FÍ fagnar 90
ára afmæli í ár. Gengið var frá Aratungu, nema í
síðustu göngunni, þá var lagt upp frá Hrosshaga
og tóku 15-20 manns þátt í hverri göngu. Sveinn
Sæland, Helgi Kjartansson, Ásborg Arnþórsdóttir
og Sigríður J. Sigurfinnsdóttir voru leiðsögumenn
í göngunum, sem voru fræðandi og skemmtilegar
fyrir utan það að veita góða hreyfingu.
Leikskólabygging í Reykholti. Á fundi
sveitarstjórnar þann 12. september var fjallað um
tillögu VA arkitekta að nýrri leikskólabyggingu.
Til skoðunar voru tvær tillögur um staðsetningu.
Sveitarstjórn samþykkti, samhljóða,
að byggja skuli „nýja leikskólabyggingu
sérstæða milli bílastæða og sparkvallar,
til að gefa byggingu meira rými, betra
aðgengi og stækkunarmöguleika til
framtíðar litið“. Sveitarstjórn fól VA
arkitektum að halda áfram vinnu við
hönnun húsnæðisins að teknu tilliti til
staðsetningar.
Hvað segirðu til?
Fréttir úr Tungunum frá júní til desember 2017.
Þessi kom við í Kvistholti að morgni 17. júní.
Skyldi Maggi hafa náð honum?