Ársrit um starfsendurhæfingu - 2014, Side 59
59www.virk.is
AÐSEND GREIN
Algengar geðraskanir og
endurkoma til vinnu
Slæm geðheilsa er ein stærsta áskorun
vinnumarkaðarins í mörgum vestrænum
löndum (OECD 2012). Tuttugu prósent
fólks á vinnualdri þjást af algengum
geðröskunum (OECD 2012; Eaton,
Martins, Nestadt, Bienvenu, Clarke
og Alexandre 2008) sem eru vægt
eða miðlungsvægt þunglyndi, kvíði og
aðlögunarraskanir (s.s. andleg vanlíðan).
Afleiðingar algengra geðraskana eru ekki
eingöngu skert lífsgæði (Eriksson, Starrin
og Janson 2008), heldur líka fjarvera
vegna veikinda og skert starfsgeta (Harvey,
Henderson, Lelliott og Hotopf 2009;
Sanderson og Andrews 2006; Wang, Adair
og Patten 2006). Auk þessa hafa algengar
geðraskanir alvarleg áhrif á vinnugetu og
framleiðni (Lerner og Henke 2008) sem
kostar atvinnulífið í Stóra Bretlandi allt að
23,5 milljarða punda á ári (The Sainsbury
Centre for Mental Health 2007) og 20
milljarða evra á ári í Hollandi (Hartman,
Kartopawiro og Jansen 2009).
Fram að þessu hafa inngrip fyrir starfsfólk
með algengar geðraskanir aðallega
beinst að því að auðvelda þeim sem eru
fjarverandi vegna algengra geðraskana að
snúa aftur til vinnu. Í flestum íhlutunum
hafa líf–sál–félagsleg sjónarmið verið höfð
að leiðarljósi en með því er viðurkennt
mikilvægi þess að taka tillit til annarra þátta
en líffræðilegra svo sem ýmissa einkenna
algengra geðraskana (van der Klink,
Blonk, Schene og van Dijk 2003; Blonk,
Brenninkmeijer, Lagerveld og Houtman
2006; van Oostrom, van Mechelen, Terluin,
de Vet, Knol og Anema 2010; Hees, de
Vries, Koeter og Schene 2012; Lagerveld,
Blonk, Brenninkmeijer, Wijngaards-de
Meij og Schaufeli 2012). Rannsóknir hafa
sýnt að endurkoma til vinnu kemur ekki að
sjálfu sér í kjölfarið á minnkun einkenna
(Buist-Bouwman, Ormel, de Graaf og
Vollebergh 2004; Pachoud, Plagnol og
Leplege 2010). Af þessum sökum virðist
bið eftir að einkenni hverfi alveg, þegar
reynd er endurkoma til vinnu (ETV), ekki
líkleg leið til árangurs. Því hafa íhlutanir
til að auðvelda starfsmönnum ETV, eftir
fjarveru vegna algengra geðraskana, smám
saman þróast í stigvaxandi ETV, þrátt fyrir
að bata sé ekki að fullu náð. Í þessum
íhlutunum er lögð áhersla á sálræna
þætti (s.s. tilfinningar og hugarstarf) og
félagslega þætti (s.s. fjölskyldutengsl, vini
og ekki síst yfirmenn og samstarfsfólk)
sem gegna mikilvægu hlutverki í að
auðvelda fólki ETV. Nokkrar slembnar
samanburðarrannsóknir hafa verið gerðar
sem meta íhlutanir sem eiga að auðvelda
starfsfólki ETV eftir fjarveru vegna algengra
geðraskana. Margar þessara rannsókna
voru gerðar í Hollandi og almennt virðist
sem árangursríkar íhlutanir hafi verið
þær sem áttu sér stað í nánu samstarfi
við vinnustaðinn. Sem dæmi má nefna
virkniaukandi íhlutun sem þróuð var af van
der Klink og félögum (2003) til að auðvelda
einstaklingum með aðlögunarraskanir
ETV (van der Klink o.fl. 2003).
Íhlutuninni var stjórnað af sérfræðingum
í atvinnusjúkdómum (e. occupational
physicians) og var áhersla lögð á að
virkja þátttakendur til að endurheimta
stjórn á eigin lífi, bæði heima og í vinnu
og til að fylgja áætlun um stigvaxandi
ETV. Íhlutunin reyndist árangursrík við
að minnka þann tíma sem tók að snúa
aftur til vinnu. Þessi íhlutun hefur nú verið
samþætt leiðbeiningum um „Umsjón
sérfræðinga í atvinnusjúkdómum með
starfsmönnum með geðræn vandamál“
frá félagi sérfræðinga í atvinnusjúkdómum
í Hollandi (van der Klink 2007). Blonk
og félagar (2006) komust að þeirri
niðurstöðu að stutt vinnutengd íhlutun frá
þjálfuðum atvinnuráðgjöfum, sem fólst í
streitustjórnun og ráðgjöf um stigvaxandi
ETV, væri árangursríkari við að stytta
tímann til ETV en hugræn atferlismeðferð
hjá vönum sálfræðingum eða engin
meðferð hjá samanburðarhópnum
(Blonk o.fl. 2006). Niðurstöður íhlutunar
sem veitt var af heilbrigðisstarfsfólki
með minni tengingu við vinnustaðinn
sýndu ekki sama árangur. Til dæmis
notuðu Brouwers og félagar (2006) sömu
aðferðarfræði við íhlutun, sem þróuð var
af van der Klink, hjá sambærilegu þýði
(þ.e. starfsmönnum með minniháttar
geðraskanir), en létu félagsráðgjafa sjá um
íhlutunina (Brouwers, Tiemens, Terluin og
Verhaak 2007). Niðurstöður sýndu ekki
betri árangur við ETV hjá íhlutunarhópi
en hjá samanburðarhópi. Niðurstöður
Bakker og félaga (2007) sýndu ekki að
árangur við ETV væri meiri í samanborið
við hefðbundna meðferð, þó að heim-
ilislæknir fylgdist með lausnarmiðuðu
ferli sjúkraskrifaðra starfsmanna með
streitutengdar geðraskanir (Bakker, van
Marwijk, Terluin, Anema, van Mechelen
og Stalman 2010).
Endurtekin veikindafjarvera
og horfur eftir endurkomu til
vinnu
Óháð íhlutun koma um 70% starfs-
manna í veikindafjarveru vegna algengra
geðraskana aftur til starfa innan árs, en
20% til 30% þeirra upplifa endurtekna
veikindafjarveru eftir ETV (Koopmans,
Bultmann, Roelen, Hoedeman, van der
Klink og Groothoff 2011; Koopmans,
Roelen og Groothoff 2008). Endurtekning
algengra geðraskana er ekki það sama og
endurtekin veikindafjarvera vegna þeirra,
vegna þess að algengar geðraskanir leiða
ekki alltaf til veikindafjarveru. Delphi-
rannsókn Norder og félaga (2012)
sýndi að af þeim 69 forspárgildum fyrir
endurtekið þunglyndi sem er að finna
í fræðigreinum, töldu sérfræðingar í
atvinnusjúkdómum og vísindamenn
með sérþekkingu á ETV og geðheilsu,
einungis 21 þeirra hafa líklegt forspárgildi
fyrir endurtekna veikindafjarveru vegna
þunglyndis (Norder, Roelen, van Rhenen,
Buitenhuis, Bultmann og Anema 2012).
Því er þörf fyrir fleiri rannsóknir sem fjalla
um hvernig megi fyrirbyggja endurtekna
veikindafjarveru og ná viðvarandi ETV
hjá starfsfólki með algengar geðraskanir.
Starfsmenn lögðu einnig áherslu á
mikilvægi góðrar ráðgjafar eftir ETV. Í
viðtalsrannsókn Noordik og félaga (2011)
kom í ljós að starfsmenn sem komu aftur
í hlutavinnu eftir veikindafjarveru vegna
algengra geðraskana áttu á brattann að
sækja vegna lítils samskiptastuðnings
á vinnustað og við innleiðingu lausna
vegna vinnutengdra hindrana (Noordik,
Nieuwenhuijsen, Varekamp, van der Klink
og van Dijk 2011).
„Almennt virðist sem
árangursríkar íhlutanir hafi
verið þær sem áttu sér
stað í nánu samstarfi við
vinnustaðinn.“