Fréttir - Eyjafréttir - jul. 2019, Blaðsíða 33
33
Þuríður er fædd í Vestmannaeyjum
árið 1954 og er dóttir hjónanna
Bernódus Þorkelssonar, skipstjóra og Aðal-
bjargar Jóhönnu Bergmundsdóttur. Bjuggu
þau á Borgarhól við Kirkjuveg. Þuríður er
gagnfræðingur að mennt, með verslunarpróf
frá GÍV og er viðurkendur bókari frá Háskóla
Reykjavíkur. Hún starfar í dag sem þjónustu-
fulltrúi hjá Þjónustumiðstöð Grafarvogs.
Að hafa alist upp í Eyjum finnst
mér vera mikil forréttindi.
Þessar minningar um kletta og
sprungur, fisk og bryggjur, fjöru
og urð, hundasúrur og söl leita
oft á mann þegar maður leggst á
koddann á kvöldin og hugurinn
reikar heim til Eyja þegar maður
fékk að klifra upp á skúra, fara á
fjöll, veiða niður í fjöru og hætt-
urnar virtust víðs fjarri. Já, ég
segi ávallt heim til Eyja, þar sem
ég hélt, og held kannski enn, að hafi verið miðjan
á veröldinni. Skyldu það ekki vera þær dásamlegu
minningar sem við eigum öll um sólardagana í Eyj-
um, á uppvaxtarárum okkar, þegar áhyggjur lífsins
höfðu enn ekki verið fundnar upp.
Leiksvæðið í kringum Borgarhól þar sem ég ólst
upp og búðirnar þar í kring fannst mér vera miðjan
á veröldinni – þekktum ekki að flakka á milli bæjar-
hluta nema til að selja blöð. Í kringum Borgarhól
voru nokkrar verslanir og má þar meðal annars
nefna Bókabúðina, Brynjúlfsbúð, Framtíðina eða
Tommabúð. Mömmur okkar hittust í kaffi þegar
búið var að vaska upp og ganga frá eftir hádegið.
Eitthvað sem enginn má vera að í nútímanum. Við
krakkarnir fórum saman í skólann, lékum okkur
saman eftir skóla og langt fram á kvöld.
Í Borgarhól var sægur af krökkum, þegar mest var
vorum við sjö talsins heima og að sjálfsögðu fylgdi
okkur mikið af vinum. Mínar æskuvinkonur í mið-
bænum voru Finna í Klöpp, Sigrún í skóbúðinni,
Inga Þórðar, Hrafnhildur Hlöðvers, Hulda Grens og
Gréta í Gamla bankanum.
Vinir Jóns bróður voru karakterar eins og Jósúa
Steinar á Gamla-Spítalanum, Páll Magnússon, fyrr-
verandi útvarpsstjóra, Palla á Stöðinni eins og hann
hét þá, og Einar Ottó á Lágafelli. Þeir voru fjörmiklir
og uppátækjasamir allir.
Þeir voru heldur prúðari vinir Helga bróður, Ant-
oníus Svavarsson, Toni í Byggðarholti, síðar í Bank-
anum, Andrés í Magnúsarbakaríinu og Kristinn í
Vogsabakaríi, einnig man ég eftir Gylfa í Húsavík og
Friðriki Jósepssyni. Það var alltaf mikið líf í Borgar-
hól og í þessu litla húsi virtist alltaf vera pláss fyrir
alla.
Það var einnig stutt í frystihúsin.
Eftirvæntingin var alltaf mikil hjá okkur krökkun-
um í Miðbænum þegar vertíðin byrjaði. Þá fylltist
bærinn af aðkomufólki úr sveitunum á Suðurlandi
til að vinna í frystihúsunum. Herðabreiðir strákar
að norðan og Austfirðingar með klút um hálsinn.
Þessir farandverkamenn gistu á verðbúðunum,
bæði í Ísfélaginu, Fiskiðjunni og í Edinborg, en það
voru verbúðir Hraðfrystistöðvarinnar. Aðkomu-
fólkið festi margt rætur í Eyjum og ástarbálin lifa
sum enn.
Einnig man ég eftir færeyingum sem komu til Eyja
á vertíðir.
Vertíðarfólkinu fylgdi „bisness“ fyrir okkur krakk-
ana í Miðbænum en það var að „standa í röð“ fyrir
böllin. Við tókum 25 kr. á miðann en hver maður
mátti kaupa 12 miða. Skömmu fyrir opnun miðasöl-
unnar kom svo sá sem samið var við, tók við pláss-
inu í röðinni, gerði upp við okkur og keypti miðana.
Oft voru þessar raðir það langar við miðasölu Sam-
komuhússins að þær náðu að skóverslun Axels Ó.
Ég hugsa oft um það hvað það eru mikil forréttindi
að hafa upplifað þessa tíma. Bátarnir komu drekk-
hlaðnir í land og unnið í frystihúsunum langt fram
eftir kvöldi. Tóti í Turninum sá um að upplýsa
heimamenn um hvenær bátarnir kæmu að landi og
stemningin mikil.
Ég ætla að láta það verða lokaorð mín hér að minn-
ast á blaðasöluna sem við krakkarnir í Miðbænum
höfðum algeran forgang að. Við seldum pólitísku
blöðin, Fylki, Framsóknarblaðið, Brautina og
Eyjablaðið. Það giltu síðan óskráð lög um hver átti
hverja götu. Á mínum götum voru margar skemmti-
legar persónur, Gaui í Vallartúni, Lulla, kona Gulla
í Gerði, sem gaf manni alltaf aukakrónu í hinn vas-
ann. Ekki datt mér í hug í þá daga, þegar ég stóð við
dyrnar hjá Lullu, að ég ætti sjálf eftir að eiga þetta
fallega rauða hús við Helgafellsbrautina.
Svona var þetta á æskustöðvunum „heima í Eyj-
um“. Og veröld okkar barnanna sem fædd erum
um miðja síðustu öld í sjávarplássi, eins og Eyjum,
höfum upplifað mikinn framfaratíma en æskan í
Eyjum var dásamleg.
Eg er afar þakklát fyrir árin mín í Eyjum og sann-
arlega eru Eyjar í hjarta mér. Ekki stundum heldur
alltaf.
1954
Horft heim til Eyja
eyjarnar fögru
Þuríður Bernódusdóttir
Þuríður
Bernódusdóttir
Æskuheimili Þuríðar, Borgarhóll, stóð við
Kirkjuveg 11 og fór undir hraun í lok mars 1973.