Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Blaðsíða 41
41 TÍMARIT HJÚKRUNARFRÆÐINGA
Stuðlað að góðum nætursvefni á hjúkrunarheimilum
móttækileika hans við hugsanlegum úrræðum. Spurningar
á borð við: „Í hverju felst góður nætursvefn að þínu
mati?“ „Hvaða ráð reynast þér best til að tryggja góðan
nætursvefn?“ og „Hversu endurnærð/ur vaknar þú á
morgnana?“ gefa dýrmætar upplýsingar um mat hins aldr-
aða á eigin svefni ef möguleiki er að ræða það við hann
(Herrmann og Flick, 2011). Mikilvægt er að fagfólk spyrji
sérstaklega út í svefn við flutning á hjúkrunarheimilið því
svefnvandi er sjaldnast nefndur að fyrra bragði (Bloom
o.fl., 2009). Það má búast við að svefnmynstur raskist við
flutningana og því mikilvægt að vita stöðu mála heima
fyrir til að greina milli eldri og nýrri svefnvandamála.
Góðar svefnvenjur og ýmis úrræði
Þegar aldraðir íbúar hjúkrunarheimila voru spurðir
um mikilvægustu ráð að eigin mati til að stuðla að
góðum nætursvefni snerust svörin fyrst og fremst um
þrjá þætti: innri ró, virkni yfir daginn og umhverfisþætti.
Að róa hugann á kvöldin með eða án aðstoðar opnar
ýmsa möguleika fyrir starfsfólk til að stuðla að bættum
nætursvefni, en mikilvægt er að gera það á einstaklings-
grunni. Virkni yfir daginn, sérstaklega ef útivera fylgir,
bætir gæði svefns að mati aldraðra íbúa hjúkrunarheimila.
Að virknin hafi merkingu líkt og vinnan hafði áður hjálpar
til við góðan nætursvefn að þeirra mati. Tækifærin til þess
þurfa að vera næg og þar kemur að hlutverki starfsfólks
að sýna útsjónarsemi til að leyfa einstaklingnum að njóta
sín þrátt fyrir þær takmarkanir sem heilsan setur. Einnig
kom fram að öldruðum íbúum hjúkrunarheimila finnst þeir
jafnan ekki hafa næg áhrif á sitthvað í kringum sig á borð
við hitastig herbergis og birtustig nema með samtali við
stafsfólk (Herrmann og Flick, 2011).
Þessi atriði ríma við almennar ráðleggingar um æski-
legar svefnvenjur og verða hér heimfærðar á íbúa hjúkr-
unarheimila. Fyrst ber að nefna mikilvægi þess að viðhalda
reglubundnum takti yfir daginn með svipuðum fótaferðar-
tíma og háttatíma dag frá degi. Síðan þarf að leitast við
að lágmarka svefn yfir daginn og forðast koffín og nikótín
eins og unnt er, viðhalda virkni yfir daginn og stunda
hreyfingu við hæfi. Einnig þarf að gera nauðsynlegar
umhverfisbreytingar, að deginum er gott að hafa umhverf-
ið bjart og njóta útiveru þegar það er mögulegt (Neikrug
og Ancol-Israel, 2010). Þetta eru hvorki tæknilega né
fræðilega flókin atriði, kostnaðarsöm né erfið í framkvæmd
og hægt að laga að starfi hvaða hjúkrunarheimilis sem er
til að stuðla að bættum nætursvefni íbúanna.
Notkun lyfja til að bæta gæði svefns
Klínískar leiðbeiningar Embættis landlæknis mæla
gegn notkun benzódíazepín-skyldra lyfja hjá öldruðum og
landlæknir leggur áherslu á að nota eins litla skammta og
komist verður af með og í eins stuttan tíma og mögulegt
er (Einarsdóttir o.fl., 2008). Þau eru hins vegar jafnan
gefin til að hjálpa fólki að vera fljótara að sofna og ná
lengri heildarsvefntíma. Þau hafa neikvæð áhrif á svefn
til lengri tíma litið þar sem þau m.a. draga úr djúpsvefni.
Þegar þau hafa verið tekin í u.þ.b. fjórar vikur finnur fólk
fyrir fráhvarfseinkennum ef inntöku er hætt skyndilega, en
sefandi áhrif minnka þar sem líkaminn myndar þol fyrir
þeim áhrifum lyfsins (Bourgeois o.fl., 2013).
Aldraðir á hjúkrunarheimilum, sem hafa notað
benzódíazepínlyf til lengri tíma, eiga erfiðara með að
sofna, vakna oftar yfir nóttina og finnst þeir oftar of lítið
hvíldir að morgni en þeir sem ekki taka slík lyf. Tíminn,
sem tekur að sofna, er ekki styttri, klósettferðir um nætur
eru jafnalgengar, og þeir ná ekki lengri svefni að jafnaði.
Þeir eru þreyttari að morgni en þeir sem taka ekki slík lyf,
líklegri til að vera með verki og vakna á nóttunni vegna
verkja ásamt því að taka frekar sterk verkjalyf að staðaldri
sem einnig rýra gæði svefnsins. Því fleiri lyf sem aldraðir
taka því verri áhrif hefur það á gæði svefns. Algengara
er að þeir sem taka benzódíazepínlyf taki fleiri lyf að
staðaldri en viðmiðunarhópurinn og það rýrir aftur gæði
svefns hjá þeim. Það er mismunandi eftir hjúkrunarheim-
ilum hve margir taka benzódíazepínlyf. Það reynist ekki
vera í sama hlutfalli og svefnvandamál íbúanna en það
skýrist a.m.k. að hluta til af viðhorfum fagfólks til svefn-
vandamála íbúanna og úrræðum sem notuð eru (Bourgeois
o.fl., 2013).
Melatónín og meðferð með björtu ljósi
Melatónín er hormón sem framleitt er í heilaköngli og
stýrir svefn- og vökustigi líkamans. Melatónínframleiðsla
minnkar með hækkandi aldri, sérstaklega hjá einstakling-
um með Alzheimer (Zhou o.fl., 2012). Sýnt hefur verið
fram á að melatónín í töfluformi hjálpar öldruðum að
sofna en hefur ekki marktæk áhrif á svefngæði, heildar-
svefntíma eða svefnmynstur (Tabloski, 2014). Hins vegar
hefur tekist að sýna fram á betri verkun ef melatónín
er notað með ljósameðferð (bright light therapy). Ráð-
leggingar um styrkleika ljóss og tímalengd eru misvísandi
en fjölmargar rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif en ekki
alltaf martæk tengsl við bætt gæði svefns (Landry og
Liu-Ambrose, 2014). Meðferð við svefnvandamálum hjá
íbúum með heilabilun með björtu ljósi hefur ekki sannað
sig þar sem niðurstöður rannsókna hafa fallið í báðar áttir,
hugsanlega er það ólíkt og flókið rannsóknarsnið sem
veldur því (Ploeg og O’Connor, 2014).
Hreyfing og félagsleg virkni
Til að stuðla að bættum nætursvefni hjá íbúum hjúkr-
unarheimila þarf að huga að mörgum þeim sömu eða svip-
uðu þáttum og hjá þeim sem yngri eru. Meginmunurinn er
að svefnvandamál eru algengari meðal aldraðra. Hreyfing
og hvers kyns virkni yfir daginn bætir svefn og almenna
líðan. Sífellt sterkari rök eru fyrir því að meiri félagsleg og
líkamleg virkni styðji við svefn-vökumynstur einstaklings-
ins og bæti þannig svefngæði og lífsgæði hans. Hreyfing
við hæfi hvers og eins dregur úr líkamlegum óþægindum,
kvíða og þunglyndiseinkennum og kemur meira jafnvægi