Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2016, Blaðsíða 62
62 TÍMARIT HJÚKRUNARFRÆÐINGA
Langvinn lungnateppa og aldraðir
Næring
Gott næringarástand er mikilvægt til að viðhalda
líkamlegu og andlegu heilbrigði. Vannæring er algeng
hjá einstaklingum með LLT, allt að 25-40% þeirra
sýna merki vannæringar (Itoh o.fl., 2013). Hröð og
erfið öndun krefst mikillar orku. Orkuþörf einstaklinga
með LLT er almennt 10-15% meiri en hjá heilbriðgum
einstaklingum (Schols o.fl., 2014). Lélegt næringarástand
veikir mótstöðuafl líkamans, rýrir vöðva og eykur líkur á
sýkingum. Forvörn er besta ráðið gegn vannæringu. Mat
á næringarástandi er því mikilvægur þáttur í að greina
þá sem eiga vannæringu á hættu. Mat þarf að fara fram
strax við upphaf þjónustu og reglubundið eftir það. Mælt
er með að nota líkamsþyngdarstuðul (Body Mass Index,
BMI) og fitulausan þyngdarstuðul (Fat Free Mass Index,
FFMI) til að greina eintaklinga sem eru í aukinni áhættu
á vannæringu. Einstaklingar með BMI undir 21 kg/m² og
FFMI undir 16 kg/m² eru í meiri hættu en aðrir. Ósjálfrátt
þyngdartap, meira en 10% á síðustu 6 mánuðum eða 5%
á 1 mánuði, gefur einnig vísbendingu um vannæringu
(ATS, 2015). Á hjúkrunarheimilum er hægt að styðjast
við RAI-mat (Resident assessment instrument) við skimun
á vannæringu. RAI-mælitækið inniheldur breytur er taka
til þyngdarbreytinga, vandamála við að nærast og aðferða
við næringargjöf. Matstækið inniheldur einnig þætti sem
meta munnheilsu og vökvainntekt (Ingibjörg Hjaltadóttir
o.fl., 2007). RAI-mat er reglubundið mat sem er fram-
kvæmt við upphaf dvalar og einnig þrisvar á ári. Við mat
á næringarástandi þarf að hafa í huga hvaða þættir það
eru sem geta haft áhrif á fæðuinntekt. Algegnast er að
ójafnvægi milli orkuinntektar og orkuþarfar valdi vannær-
ingu. Aldurstengdar breytingar, eins og tap á bragðskyni,
léleg tannheilsa, kyngingarvandamál og minnkuð matar-
lyst, hafa áhrif á fæðuneyslu (Schols o.fl., 2014). Þreyta
og mæði hafa áhrif á getu og úthald við að nærast og
veldur minni næringarinntekt. Að borða smærri mátíðir
og oftar yfir daginn, velja mjúka fæðu, sem auðvelt er
að tyggja, og hvíld fyrir matmálstíma eru ráð sem geta
hjálpað til við að auka næringarinntekt. Einstaklingum
með LLT er ráðlagt að neyta orku- og próteinríkrar fæðu.
Auka má kaloríuinntekt með því að bæta olíu, smjöri eða
rjóma út á fæðuna. Neysla á ávöxtum, grænmeti, ómett-
uðum fítusýrum ásamt inntöku á C-, E- og D-vítamíni er
æskileg og gagnast vel í að bæta almennt næringarástand.
Trefjar eru nauðsynlegar til að örva meltingu og koma í
veg fyrir hægðartregðu. Mælt er með að neyta 20-30 g af
trefjum á dag ásamt nægum vökva til að viðhalda vökva-
jafnvægi og þynna slím (COPDFoundation, 2012; Schols,
2014). Næringardrykkir, er innihalda mikla fitu, gagnast
þeim sem ekki ná að auka orkuinntekt með breytingu á
mataræði. Sýnt hefur verið fram á að auka næringarinn-
taka samhliða hreyfingu bætir bæði gripstyrk og veldur
þyngdaraukingu hjá einstaklingum með LLT (Itoh o.fl.,
2013).
Svefn
Góður svefn bætir almenna líðan þeirra sem eru með
langvinna lungnateppu ásamt þvi að styrkja líkamann
til að takast á við dagleg verkefni (Tabloski, 2014).
Svefntruflanir eru algengar hjá einstaklingum með LLT.
Svefnleysi er algengasta svefntruflunin, en það lýsir sér í
því að fólk er lengi að sofna, nær ekki nægilega löngum
svefni og fær því ekki nægilega hvíld. Fótaóeirð og
kæfisvefn geta haft áhrif á gæði svefns og þarf að hafa
þau atriði í huga (Budhiraja o.fl., 2015). Svefn hefur
áhrif á öndun, það hægir á henni og vöðvasamdráttur
breytist. Aukin hætta er á að súrefnisgildi falli í svefni hjá
þessum skjólstæðingum og getur það leitt til truflunar á
svefnmynstri (McNicholas o.fl., 2013). Grunnur að góðri
meðferð við svefntruflunum felur í sér mat á svefni og
svefnmynstri til að greina orsakir svefntruflananna. Gott
mat felur í sér spurningar, s.s. tímalengd svefns, gæði hans
og svefnvenjur. Meta þarf hvort einkenni eins og hósti og
uppgangur séu til staðar og trufli svefninn. Svefnskrá er
gott tæki sem getur hjálpað til við greiningu svefntruflana
og hvaða þættir hafa truflandi áhrif á svefn (Budhiraja
o.fl., 2015). Meðferð við svefntruflunum fer eftir orsökum
þeirra. Hugræn atferlismeðferð, sem miðar að því að nýta
rúm og svefnherbergi eingöngu til svefns, bætir svefn hjá
öldruðum sem þjást af svefnleysi (Tabloski, 2014). Rólegt
andrúmsloft á kvöldin, heit sturta og fótanudd eru ráð sem
nýst hafa vel við svefnleysi. Algengt er að nota vöðvaslak-
andi lyf og svefnlyf við svefntruflunum.Varlega skal þó
farið í notkun á þessum lyfjaflokkum vegna hugsanlegra
aukaverkana á öndun og meðvitund, einkum hjá öldruð-
um. Meta þarf reglulega þörf fyrir þessi lyf og varast
skal að nota þau í langan tíma. Rannsóknir sýna að ýmis
náttúrulyf geta bætt svefn, t.d. Melatonin sem bætir svefn
án þess að hafa áhrif á öndun eða meðvitund (Budhiraja
o.fl., 2015).
Lokaorð
Hjúkrun aldraðra með langvinna lungnateppu er
yfirgripsmikil og krefst góðrar þekkingar þeirra sem hana
veita. Fræðsla er mikilvæg til þeirra sem veita ummönnun
og eru hjúkrunarfræðingar í lykilstöðu til að veita þá
fræðslu. Með aukinni fræðlu eykst skilningur á LLT og hvað
þarf að hafa í huga við umönnun þessa skjólstæðingahóps.
Það skilar sér í betri og markvissari hjúkrun.
Mikil áhersla er á lungnanendurhæfingu
sem meðferðarúrræði fyrir einstakinga með LLT.
Lungnaendurhæfing felur í sér þætti eins og hreyfingu,
næringu, fræðslu, slökun og síðast en ekki síst aðstoð við
reykleysi. Lítið hefur verið rætt um lungnaendurhæfingu
hjá öldruðum sem dvelja á hjúkrunarheimilum. Þrátt fyrir
háan aldur og stofnanavist ætti lungnaendurhæfing að
vera í boði fyrir þennan aldurshóp. Auðveldlega má aðlaga
þá þætti, sem taldir voru upp hér að framan, að líkamlegri
og andlegri getu hins aldraða og bæta þannig líf hans og
líðan síðustu æviárin.