Skírnir - 01.04.2005, Blaðsíða 8
Frá ritstjórum
Hið íslenska bókmenntafélag stóð að útgáfu tveggja tímarita 1880-1904. Annað
var fréttaritið Skírnir sem komið hafði út frá 1827, lengst af á vegum Kaupmanna-
hafnardeildar félagsins, en Reykjavíkurdeildin sá hins vegar um útgáfu á Tímariti
Hins íslenska bókmenntafélags á þessu árabili. Fyrir réttri öld, árið 1905, voru þau
sameinuð undir heitinu Skírnir - Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags. Fyrsti
ritstjóri eftir sameininguna var Guðmundur Finnbogason sálfræðingur og mennta-
frömuður. Hann jók meðal annars hlut samtímabókmennta í tímaritinu og fékk
Einar Benediktsson til að fylgja hinum nýja Skírni úr hlaði með skáldlegri kveðju.
Jörgen L. Pind fjallar um feril Guðmundar í þessu hefti og leiðir í ljós hve áhrif
hans voru víðtæk í íslenskri menningu, þó að mest kvæði að honum í þeirri fræði-
grein sem hann lagði fyrir sig, sálfræðinni, sem hann kenndi um skeið sem prófessor
við Háskóla íslands.
„Ég skildi að orð er á íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu“, orti Einar Bene-
diktsson eitt sinn. Skáld Skírnis að þessu sinni, Megas, tekur annan pól í hæðina og
slettir óspart og dansar jafnvel línudans á milli merkingar og merkingarleysu sem
minnir meira á Æra-Tobba en Einar Ben. Hann vekur þá spurningu að hve miklu leyti
íslenskan sé eyland og hversu opin hún sé, eða ætti að vera, fyrir erlendum áhrifum.
Vafalaust þrífst hún nokkuð á þeim slettum sem gusast upp úr alþjóðlegum potti sam-
tímans og víst er að alltaf þarf að reyna á þolmörk málsins. Menningarblanda af ýmsu
tagi er reyndar viðfangsefni myndlistarmanns Skírnis, Gabríelu Friðriksdóttur, eins
og Auður Ólafsdóttir gerir skemmtilega grein fyrir í lok þessa heftis.
Hvernig er réttast að gefa út gamla texta, spyr Haraldur Bernharðsson í Skírn-
ismálum sínum. Eiga fræðilegar útgáfur að vera samræmdar eða eiga útgefendur að
halda til haga sérkennum og sundurleitni miðaldatexta og hylla þannig þá fjöl-
breytni sem setur svip sinn á lifandi málnotkun á hverjum tíma? Miðaldabók-
menntunum sjálfum eru gerð ítarleg skil í heftinu. Óttar M. Norðfjörð gerir grein
fyrir hugtakakerfi Hávamála, hvernig siðahugtökin hanga saman og mynda heild.
í grein sinni um skáldamjöðinn fjallar Jón Hnefill Aðalsteinsson um viðbrögð
kristinna miðaldamanna við þessari heiðnu goðsögn. Sverrir Jakobsson athugar
annan flöt á viðhorfum kristinna miðaldamanna, þekkingu þeirra á klofningi
kristninnar á elleftu öld. Sverrir Noregskonungur er hins vegar viðfangsefni Ár-
manns Jakobssonar, hvernig Sverris saga réttlætir konungstign hans.
Þjóðernið kemur við sögu í tveimur greinum, þótt á ólíkan hátt sé. Katrín Jak-
obsdóttir fæst við „merkingarlausa" íslendinga samtímans í glæpasögum Arnaldar
Indriðasonar. Sigríður Matthíasdóttir skýrir hugmyndir sínar um þjóðerni og kyn-
gervi í Skírnismálum og svarar grein Vals Ingimundarsonar og Sigríðar Dúnu
Kristmundsdóttur í síðasta hefti Skírnis. Kyngervi skipar einnig veglegan sess í
annarri tveggja greina um nýlegar ævisögur, því að Páll Björnsson gerir efninu
nokkur skil í umfjöllun um ævisögu Jóns forseta eftir Guðjón Friðriksson. f hinni
greininni ræðir Ragnheiður Kristjánsdóttir um ævisögu Laxness eftir Halldór
Guðmundsson.
Svavar Hrafn Svavarsson og Sveinn Yngvi Egilsson