Gríma - 24.10.1932, Blaðsíða 81
NAUTHVELI A SKJÁLFANDA
79
gangi og boðaföllum. Skipverjar urðu fjöri fegnir
og reru í skyndi heim til sín. — Nokkurn tíma eftir
þenna atburð heyrðist öskur nauthvelisins öðru
hvoru úr Grímsey, og þorðu eyjarskeggjar ekki að
sækja kú í annað sinn. En svo hvarf nauthveli þetta
af þeim slóðum og hefur þess ekki orðið vart síðan;
hafa Grímseyingar oft flutt kýr út í eyna síðan og
jafnan gengið slysalaust.
26.
„Mtkið er andvaralejsl mannanna!"
(Eftir handriti Hannesar Jónssonar í Hleiðargarði. Sögn
Daníels Daníelssonar í Hólakoti).
Einu sinni var vinnukona í Hólum í Eyjafirði lát-
in vaka þar yfir túninu að vorlagi; var nótt albjört.
Eina nótt, er hún var úti við, sótti hana svefn ákaf-
lega; var hún þá stödd rétt við kirkjugarðinn. Af
því að hún sá engar skepnur í nánd, lagðist hún und-
ir kirkjugarðinn og sofnaði þegar. Ekki vissi hún,
hve lengi hún svaf, en hana dreymdi, að ókenndur
maður kæmi fram á kirkjugarðinn yfir höfði henni.
Stóð náungi þessi kyrr nokkra stund og yrti ekki á
hana, en loksins tók hann til máls með hárri og
hvellri röddu og mælti: »Mikið er andvaraleysi mann-
anna!« Við þessi orð hans hrökk stúlkan upp og
þóttist um leið sjá manninn hverfa inn af garðinum.
Stóð hún þá upp og litaðist um. Hefur hún vafalaust
sofið töluvert lengi, því að þá var túnið orðið fullt
af fénaði. — Hefur garðbúa ekki þótt stúlkan rækja
starf sitt sem skyldi.