Bændablaðið - 28.01.2016, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 28. janúar 2016
Ráðstefnan „Tímavélin hans Jóns“ vel sótt:
Íslendingar standa á þröskuldi
nýs upphafs í skógrækt
Stór hluti fagfólks í skógrækt á
Íslandi kom saman á Egilsstöðum
dagana 19.–20. janúar til að fagna
sjötugsafmæli Jóns Loftssonar sem
lét af störfum um áramótin og
halda ráðstefna honum til heiðurs.
Jafnframt hittist starfs-
fólk Skógræktar ríkisins og
Landshlutaverkefna í skógrækt á
sameiginlegum starfsmannafundi
vegna væntanlegrar sameiningar í
nýja stofnun, Skógræktina.
Á starfsmannafundinum ræddi
nýr skógræktarstjóri, Þröstur
Eysteinsson, um þau verkefni sem
fram undan væru í skógrækt á næstu
árum. Breytinga væri að vænta með
nýrri stofnun auk þess sem vinna yrði
að því að auka skógrækt í landinu á
ný. Björn Barkarson, sérfræðingur í
umhverfis- og auðlindaráðuneytinu,
sagði mikilvægt að vandað yrði til
verka við sameiningarmálin og
unnið markvisst enda stefnt að því að
sameiningin taki gildi 1. júlí. Arnar
Jónsson, ráðgjafi hjá Capacent,
ræddi um sameiningarstarfið næstu
vikur og mánuði og víðtækt samráð
sem þar yrði viðhaft.
Síðdegis sama dag var haldinn
fundur fyrir fyrir fullu húsi á Hótel
Héraði þar sem var kynnt möguleg
stofnun afurðamiðstöðvar viðar-
afurða á Austurlandi eins og fjallað
er um annars staðar hér í blaðinu.
Ráðstefnan „Tímavélin
hans Jóns“
Daginn eftir fór fram ráðstefna til
heiðurs Jóni Loftssyni sem lét af
störfum um áramótin eftir 26 ár í
embætti skógræktarstjóra en alls
ríflega 40 ára starf hjá Skógrækt
ríkisins. Heiti ráðstefnunnar,
„Tímavélin hans Jóns“, vísar til
þess þegar Jón fór með bændur um
Hallormsstaðaskóg, sýndi þeim
plöntur í uppeldi í gróðrarstöð,
ungar og efnilegar trjáplöntur úti
í skógi og loks 40–50 ára gamlan
lerkiskóg í Guttormslundi til að sýna
þeim fram á möguleika skógrækt-
ar á bújörðum. Ríflega 160 manns
sátu ráðstefnuna í Valaskjálf. Þetta er
ein stærsta skógræktarráðstefna sem
haldin hefur verið og var umtalað
meðal ráðstefnugesta að fyrirlestrar
hefðu verið hver öðrum betri.
Skógrækt frá stríðslokum
til okkar daga
Fyrri hluti ráðstefnunnar var helgað-
ur skógræktarstarfi í landinu síðustu
70 ár með sitkagreni í brennidepli.
Helgi Sigurðsson, dýralæknir og
sagnfræðingur, rakti í fyrsta fyrir-
lestrinum upphafsár skógræktar og
sandgræðslu á Íslandi upp úr alda-
mótunum 1900. Þar kom greinilega
fram hvílíkt mótlæti fyrsti skóg-
ræktarstjórinn, hinn danski Agner
Kofoed-Hansen, mátti þola á ferli
sínum, m.a. frá hendi bændafor-
ystunnar og alþingismanna þótt hann
ætti sér líka trausta fylgismenn.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, for-
stöðumaður Rannsóknastöðvar
skógræktar, Mógilsá, fjallaði um
Hákon Bjarnason sem tók við skóg-
ræktarstjórastöðunni 1935 og lagði
grunninn að því sem síðar varð,
ekki síst með því að fara vestur
um haf og finna nýjar trjátegundir
til skógræktar. Ein þeirra tegunda
var einmitt sitkagrenið sem nú er
ein fjögurra helstu nytjategunda í
skógrækt hérlendis. Engin tegund
myndar meiri við og bindur meira
kolefni en sitkagreni.
Betri vöxtur en búist var við
Fyrstu hugmyndir Íslendinga um
timburskóga voru umfjöllunarefni
Þorbergs Hjalta Jónssonar, skóg-
fræðings á Mógilsá, sem minntist
á þær hugmyndir Páls Jónssonar
Vídalíns og Arngríms Þorkelssonar
Vídalíns frá því um aldamótin
1700 að hefja nýræktun skóga með
erlendum timburtrjám. Lítið fór þó
að gerast fyrr en um 200 árum síðar
og framan af 20. öld var skógrækt
á Íslandi einkum stunduð til að afla
eldiviðar. Við lok seinni heims-
styrjaldarinnar fóru menn fyrst að
huga fyrir alvöru að timburskóg-
rækt. Um 1950 var gert ráð fyrir
að viðarvöxtur sitkagrenis yrði 2–3
rúmmetrar á hektara á ári en grenið
óx framar vonum og mældur við-
arvöxtur reyndist 5,6 rúmmetrar á
ári á hverjum hektara og sums staðar
mun meiri. Þorbergur Hjalti telur að
Íslendingar standi nú á þröskuldi nýs
upphafs í skógrækt.
Myndir / Pétur Halldórsson